19.01.1956
Neðri deild: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

135. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Finnst ekki hæstv. ríkisstj., að hún skuldi Alþingi ofur lítið nánari greinargerð fyrir því, hvernig á því stendur, að hún, eftir að hafa farið fram á að fá heimild um bráðabirgðafjárgreiðslur til 20. jan., kemur nú og fer fram á að fá hana framlengda til 1. febr.? Er hægt að koma svona upp eins og hæstv. fjmrh. gerir og segja bara einfaldlega: Ja, þetta gengur nú ekkert hjá okkur enn þá, en við vonum, að það verði búið fyrir 1. febr. — og segja svo ekkert meir?

Það er farið að koma fram við þessa stofnun hér eins og henni komi yfirleitt þessi mál ekkert við og komi ekkert við, hvernig ríkisstjórnin stjórnar landinu. Hæstvirtur fjármálaráðherra gaf þá yfirlýsingu hér, áður en þing fór heim í jólafrí, að Framsfl. hefði viljað afgreiða fjárlögin fyrir nýár, kom með skriflega yfirlýsingu, sem sjaldgæft er að við þm. fáum yfirleitt að heyra úr herbúðum hæstv. ríkisstj. Og hæstv. forsrh. kom sömuleiðis með skriflega yfirlýsingu, þar sem hann raunverulega viðurkenndi, að Sjálfstfl. hefði hindrað afgreiðslu fjárlaganna. Og það er greinilegt, að Sjálfstfl. hefur hindrað afgreiðslu fjárlaganna fyrir nýár með tilliti til þess, að hann vildi fá að leysa sjávarútvegsmálin um leið. Á sama tíma gerist svo það undarlega, að ríkisstjórn, sem nú mörg ár, fyrst á ólöglegan hátt og síðan á hæpinn löglegan hátt, er búin að viðhalda bátagjaldeyriskerfinu, leggur fram tilboð til Landssambands íslenzkra útvegsmanna, þar sem boðið er að framlengja út janúar þetta bátagjaldeyriskerfi, sem útvegsmenn höfðu sjálfir hækkað nokkru áður, — býður ekki að framlengja bátagjaldeyriskerfið áfram út árið, eins og hún hefur gert öll undanfarin ár, heldur býður beinlínis að framlengja það út janúar. Nú hlaut hver maður, sem nokkurn veginn þekkti, hvernig útvegur er, að skilja það, að ef róðrar byrjuðu strax í byrjun janúar, þá var óhugsandi að stöðva þá 1. febr. Við það ráða útvegsmenn ekki. Þó að þeir geti kannske ráðið við það að láta bátana ekki halda á stað, geta þeir ekki stöðvað þá 1. febr., þegar allt er komið í fullan gang. Þess vegna er þessu einkennilega tilboði hæstv. sjútvm.- og forsrh. hagað á þann hátt, að það er svo að segja ljóst, að útvegsmenn geta ekki gengið að því. Og enn hefur Alþingi ekki fengið skýringu á því, hvers vegna það var þá ekki boðið að framlengja bátagjaldeyriskerfið, sem þessi ríkisstj. hefur haldið fast við, áfram út árið, en fyrir hafði legið yfirlýsing frá hæstv. forsrh. frá því í nóvember, þegar Landssamband útvegsmanna hækkaði gjaldið fyrir bátagjaldeyrisskírteinin, að að öllum líkindum mundi þetta vera nóg handa þeim og þeir mundu láta sér þetta nægja, ef þeir fengju þetta áfram. M. ö. o.: Það lítur út fyrir, að af hálfu hæstv. ríkisstj. hafi málinu verið hagað svo, að það hafi verið gert tilboð frá ríkisstj. til L. Í. Ú., sem ríkisstj. hafi vitað að Landssambandið mundi ekki ganga að, þannig að allt mundi stöðvast. Og síðan er þessi stöðvun, eins og þegar hefur verið lýst yfir af hálfu Sjálfstfl., notuð til þess að segja við hæstv. fjmrh.: Við föllumst ekki á að afgreiða fjárlögin, nema þessi sjávarútvegsmál séu leyst um leið. Síðan virðist svo þessi stöðvun á sjávarútveginum núna notuð í reipdrætti eða refskák innan stjórnarherbúðanna til þess að reyna að knýja fram samninga milli Framsóknar og Sjálfstfl., sem Sjálfstfl. vilji sætta sig við. Meðan þetta gengur fyrir sig hjá hæstv. ríkisstj., er Alþ. meira eða minna aðgerðalaust. Svo er komið til okkar og sagt við okkur þann 19. jan.: Viljið þið framlengja heimild til handa ríkisstj. að borga 2 milljónir á dag eða hvað sem það mundi vera út úr ríkissjóðnum? — Á meðan lætur ríkisstj. flotann liggja, sem kostar þjóðina 3–4 millj. kr. á dag. Finnst ekki hæstv. fjmrh., að ríkisstj., sem þannig fer að, skuldi Alþ. neina skýringu? Á Alþ. engan rétt á því að fá einu sinni að heyra, hvort það er eitthvað verið að gera í þessum málum?

Hér hefur verið dag eftir dag spurt utan dagskrár, hvað væri hér að gerast, hvort einhvers mætti vænta og hvernig væri viðvíkjandi sjávarútvegsmálunum, hvort bátaflotinn færi ekki að fara af stað og hvernig stæði um samninga með þetta? Ef hæstv. forsrh. hefur verið í deildinni, sem kemur nú sjaldan fyrir, þá hefur hann af sinni miklu kurteisi sagt: Ég vil ekki eyða dýrmætum tíma þingsins í að ræða um svona mál. — Síðan hefur hæstv. forseti 2–3 mínútum á eftir, þegar dagskrá var lokið, slitið fundi, venjulega um tvöleytið, og svo ekki meira þann daginn og kannske enginn fundur daginn eftir.

Í sambandi við þetta frv. er m. ö. o. farið fram á, að það sé afgreitt á alveg óvenjulegan hátt, það séu hafðar hér þrjár umræður á einum degi, því sé sleppt að senda svona smámál til nefndar, það sé ekki verið að ræða við þingmenn um þetta, þetta sé eiginlega mál, sem þeim komi ekkert við: Hvað varði þá um fjárlög? Hvað varði þá um, hvort sjávarútvegurinn gengur?

Það má vel vera, að hæstv. ríkisstj. geti meðhöndlað sína stjórnarfylgismenn á þennan hátt. En ég vil a. m. k. fyrir mitt leyti mótmæla því, að gagnvart Alþingi sé haldið áfram þessum hætti, að það fáist ekki orð upp úr ráðherrunum um, hvernig þessi mál raunverulega standa. Hæstv. forsrh. getur mætt suður á Keflavíkurflugvelli. Það er hægt að stofna þar sjálfstæðisverkamannafélag, líklega til að verja sjálfstæði landsins, máske líka til þess að fá forgang að vinnu, þegar úthlutað sé eftir helmingaskiptum. Hæstv. forsrh. hefur tíma til þess að tala við verkamenn suður á Keflavíkurflugvelli. Það er gott, að hann skuli yfirleitt vilja tala við verkamenn. En hann mætti þá gjarnan svara hér á Alþ., þar sem jafnt fulltrúar verkamanna sem annarra eiga sæti, þeim fyrirspurnum, sem koma fram um, hvernig gengur um þau mál, sem sérstaklega heyra undir hann, eins og sjávarútvegsmálin.

Í grg. þessa frv. er sagt, að það sé sýnilegt, að Alþ. muni ekki ljúka afgreiðslu fjárlaga. Hefði ekki átt að standa þarna, að stjórnin mundi ekki ljúka afgreiðslu fjárlaga? Hefur staðið á Alþ. með þetta? Er það fjvn., sem hefur gert verkfall? Er það hún, sem hefur neitað að starfa? Ég veit ekki til þess, að það hafi verið boðaðir fundir í fjvn. fyrr en fyrir þrem dögum. Hvað á að þýða að vera að kenna Alþ. um þetta? Hefur staðið á Alþ. með að ljúka afgreiðslu fjárlaga? Er það ekki hæstv. ríkisstj., sem hefur staðið á? (Fjmrh.: Ekkert nál. er komið frá fjvn.) En eru till. komnar frá hæstv. fjmrh. til fjvn. um, hvernig eigi að ljúka fjárlögunum? Hver er það, sem á að sjá um að afgreiða fjárlögin og sjá um þær tillögur? (Fjmrh.: Er þingmaðurinn að tala óráð?) Nei, en ég hélt, að það væru í vændum tillögur upp á a. m. k. 80 millj. kr. frá hæstv. fjmrh. um nýjar álögur á þjóðina. Kannske það sé rangt? Kannske hæstv. fjmrh. vildi koma hérna og segja við mig og Alþingi: Það er ekki von á neinum nýjum álögum á þjóðina. Það er ekki von á að hækka fjárlögin um neinar 80 millj. kr.? — Kannske ég hafi verið að tala óráð? Kannske það sé ekki von á neinu frá fjmrh. til fjvn.? Kannske það megi líta á þetta sem yfirlýsingu um það, að fjvn. megi afgreiða fjárlögin eins og þau liggja fyrir á morgun? Þá held ég, að hæstv. fjmrh. ætti að lýsa því yfir hérna. En ég held nefnilega, að það séu einhver óráð, sem ríkisstj. sé að brugga núna. Ég er ákaflega hræddur um, að hún sé með eitthvert óráð. Ég er hræddur um, að hún sé með það óráð að ætla að fara að leggja svo að tugum milljóna skiptir nýjar álögur á þjóðina. Ef það er óráð hjá mér að tala um þetta, þá getur hæstv. fjmrh. leiðrétt það hér á eftir. En minn grunur er sá, að það sé hæstv. ríkisstj., sem hefur staðið í veginum fyrir því, að fjvn. hafi afgreitt fjárlögin. Auðvitað var hægt að afgreiða fjárlögin fyrir löngu. Ef það komu nýir útgjaldaliðir til, eins og eitthvað í sambandi við bátana eða togarana, þá var auðvitað hægt að afgreiða það með nýjum lögum. Annað eins hefur verið gert hér á Alþ. áður. Og mér er nær að halda, að hæstv. fjmrh. hafi viljað gera það, og það skildist mér á hans ræðu, þegar hann seinast talaði einmitt fyrir samsvarandi máli og þessu, að hann hefði viljað afgreiða fjárlögin og hann hefði álitið það vera mögulegt, en Sjálfstfl. hefði komið í veg fyrir það.

Ég held þess vegna, að það sé nú út af fyrir sig alveg óþarfi að vera að skella því á Alþ., sem stjórninni er sjálfri að kenna. Það er sýnilegt, að stjórnin mun ekki koma sér saman um að ljúka afgreiðslu fjárlaga. Það er það, sem er sannleikurinn í málinu, af því að hún er orðin ófær til þess að stjórna landinu.

Þetta vildi ég nú aðeins segja við þessa umræðu, af því að hér á þetta þó a. m. k. heima og undir þessum lið væri óhætt fyrir hæstv. ríkisstj. að gefa Alþ. einhverja skýringu á sínu framferði, hvort sem hún kýs að gera það eða ekki. Og ef hún kýs ekki að gera það, þá býst ég við, að það sé fyrst og fremst vegna þess, að hún vilji sem minnst tala um það, sem hún sé að brugga, og þá er það varla vegna þess, að það sé svo gott.