26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (2517)

36. mál, friðunarsvæði fyrir Vestfjörðum

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þessi till. er nú flutt í þriðja sinn, og hefur í bæði skiptin, sem hún hefur áður verið flutt, verið gerð rækileg grein fyrir efni hennar. Ég hygg, að nú sé líka svo komið, að um það sé enginn ágreiningur, að það sé hin mesta lífsnauðsyn fyrir atvinnulíf Vestfirðinga, að ráðstafanir á þá lund, sem fram á er farið í till., verði gerðar, ef menn vilja halda byggð á Vestfjörðum.

Aðalefni till. er það, að friðunarlínan frá Bjargtöngum til Horns verði færð út um 12 sjómílur frá því, sem nú er. Fyrir þessari nauðsyn liggja þær brýnu ástæður, að úti fyrir Vestfjörðum liggja auðugustu togaramið í heimi, Halamiðin, en út að þessum togaramiðum liggja svo vélbátaslóðir Vestfirðinga, en inn á vélbátamiðin kemst fiskgengdin ekki sökum hinnar miklu ágengni erlendra og innlendra togveiðiskipa úti fyrir.

Ég hygg, að það sé alveg óþarft, enda vita-tilgangslaust, að hafa mörg orð um þessa till. Hv. þm. vita, hvað hér er um að ræða, og þeir hafa ekki brotið handjárn stjórnarflokkanna þrátt fyrir þá vitneskju sína, og þeir verða vafalaust ekki sannfærðir með orðum.

Það hefur fleira gerzt, síðan þessi till. var flutt. Það hafa verið gerðar samþykktir af fiskideildum Vestfjarða á fiskiþingi, af þing- og héraðsmálafundi Vestur-Ísfirðinga og á fjöldamörgum samkomum, þar sem menn hafa verið saman komnir úr öllum stjórnmálaflokkum og fulltrúar fyrir ýmsar atvinnugreinar, og allar hafa þessar samþykktir verið gerðar einróma og skorað á þing og stjórn að leysa þetta grundvallarnauðsynjamál vestfirzkra atvinnuvega. En það hefur verið daufheyrzt við.

En það hefur meira gerzt. Það er nú orðið viðurkennt af öllum, að vestfirzk vélbátaútgerð er í voða vegna aukins ágangs togveiðiskipa á Vestfjarðamiðum, samtímis því sem létt hefur verið ágengni togveiðiskipa af fiskimiðum, einkanlega við Suðvesturland, með ráðstöfunum þings og stjórnar.

Það hefur meira gerzt, sem ætti að verka á þingheim og stjórn frekar en orð geta gert. Það hafa verið kubbaðir í sundur vélbátar undir línunni á Vestfjarðamiðum af stálstafni brezkra togara og vestfirzkum sjómönnum grandað á þann hátt, en ríkisstj. og Alþ. hafa samt sofið og sofa enn.

Ég kann því engin ráð til þess að mæla fyrir þessari tillögu á annan hátt en þróun tímans hefur gert, og ef það orkar ekki á Alþ., þá er ekki hægt að vekja þá samkomu til aðgerða í þessu máli. Það hefur verið ákveðin ein umr. um málið, og legg ég til, að henni verði frestað og málinu vísað til allshn.