02.12.1955
Sameinað þing: 19. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (2540)

53. mál, strandferðaskipið Herðubreið

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Efni þessarar till. er það, að lagt verði fyrir Skipaútgerð ríkisins að haga þannig ferðum strandferðaskipsins Herðubreiðar, að skipið verði látið koma við á öllum Austfjarðahöfnum bæði í norður- og suðurleið, þegar skipið fer um Austfirði. Austfirðingar hafa þrásinnis gert samþykktir um þetta og beint máli sínu til Skipaútgerðar ríkisins, að þessu yrði þannig hagað, en árangurslaust, og af því hef ég tekið að mér að flytja þessa till. hér og beina því til ríkisstj., að hún hlutist til um, að í þessu efni verði orðið við óskum Austfirðinga.

Þegar Herðubreið var keypt á sínum tíma, var það skýrlega tekið fram, að hún skyldi verða strandferðaskip fyrir Austfirði, og Alþ. hefur hér gert sérstaka samþykkt um það 5. febr. 1953, að skipið skyldi eingöngu notað til samgöngubóta fyrir Austfirðinga, en það skyldi ekki látið fara til Vesturlands, eins og gert hafði verið á tímabili. En áður en Herðubreið kom til, hafði verið starfræktur fyrir Austurlandi sérstakur strandferðabátur, sem hélt uppi samgöngum milli Hornafjarðar og Austfjarðahafna, en það þótti sanngjarnt að fella niður með öllu rekstur þessa strandferðabáts, þegar Herðubreið tók við. En með því að Herðubreið er rekin eins og nú er gert, að hún kemur ekki við nema á nokkrum höfnum í hvorri leið fyrir sig á Austurlandi, þá getur hún ekki þjónað því verkefni, sem henni var ætlað, að halda uppi eðlilegum samgöngum innan fjórðungsins. Nú er t. d. þessu þannig háttað, að á milli Neskaupstaðar, stærsta útgerðarbæjarins á Austurlandi, og Hornafjarðar, vetrarvertíðarstöðvar Austfirðinga, eru engar skipaferðir allt árið. Stærri skipin, Esja og Hekla, koma að vísu við í Neskaupstað og á stærri höfnunum eystra, en þær koma ekki við á Hornafirði. Aftur á móti kemur Herðubreið við á Hornafirði, en hún kemur ekki við í Neskaupstað eða stærri höfnunum allajafna. Eru Austfirðingar skiljanlega mjög óánægðir með að hafa ekki samgöngur sín á milli a. m. k. til jafns við það, sem áður var, og hafa því hvað eftir annað óskað eftir því, að strandferðum þessa skips verði háttað eins og segir í þessari till.

Ég vil að öðru leyti vísa til þeirrar grg., sem fylgir till., og tel ekki þörf að ræða þetta mál hér frekar að sinni, en óska eftir því, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til fjvn. eða allshn., ég geri ekki verulegan greinarmun á því, en legg nú til, ef forseta sýnist ekki annað, að till. verði vísað til fjvn.