03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (2578)

71. mál, strandferðir

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Við tveir alþm. höfum flutt hér á þskj. 78 till. til þál. um, að Alþ. álykti að kjósa fimm manna nefnd með hlutbundinni kosningu í Sþ. til þess að framkvæma á því athugun, hvort tiltækilegt sé með breyttri skipan strandferða að draga verulega úr síauknum rekstrarhalla strandferðaskipa ríkisins, sem sýnilega stafar af minnkandi verkefnum skipanna vegna aukinna samgangna síðari tíma um loft, land og sjó og þar af leiðandi vaxandi samkeppni um flutning á fólki og vörum, enda sé tryggt, að samgöngurnar í heild, sumar og vetur, verði að engu leyti lakari fyrir landsbyggðina en nú er.

Við fluttum á s. l. þingi till., sem fór nokkuð í þessa átt, en er þó ekki að öllu leyti sú sama, þar sem m. a, er hér lagt til, að 5 manna nefnd verði kosin til þess að fjalla um þetta mál, í staðinn fyrir að þetta átti áður að fela 2 mönnum. Sú till. fékk ekki afgreiðslu. Henni var vísað til hv. fjvn., en það var svo seint á þinginu, að hún varð ekki afgreidd, svo að við viljum nú freista að taka þetta mál hér upp að nýju.

Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að hæstv. fjmrh. gat þess í ræðu sinni við 1. umr. fjárlaganna, að framlag til Skipaútgerðar ríkisins hefði orðið að hækka á fjárlögum árið 1956 um 4½ millj. kr. frá því, sem það var á fjárlögum yfirstandandi árs. Hann gat þess jafnframt, að þetta væri þó ekki sú upphæð, sem væri áætluð af forstjóra Skipaútgerðarinnar að þyrfti til þess að standast rekstrarhallann, heldur væri hún gerð í trausti þess, að hægt væri að draga eitthvað úr rekstrarkostnaðinum annars vegar eða auka tekjurnar hins vegar.

Í þessum ummælum hæstv. ráðh. kemur fram, að spádómar mínir, sem ég setti fram hér í fyrra, þegar þetta mál var hér til umr., að Skipaútgerð ríkisins hlyti að tapa í þeim leik, sem hér er leikinn, hefur rætzt og fyrr og betur en hinir bjartsýnustu menn hefðu búizt við. Ég geri ekki ráð fyrir því, að hv. fjvn. hafi ætlazt til þess eða búizt við því, að svo gífurlegur rekstrarhalli yrði á strandferðaskipunum, að það þyrfti að hækka um þá upphæð, sem hér er minnzt á af hæstv. ráðherra, því að ef það hefði verið, hefði hún að sjálfsögðu gengið betur frá þessum málum, m. a. frá þáltill. í fyrra, en raun ber vitni um.

Þegar litið er í reikninga Skipaútgerðarinnar fyrir árið 1954, sést, að bezta strandferðaskipið, Hekla, hefur tapað nærri 3 millj. kr. á strandferðum yfir árið og hefur þó ekki verið í strandferðum nema nokkurn hluta þess. Þegar þetta skip var byggt til þess að starfrækja það í strandferðum, var einmitt gert ráð fyrir því, að það gæti nokkurn veginn borið sig, vegna þess, hversu það væri samkeppnisfært bæði í sambandi við fólks- og vöruflutninga, enda var það svo hér áður en Hekla var byggð, að strandferðaskipið Esja, sem er nokkurn veginn sams konar skip, sýndi langminnstan rekstrarhalla á þeim tímum. Nú er rekstrarhalli Esju árið 1954 rúmlega 3¼ millj. kr. Þessi útkoma á báðum beztu skipum strandferðanna sýnir, að hér er eitthvað öðruvísi en það á að vera. Verður manni þá helzt á að álykta, að þessi skip hafi ekki nú orðið nægilegt verkefni. Ef það væri nægilegt verkefni fyrir skipin í þessum ferðum, þá gæti ekki undir neinum kringumstæðum rekstrarhallinn verið neitt nálægt því, sem hér kemur fram. Það er því sýnilegt, að það er mjög aðkallandi mál að athuga á ný, hvort ekki sé hægt að minnka þessa byrði ríkissjóðs með því að skipuleggja þessar ferðir á annan og heppilegri hátt.

Einnig sést af þessum reikningum, að Skjaldbreið og Herðubreið hafa tapað nærri einni milljón króna hvor á þessu ári. Jafnvel þó að þessi halli á þeim tveimur skipum sé gífurlegur og miklu meiri en nokkur bjóst við, þegar gerðar voru áætlanir um byggingu og kaup á þessum skipum, þá sýnir það þó, að fyrir rekstrarhalla á Heklu og Esju, sem er samanlagt rúmar 6 millj kr., mætti starfrækja hvorki meira né minna en sex báta af sömu stærð og gerð og Herðubreið í strandferðum, án þess að það kostaði meira fé. Og dettur víst engum í hug, sem þekkja til þessara mála, að ekki væri hægt að gefa þjóðinni betri þjónustu með því að bæta við sex nýjum strandferðabátum, ef ríkissjóður hefur ráð á því að láta allt að 10 millj. kr. framlag til þessara mála. Einnig þetta sýnir, að það þarf að athuga þessi mál að nýju og gera hér á aðra skipun.

Þegar þessi skipan strandferðanna var ákveðin af milliþn. á sínum tíma, var gert ráð fyrir því, að hægt væri að draga mjög úr framlagi til flóabátanna. Nú hefur það sýnt sig, að þessi skipakostur, Hekla, Esja og Breiðarnar báðar, hefur ekki nægt til þess að gefa fólkinu þá þjónustu, sem það þarf að hafa í hinum ýmsu landsbyggðum, svo að samfara því hefur orðið að halda uppi síaukinni þjónustu með flóabátum. Mætti þá vel svo fara, ef ný skipan yrði á þessum málum, að það væri hægt að auka flóabátaferðirnar til meiri hagsmuna fyrir fólkið, samfara því sem dregið væri úr heildarkostnaðinum við strandferðirnar.

Frumástæðan fyrir því, að svo er komið, er eins og ég hef áður tekið fram, þegar rætt hefur verið um þessi mál, samkeppnin frá hinum öðrum félögum, bæði frá Eimskipafélagi Íslands, skipastóli Sambands íslenzkra samvinnufélaga og öðrum aðilum, sem sigla með vörur í sívaxandi mæli á ströndina, og svo að sjálfsögðu einnig samkeppnin um fólksflutningana, sem kemur frá síauknum loftleiðum og bifreiðum um land allt, síauknu vegakerfi o. s. frv., og er því ekkert óeðlilegt, að þurfi að taka upp að nýju til athugunar, hvernig skipa beri þessum málum.

Ég sá í Morgunblaðinu í dag langa grein frá bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum í sambandi við þá þjónustu, sem Skipaútgerð ríkisins lætur í té við einn af stærri kaupstöðum landsins. Ég skal ekki fara neitt út í þau atriði, en vil aðeins benda á, að ef nokkur grundvöllur er fyrir þeirri gagnrýni, sem þar kemur fram, þá er sannarlega enn meiri ástæða til að taka þessi mál til athugunar. Ef nokkur fótur er fyrir því, að Skipaútgerð ríkisins, eins og þar er haldið fram, sé að safna saman vörum fyrir þá, sem keppa við hana á þessum sama flutningsmarkaði, og geri allt til þess að halda þeim vörum til annarra en til ríkisskipanna og láti undir höfuð leggjast að hafa þar allt að 500 þús. kr. tekjum á ári hverju, eins og haldið er fram í greininni, og þetta skyldi svo vera rekið víðar en gert er á þessum eina stað, þá er sannarlega ástæða til þess að rannsaka þessi mál öll ofan í kjölinn. Ég skal engan dóm leggja á það, hvort það er rétt, en greinin eða ummæli bæjarstjórans gefa a. m. k. fullkomna ástæðu til þess, að þessi mál séu öll athuguð mjög gaumgæfilega.

Hitt er öllum ljóst, að það verður ekki hægt að láta það alveg afskiptalaust, að á hverju ári hækki framlög ríkissjóðs um margar milljónir, án þess að hér verði eitthvað hafizt handa til úrbóta í þessum málum. Og nú er svo komið, að það hefur orðið að hækka hér um 4½ milljón frá því, að síðustu fjárlög voru afgreidd, og ef slík upphæð á að bætast við á hverju ári, þá segir það sig sjálft, að það verður ekki þolað, hvorki af þjóðinni né af alþm., að ekkert sé gert til að bæta úr því ásigkomulagi.

Ég vil að lokinni þessari umr. óska þess, að þessu máli verði vísað til hv. fjvn. Ég þykist vita, að hún muni afgreiða þetta mál fyrr og betur nú en hún gerði á s. l. þingi, m. a. vegna þeirra staðreynda, sem ég hef bent á og komið hafa fram í ræðu hæstv. ráðh. eða í ríkisreikningunum, að nauðsyn er á sívaxandi styrk til þess að standa undir þessum kostnaði.