14.03.1956
Sameinað þing: 46. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (2489)

25. mál, vélar og verkfæri til vega- og hafnargerða

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað þáltill. þessa og sent hana til umsagnar vegamálastjóra og hafnamálastjóra og fengið frá báðum ýtarlegar skýrslur um véla- og áhaldaeign stofnananna og eins hvað þeir telja, að á vanti í því efni. Vegamálastjóri telur, að kostnaðurinn við kaup á nauðsynlegum vélum og á öðrum áhöldum til vega- og brúagerða nemi um 15.4 millj. kr. auk 2.6 millj. til að koma upp vélageymslum og viðgerðarstöðvum, eða samtals 18 millj. kr. Bæði fyrrverandi og núverandi vegamálastjórar telja mjög æskilegt, að hægt verði að fullnægja þessari þörf á næstu 3–4 árum. Gerir fyrrverandi vegamálastjóri ráð fyrir, að árleg fjárveiting á fjárlögum til kaupa á áhöldum vegna vegamálaskrifstofunnar þurfi næstu fjögur ár að hækka um 1.2 millj. árlega, eða úr 600 þús., eins og sú fjárveiting er nú í fjárlögum, í 1800 þús. kr. Það, sem þá vantar á, er áætlað að fáist með árlegum tekjuafgangi af rekstri eigin véla.

Samkv. skýrslu hafnamálastjóra er fjárþörf hans stofnunar miklu minni, eða nálægt 2½ millj. til áhaldakaupa og auk þess um 6 millj. kr. til að koma upp verkstæði og til kaupa á stærri hafnagerðartækjum.

Frá hafnamálastjóra liggur ekki fyrir till. um, hvenær hann telur æskilegt að lokið verði þessum framkvæmdum, og ekki heldur, hvað ætla má að stofnunin geti lagt af mörkum til þeirra hluta af árlegum rekstrartekjum eigin áhalda, en hafnamálastjórinn hefur tjáð sig fúsan að láta slíkar upplýsingar í té, þegar óskað er.

Þáltill. þessi, sem hér er til umr., er þríþætt: Fyrst, að aflað sé upplýsinga um, hvað nú sé tiltækt á vegum hafna- og vegamálastjórnanna af fullkomnum og hentugum vélum og verkfærum til hafna- og vegagerða. Í öðru lagi að fá yfirlit yfir, hverra umbóta er þörf, með það fyrir augum, að ætíð og alls staðar geti slík áhöld verið til staðar, þar sem opinberar framkvæmdir fara fram. Og í þriðja lagi, að eftir að slíkar upplýsingar liggja fyrir, verði hraðað, eftir því sem unnt er, að úr verði bætt.

Það verður að telja, að með skýrslum vega- og hafnamálastjóranna, sem prentaðar eru með áliti fjvn., sé tveim fyrstu atriðum þáltill. fullnægt. Eftir er þá að leysa þá þrautina, sem þyngst er, en fjvn. er sammála flm. um að verði að gera eins fljótt og unnt er, þ. e. að veita nægilegt fé til umbóta í þessu efni, en slíkt verður að teljast verkefni fjárveitingavaldsins á næstu árum.

Með tilliti til þess, sem ég hef nú vikið að, er niðurstaða fjvn. í málinu sú, sem frá er greint í niðurlagi nál. á þskj. 450 og er svo hljóðandi:

„Við athugun máls þessa hefur komið í ljós, að enn skortir verulega á, að fyrir hendi sé nægur vélakostur til vega- og hafnagerða, en það á aftur rót sína að rekja til þess, að Alþ. hefur ekki á undanförnum árum séð sér fært að veita nægilega mikið fé í þessu skyni. En þar sem fjárlög fyrir yfirstandandi ár hafa verið afgreidd og því ekki eftir venjulegum fjárveitingaleiðum viðbótarfjárframlaga að vænta á árinu, hlýtur úrbót í þessu efni að vera háð því, að unnt verði framvegis að veita meira fé í fjárlögum til véla- og áhaldakaupa en verið hefur, og í trausti þess, að svo megi verða, samþykkir Alþingi að vísa tillögu þessari til ríkisstjórnarinnar.“

Till. fjvn. er því af framangreindum ástæðum sú, að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.