19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (2486)

25. mál, vélar og verkfæri til vega- og hafnargerða

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst láta í ljós ánægju mína yfir því, að þessi till. er fram komin, því að ég held, að það sé svo, bæði um mína stofnun og vegagerðina, að þó að verulega hafi á unnizt í seinni tíð að afla tækja til framkvæmda, þá skortir enn verulega á, að tekizt hafi að fá svo mikið af þeim, að hægt sé að fullnægja eftirspurninni og vinna þau verkefni, sem fyrir liggja, á þann hátt, sem æskilegast væri.

Ég hef tiltæka og get látið í té þegar á þessari stundu eða hvenær sem er nákvæma skrá yfir það, sem við eigum af vinnutækjum, og ég þykist vita, að vegamálastjóri hafi slíka skrá undir höndum líka, því að við höfum spjaldskrá yfir hvert einasta tæki, hvar það er staðsett og hvar það vinnur, svo að það er afar auðvelt að láta þessar upplýsingar í té. Jafnframt vona ég þá líka, að þegar sú athugun hefur farið fram, sem fyrri hluti till. gerir ráð fyrir, þá verði að því unnið að bæta úr því, sem á skortir, eins og síðari hluti till. gerir ráð fyrir.

En ég stóð þó aðallega upp til þess að minnast örlítið á brtt., sem að vísu er ekki komin fram, en hv. þm. Barð. (GíslJ) boðaði og sagði að hann hefði tilhneigingu til að flytja og mundi bera fram síðar, ef ekki kæmu aðrir með hana, um að þau nýju tæki, sem fengin yrðu, yrðu látin ganga út til hinna dreifðu byggða landsins. Nú er ég síður en svo andvígur þeirri hugsun, að hinar dreifðu byggðir njóti sams konar fyrirgreiðslu hvað tæki snertir og önnur byggðarlög. En ég vil aðeins geta þess, að hvað okkur snertir, og till. er jöfnum höndum miðuð bæði við vegamálastjóra og hafnamálastjóra, þá er áhaldageymslunni og staðsetningunni þannig hagað, að öll tæki eru geymd hér í Reykjavík, þannig að það mundi þá aðeins snerta vegagerðartækin, að þau yrðu staðsett á þeim stöðum, sem hv. þm. Barð. talaði um, en það mundi ekki taka til hafnagerðartækjanna. Þau er ekki hægt að staðsetja á öðrum stað en þar, sem verkstæði stofnunarinnar er, endurskoðun eða athugun vélanna fer fram á vetrum, en þaðan eru þau síðan send á þá staði, þar sem unnið er á hverjum tíma. Föst staðsetning þeirra tækja getur því ekki með neinum árangri orðið önnur en sú að hafa þau öll í einum stað.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram, til þess að brtt., ef fram kæmi, yrði ekki látin ná til þeirra tækja, sem notuð eru við hafnagerðir.

Annars, úr því að ég fór að taka til máls um þetta mál, vildi ég minnast með örfáum orðum á annað atriði, sem er þessu skylt, þó að það sé ekki í raun og veru það mál, sem hér liggur fyrir til umr.

Rökin fyrir því, að þessi till. er borin fram, eru þau að ná sem beztum afköstum um vinnubrögð, og er það vitaskuld ósk allra. En það er annað atriði, sem mjög víkur að því sama, en á undanförnum árum hefur torveldað, að æskilegur árangur næðist um vinnubrögð, og það er það, hve framlög ríkisins eru bútuð niður í smáar upphæðir, þannig að þegar ekki er hægt að vinna nema fyrir tiltölulega fáar þúsundir eða fáa tugi þúsunda á hverjum stað, þá verður miklu erfiðara að koma við hinum hagkvæmu tækjum, vegna þess að tiltölulega mikið af hinu litla framlagi fer í það að koma tækjunum á milli staða.

Þetta er ekki síður atriði, sem vert er að taka til athugunar, en hitt með tækin sjálf, því að til þess að verulega góður árangur náist, þarf hvort tveggja að fylgjast að, að stórvirk tæki séu notuð og að þá sé um verulegt magn eða framkvæmdir að ræða eða nokkuð stórt mannvirki, sem unnið sé í einu, til þess að réttlæta tilflutning hinna mikilvirku tækja á þá staði, sem þau eru flutt til.

Ég vildi aðeins nefna þetta í leiðinni, og mér þætti ekki úr vegi, að sú nefnd, sem þetta mál fær til athugunar, tæki hitt málið líka. Um það má gefa ýmsar upplýsingar, og væri ég fyrir mitt leyti mjög fús til þess.