31.01.1956
Sameinað þing: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (2478)

147. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Alþfl. vantreystir hæstv. ríkisstj. Við Alþýðuflokksmenn munum því greiða atkvæði með þessari till. Hins vegar get ég ekki hjá því komizt að lýsa nokkuð undrun minni á því, hvern tíma hv. flm. velja til þess að bera þessa till. fram, og að þeir skuli óska afgreiðslu á henni áður en afgreiðslu fjárlagafrv. og frv. um framleiðslusjóð, sem báðir stjórnarflokkarnir standa sameiginlega að, er lokið. Slíkt gæti til þess bent, að áhugi flm. fyrir stjórnarskiptum sé í rauninni minni en þeir vilja vera láta og láta líta út fyrir.