02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (2507)

27. mál, stækkun flugvallarins í Vestmannaeyjum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi fluttum við, sem nú flytjum þessa till., þáltill. um, að hraðað yrði framkvæmdum til stækkunar á flugvellinum í Vestmannaeyjum, þ. e. a. s. þann veg var þetta flutt, að ég flutti aðaltill. og hv. 9. landsk. fylgdi í kjölfarið með brtt. við hana. En þar sem þær báðar stefndu að sama marki, tel ég rétt að orði komizt um, að við höfum báðir flutt till. um þetta mál á síðasta þingi.

Þessi till. okkar var í höfuðatriðum um stækkun flugvallarins. Það er vitað, að í Vestmannaeyjum er um eina flugbraut að ræða frá austri til vesturs, og hefur mikið verið um það talað, að þessu þyrfti að breyta þannig, að lending gæti verið örugg, þó að vindur stæði ekki beint af austri eða beint af vestri. Þess eru ótal dæmi, að í mjög litlum vindi, sem annaðhvort er suðlægur eða norðlægur eða suðvestlægur jafnvel eða norðvestlægur, stöðvast flug til Vestmannaeyja, vegna þess að ekki þykir tryggt vegna hliðarvinds að lenda eða fljúga af vellinum.

Till. okkar frá síðasta þingi miðuðu, eins og ég sagði, aðallega í þessa átt. Nú flytjum við till. um það fyrst og fremst að fá Alþ. til að álykta að fela ríkisstj. að láta ekki lengur dragast, að hafizt verði handa um nauðsynlegt viðhald og umbætur til öryggis á Vestmannaeyjaflugvelli, og svo loks að hraða svo sem unnt er stækkun vallarins. Þetta er orðalag þáltill., sem nú liggur fyrir.

Ástæða er til, að við erum báðir, hv. 9. landsk. og ég, sannfærðir um nauðsynina á því, að flytja till. nú með þessu orðalagi, og sú ástæða er, að í sumar var mót von okkar ekkert unnið að því að bæta flugvöllinn í Vestmannaeyjum annað en það, sem turnvörðurinn gerir í frítímum sínum eða þegar hann má vera að því vegna annarra anna að bæta áfallnar skemmdir, svo sem hann nær til og gefur auga leið, að einn maður og þótt tveir væru orka ekki miklu í því að vinna að viðhaldi jafnstórs svæðis eins og flugvöllurinn er nú. Þetta ástand teljum við svo alvarlegt, að við það megi ekki hlíta, og viljum vekja athygli hins háa Alþingis á þessu atriði.

Ég tel mig hafa sérstaka ástæðu til þess að vera vonsvikinn yfir því aðgerðaleysi flugmálastjórnarinnar, sem átti sér stað nú í sumar, meðan vel var fært að vinna við lagfæringu og viðhald vallarins, eftir þá afgreiðslu, sem þáltill. á síðasta þingi fékk hjá hv. fjvn. og var þannig orðuð, með leyfi hæstv. forseta:

„Þess má vænta, að flugmálastjórnin verji af fjárveitingu til flugvallagerðar svo miklu fé til umbóta á Vestmannaeyjaflugvelli sem unnt er með hliðsjón af öðrum þörfum á þessu sviði.“

Þetta var till. hv. fjvn. Hún kom að vísu ekki fram til beinnar samþykktar á Alþingi, en mundi að sjálfsögðu hafa verið samþykkt, ef málið hefði verið tekið fyrir.

Eftir að þessi afgreiðsla komst á þetta stig og ég sá fram á það, að fullkomin afgreiðsla málsins fengist ekki á þinginu vegna tímans, átti ég ýtarlegt tal um þetta við hv. flugmálastjóra, og ég tel mig hafa fengið svo eindregið loforð fyrir mjög mikilli viðhaldsvinnu á þessum flugvelli á komanda sumri þá, þ. e. núna á s. l. sumri, að ég var fullkomlega öruggur um það með sjálfum mér, að þessum málum yrði sinnt í anda þess, sem ég hafði farið fram á, og í anda þess, sem hv. fjvn. vildi gera að sinni till. Ég skal ekki nefna þá upphæð, sem hv. flugvallastjóri taldi sig mundu geta unnið þarna fyrir, af því að ég þori ekki svo að treysta minni mínu — þetta var í samtali — að ég gæti ábyrgzt, að ég færi þar rétt með, en mér þótti hún svo há, að fullkomið öryggi væri fyrir því, að viðhald vallarins a. m. k. yrði ekki látið sitja á hakanum s. l. sumar. Til áréttingar þessu loforði var sagt, að ef hæstv. flugmrh. vildi leyfa og teldi sig geta leyft meiri vinnu en um var talað, þá skyldi það og verða gert. Í framhaldi af því átti ég tal við hæstv. ráðh. og fékk hjá honum fyrirheit um það, að ekki skyldi standa á hans samþykki til þessara hluta. Það, sem skeð hefur síðan, er svo bara það, að viðhald vallarins hefur nærfellt legið niðri að öðru leyti en því, sem ég drap á áðan, að turnvörðurinn eða flugvörðurinn hefur haft eftirlit með, ef holur eða því um líkt hefur myndazt. Og nú er svo komið, að allir telja, að ofaníburðurinn á vellinum sé orðinn hættulega grunnur, m. ö. o. slitlagið, sem kallað er, sé mikils til of þunnt.

Af þessum ástæðum er almennt álitið, að ástand þessa flugvallar verði að telja óviðunandi eins og er og að það þyrfti, ef tíð væri til þess, bráðra aðgerða við til þess að auka slitlagið og lengja flugvöllinn vestur á bóginn til frekara öryggis, þegar lent er frá austri, eins og við flm. höfum lýst allgreinilega í þeirri greinargerð, sem fylgir þessari þáltill.

Vestmannaeyjar eru svo í sveit settar, sem allir vita, að þar geta iðulega orðið miklar samgönguteppur á sjó og ekki síður í lofti, á meðan ástand flugvallarins er ekki bætt mikið frá því, sem nú er. Á hinn bóginn þróast mikið athafnalíf í Eyjum. Þangað sækja auk heimamanna margir aðkomumenn atvinnu. Framleiðslan er mikil og afköstin. Allt þetta styður þá réttmætu ósk fólksins, sem þarna býr, og þess fólks, sem þarf til Eyja að ferðast eða við Eyjamenn að skipta, að sæmilegt öryggi sé reynt að hafa á þeim samgönguleiðum, sem þarna er um að ræða, og þá ekki síður í lofti en á legi.

Ég skal svo ekki hafa um þetta mál fleiri orð að sinni. Við flm. höfum talið fullkomna ástæðu til að hreyfa þessu máli í annað sinn hér á Alþ., og ég hlýt að setja það traust til þingsins yfirleitt og þeirrar hv. n., sem fær þetta mál í hendur, að stefnt verði að því að bæta úr hinu slæma ástandi, sem nú er í þessum efnum, hið allra fyrsta.

Við erum vitaskuld, hvorugur okkar flm., neinir sérfræðingar í því, með hvaða aðferðum eigi að gera þetta, sem hér liggur fyrir. En það þarf ekki sérfræðinga til að vita það og sjá, að ofaníburðurinn á vellinum er orðinn mikils til of þunnur og þarf því mjög að bæta hann, og þarf ekki neina sérfræðinga heldur til að sjá það og skilja, að lenging flugbrautarinnar í vesturátt, á meðan ekki eru hafðar stærri aðgerðir, að gera hann að krossbraut t. d. frá norðri til suðurs, auk þess sem braut liggur frá austri til vesturs, mundi auka stórum það öryggi, sem hægt er að koma þarna á án mikils kostnaðar. Þegar flogið er að Eyjunum að austan, eins og margir hér á Alþ. munu kannast við, er komið inn yfir svo strandbrattan hluta Eyjanna, að það má segja, að það sé eins og nokkurs konar fjallsbrún, sem flogið er inn yfir, og það verður að vera í þeirri hæð, að flugvélarnar þurfi ekki að tylla sér allt of nálægt þeirri brún, heldur geti flogið lengra inn á brautina í vesturátt til þess að ná sem mestu öryggi. Það er núna, eins og ástatt er, mjög örðugt, en það mundi mikið úr rakna, ef flugbraut þessi væri lengd hæfilega mikið vestur á bóginn, þannig að vélarnar hefðu lengra athafnasvæði til þess að stöðva sig á undir slíkum kringumstæðum.

Ég vil svo vona, að hv. Alþ. taki vel í þetta mál, og mælast til þess, að till. sé vísað til hv. fjvn. að lokinni þessari umr., eða þá, ef umr. er frestað, að till. verði vísað til nefndarinnar á þann veg.