11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í D-deild Alþingistíðinda. (2597)

88. mál, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram er tekið í grg., sem fylgir þessari þáltill., hefur það mál áður legið fyrir Alþingi. Það var á síðara þinginu 1937, sem tveir af þm. Sjálfstæðisfl. báru fram till. til þál. um hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri landsmanna. Till. þessari var vel tekið á þingi, en það urðu litlar umræður um hana þar. Eftir að annar af flm. málsins hafði gert grein fyrir því í stuttri framsöguræðu, sagði hv. þáverandi þm. Barð. nokkur orð um till. Hann lýsti ánægju sinni yfir því, að till. var fram komin, en hann benti á, að það væri dálítið einkennilegt að koma með þetta úrræði á þeim tíma, þegar útgerðarmenn hafa lýst því yfir, að ekki væri hægt að reka útgerð með neinum hagnaði hér á landi, heldur með 110 þús. kr. tapi á hverjum einasta togara, og hann spurði flutningsmenn till. að því, hvað sjómenn mundu fá mikinn arð með þessu fyrirkomulagi, ef það væri rétt, að árlegt tap á hverjum togara sé 110 þús. kr. og hér um bil hlutfallslega það sama á hverjum mótorbát, sem gerður er út. Framsögumaður svaraði ekki þessari spurningu, en sagði, að þó að togaraútgerð hefði um tíma verið rekin með tapi, kæmi vonandi það árferði, að útgerð skili rekstrarágóða, og þá mundi þetta fyrirkomulag geta notið sín, ef því yrði á komið. Fleiri töluðu ekki um málið, og till. var samþykkt í Sþ. 21. des. 1937.

Á fundi í sameinuðu Alþingi næsta dag, 22. des. 1937, var nefndin kosin. Kosnir voru tveir menn af lista sjálfstæðismanna, sjálfir flutningsmenn till., enn fremur voru kosnir í nefndina tveir Framsóknarflokksmenn og einn Alþýðuflokksmaður. N. var kölluð saman til fundar skömmu síðar. Ég hygg, að það sé rétt munað, að það hafi verið í janúarmánuði 1938 eða fyrir um það bil 18 árum. Á þessum fundi var kjörinn formaður nefndarinnar, og varð fyrir valinu annar af fulltrúum Sjálfstfl., sem var jafnframt flm. till., eins og ég hef áður vikið að, en fulltrúi Alþfl. í n. var kjörinn ritari. Nefndarmenn munu að sjálfsögðu hafa gert ráð fyrir því, að form. mundi innan skamms boða til annars fundar í n., en það hefur ekki orðið. Bendir það ekki til þess, að það hafi verið mjög brennandi áhugi fyrir málinu hjá upphafsmönnum þess. Þeir tímar komu nokkru eftir að þessi till. var samþ. á þingi og n. kosin, að ýmis atvinnurekstur hér á landi varð arðvænlegri en verið hafði um skeið áður, og t. d. útgerðin, sem nokkuð var minnzt á í umr. um till. 1937, var þó nokkur ár rekin með hagnaði, en þá var ekkert á þetta úrræði minnzt af upphafsmönnum málsins.

Mér skilst, að það sé m. a. tilgangurinn með flutningi þessa máls að bæta sambúð atvinnurekenda og verkamanna. Oft hafa risið deilur milli þessara aðila, og víst væri það gott, ef finna mætti nýjar aðferðir við rekstur atvinnufyrirtækja, sem hefðu í för með sér hagkvæmari rekstur og bætta sambúð allra þeirra aðila, sem þar starfa.

Í sambandi við þetta mál vil ég leyfa mér að minna á það, að fyrir þinginu liggur einnig önnur till., áður fram borin, á þskj. 46, um undirbúning löggjafar um framleiðslusamvinnufélög. Sú till. er til athugunar í þingnefnd. Þar er bent á fyrirkomulag við framleiðslustörf, sem margir munu telja einna vænlegast til þess að setja niður deilur, því að í slíkum félögum eru sömu mennirnir atvinnurekendur og verkamenn. Þar gerist það, að í stað þess að ganga í þjónustu einstakra atvinnurekenda stofna verkamenn, fleiri eða færri saman, sjálfir atvinnufyrirtæki, sem þeir reka í félagi, vinna við og skipta með sér arðinum af rekstrinum eftir reglum, er þeir hafa samþykkt.

Samvinnufélögin hér á landi hafa verið athafnamest á verzlunarsviðinu, þó að þau hafi látið mörg fleiri viðfangsefni til sin taka. Víða um landið hafa menn að mestu leyti tekið ómökin af kaupmönnunum. Menn hafa stofnað samvinnufélög um viðskiptin og á þann hátt tekið í eigin hendur útvegun á vörum, er þeir þurfa að kaupa, og sölu á þeim framleiðsluvörum, er þeir þurfa að selja. Með þessu fyrirkomulagi hafa þeir tryggt sér betri útkomu á viðskiptunum en þeir hefðu getað fengið með öðru móti.

Vafalaust má telja, að það væri heppilegt, að úrræðum samvinnunnar yrði beitt við framleiðslustarfsemina meira hér eftir en hingað til. Ef verkamenn, sem vinna við ákveðna framleiðslugrein, taka sig saman og stofna eigið framleiðslufélag, eru þeir um leið sjálfir orðnir atvinnurekendur. Þeir hafa þá eignarumráð og alla stjórn þeirra fyrirtækja, er þeir starfa við, og ráðstafa hagnaðinum af þeim, þegar um hann er að ræða. Með þessu geta þeir bezt tryggt sér sannvirði vinnu sinnar. Með þessu létta þeir einnig fyrirhöfn og áhyggjum af mörgum einstökum atvinnurekendum, sem bera sig oft illa yfir ýmiss konar örðugleikum, er að þeim steðja.

Margt bendir til, að þetta muni vera heppilegasta fyrirkomulagið og það muni verða upp tekið í ýmsum greinum atvinnulífsins.

Vera má, að einhverjir atvinnurekendur og verkamenn hafi trú á því hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulagi, sem um getur í þáltill., og vilji koma því á. Ef svo er, á það rétt á sér, og ég mæli því ekki gegn till., þó að ég líti svo á, að hægt muni að finna fyrirkomulag í atvinnurekstri, sem muni vera heppilegra en það, sem um getur í þessari till. En það vil ég segja að síðustu, að verði slíkt fyrirkomulag upp tekið, þá ætti það ekki við aðeins á þeim tímum, þegar sérstaklega gengur erfiðlega fyrir atvinnurekstrinum, heldur ætti það einnig að gilda, þegar betur árar.