31.01.1956
Sameinað þing: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (2476)

147. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Það er kunnugt, að Þjóðvarnarflokkurinn hefur frá upphafi verið andvígur hæstv. núverandi ríkisstj. og stefnu hennar. Hann hefur lagt á það ríka áherzlu, að stefnubreytingar og nýrrar stjórnar væri þörf. Nú er í ljós komið með gleggri hætti en nokkru sinni fyrr, hvað leiða muni af stefnu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Með þeim gífurlegu nýju álögum á allan landslýð, sem hæstv. ríkisstj. hefur að nokkru fengið samþ. nú þegar, en eru sumpart enn til meðferðar hér á Alþ„ er svo óstjórnlega hert á gangi verðbólguskrúfunnar, að algert hrun íslenzks gjaldmiðils blasir við á næsta leiti.

Við þjóðvarnarmenn lítum svo á, að hér sé um að ræða raunverulegt gjaldþrot núverandi stjórnarstefnu, hæstv. ríkisstj. hafi gefizt upp við lausn þeirra vandamála, sem við blasa. Við teljum því eðlilegt og raunar sjálfsagt, að það sé nú kannað á þinglegan hátt, hvort núverandi hæstv. ríkisstj. nýtur enn atfylgis meiri hluta hv. alþm., og það komi í ljós, hverjir fáist til að votta henni traust. Af þessum sökum höfum við lagt fram till. þá um vantraust á ríkisstj., sem nú er hér til umr.

Í gærkvöld fóru fram hér í Sþ. almennar stjórnmálaumr., sem útvarpað var um land allt. Með skírskotun til þess, að þær umr. snerust nær eingöngu um stefnu hæstv. ríkisstj., sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um vantrauststill. Ég tel, að í ræðum okkar þm. Þjóðvfl. í gærkvöld hafi vantrauststill. verið rækilega rökstudd, og leyfi mér að vísa til þess rökstuðnings. Mun ég því ekki hafa hér um fleiri orð, nema sérstakt tilefni gefist, en vænti þess, að hæstv. forseti sjái svo um, að atkvgr. um vantrauststill. fari fram svo fljótt sem við verður komið.