11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (2598)

88. mál, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er ekki nema sjálfsagt, þegar áhrifamenn Sjálfstfl. sýna nokkra viðleitni til þess að leggja fram einhverjar hugmyndir um lausn þessa flokks á vandamálum þjóðfélagslífsins, að um það sé rætt. Það kemur satt að segja ekki svo oft fyrir, að fulltrúar Sjálfstfl. fáist til þess að koma fram með tillögur í þessum efnum. Og jafnvel þó að forsaga málsins sé eins hjákátleg og hv. þm. V-Húnv. nú gerði stutta grein fyrir, þegar hann rifjaði upp gang þessa máls fyrir tæpum 20 árum, þá gerir ekkert til, þó að tækifærið sé notað til þess að ræða líka af nokkurri alvöru um, hvað það er, sem Sjálfstfl. dettur í hug að koma fram með, þegar meginið af atvinnurekstri landsmanna er stöðvað og hann ætlar sér að fara að fleyta honum áfram.

Það er arðskipti- og hlutdeildarfyrirkomulag í atvinnurekstri Íslendinga, sem þarna er lagt til, og það er talað um, að verkamenn eigi nú að verða hluthafar, þeir eigi nú að fá sinn arð af þessum ágætu fyrirtækjum. Ég vil nú spyrja: Er það nú ekki svo með meginið af öllum þeim hlutafélögum, sem starfa á Íslandi, jafnt þeim, sem borga sig, og þeim, sem tapa, að af þeim sé ekki greiddur arður? Ákaflega sjaldan er það, sem maður heyrir um það, að arði sé úthlutað af íslenzkum hlutafélögum. Þau eru a. m. k. hverfandi fá. Ég er hræddur um, að vaninn sé orðinn sá í sambandi við hlutafélög hér á Íslandi að láta gróðann af þeim, þegar þau á annað borð græða, hverfa á einhvern annan hátt en að það verði hluthafarnir, sem fá hann.

Svo skulum við rétt athuga, hvernig það liti út, jafnvel þótt verkamenn ættu ekki nema arðsvon, fyrir þá að verja kaupi sínu til þess að verða hluthafar í þessum fyrirtækjum. Hver er þá reynsla þeirra manna, sem eru hluthafar hér í fyrirtækjum á Íslandi og eru þar í minni hluta? Það gæti verið nógu fróðlegt að rannsaka starfsemi hlutafélaganna hér í Reykjavík, sérstaklega þeirra ríkustu, til þess að sjá, hvernig þar er yfirleitt farið með þá menn, sem eru í minni hluta.

Það eru til félög, sem eru einhver ríkustu hlutafélög Reykjavíkur og allir þingmenn þekkja vel, hafa t. d. verið stofnuð af iðnaðarmönnum fyrir 40–50 árum, nokkrir smiðir, nokkrir aðrir starfandi menn, og hver hefur orðið þróun þessara félaga, sem í dag eru milljónafélög í Reykjavík, félög, sem skipta sér upp í svo og svo mörg félög til þess að sleppa undan sköttum? Jú, þróunin hefur orðið sú, að hinum vinnandi mönnum í þessum félögum, verkamönnum, iðnaðarmönnum er bolað út. Þeir eru látnir hverfa. Það er stundum kallað á fjármálamannamáli, þeir eru sveltir út. Litlar klíkur, sem ráða í þessum hlutafélögum, eða jafnvel ein einstök fjölskylda sveltir hina út. Það er hægt að rekja sögu elztu togarafélaganna hérna í Reykjavík á sama hátt, félaga, sem hafa verið voldug og grætt á löngu tímabili og einhverjir svokallaðir smærri menn, alþýðumenn eða slíkir, hafa átt eitthvað l. Auðmannaklíkan hér í Reykjavík hefur kunnað það ráð að svæla alla slíka burt úr félögunum. Það væri eins og að bjóða mönnum upp á að ganga í ljónagryfju að ætla að ganga í slík félög nú.

Svo skulum við nú bara gá að því, að það eru ekki endilega verkamennirnir í þessum félögum, sem alltaf væru fyrst og fremst þeir, sem ættu að eiga þarna þátt í, það er ekki gróðinn af þeirra vinnu máske fyrst og fremst, sem skapar auð félagsins. Má ég spyrja t. d.: Hvernig skyldi vera með fiskimjölsverksmiðjuna á Kletti, sem hinir og þessir útgerðarmenn og hraðfrystihúsaeigendur hér eiga? Hvernig skyldi vera með þá verksmiðju, skyldi hennar höfuðgróði vera af því að arðræna bara verkamennina í verksmiðjunni? Skyldi hann ekki vera eins mikill af því að fá með lágu verði hráefnið frá fiskibátum og togurum í verksmiðjuna? Skyldu það þá ekki frekar eiga að vera kannske eftir till. Sjálfstfl. sjómennirnir og aðrir slíkir, sem ættu að vera þátttakendur þarna í? Skyldi það þá ekki frekar vera þannig, að sjómennirnir og verkamennirnir í sameiningu ættu yfirleitt að eiga þessar verksmiðjur, ef það væri meiningin með þessu, að sá gróði, sem þarna skapaðist, rynni til þeirra, sem sköpuðu þennan gróða? Við sjáum hins vegar, að það gengur í nokkuð öfuga átt sem stendur; t. d. þessi nefnda fiskimjölsverksmiðja var núna nýlega að kaupa tvo togara hér í Reykjavík. Nei, ég býst satt að segja ekki við, að auðmennirnir í Reykjavík hafi sérstakan áhuga á því, að í þeirra gróðafyrirtækjum færu verkamenn og sjómenn og aðrir slíkir að eignast meiri hlutann, og annað kæmi náttúrlega ekki til mála, ef þarna ætti yfirleitt að fara að skipta eitthvað um, því að með því að vera litlir karlar í minni hluta þarna, þá þýddi ekki mikið fyrir þá að vera þar, auðvaldið hefur ráðin á að frysta þá út.

Hins vegar er það vitanlegt mál, að verkamennirnir, sem vinna við verksmiðju, eða sjómennirnir, sem vinna á togara eða bát, hætta eftir nokkurn tíma, og þó að þeir væru orðnir hluthafar í einhverju slíku fyrirtæki, þá væru þeir kannske komnir eitthvað út á land og allt aðrir menn farnir að vinna á þessum togara, eða í þessari verksmiðju, og hvernig ætti þá að fara að með þessa nýju? Slíkt fyrirkomulag, bundið við hlutabréf einstakra manna, sem einhvern tíma hafa unnið á togara eða einhvern tíma hafa unnið í verksmiðju, yrði þess vegna hreinasta ómynd, þegar fram í sækti. Með þessu móti yrði ekki hægt að tryggja, jafnvel þótt framkvæmt væri, áhrif og rétt verkamanna og sjómanna og annarra vinnandi manna í sambandi við þessi fyrirtæki. Það er ekki annað ráð þar til þess heldur en að tryggja, að þær stofnanir, sem almenningur ætti að geta ráðið verulega yfir, bæirnir og ríkið eða í hæsta lagi samvinnufélög, þar sem þó væri tryggt, að verkamenn og sjómenn réðu, en ekki einhverjir aðrir, ættu og rækju slík fyrirtæki. Ég álit þess vegna að arðskipti- og hlutdeildarfyrirkomulagið mundi aldrei verða að neinu gagni í þessu efni, ekki einu sinni þar, sem um það væri að ræða, að það væru fyrirtæki, sem raunverulega gæfu gróða. Svo kemur hitt spursmálið, eins og bent var á hér áðan af hv. þm. V-Húnv. Þessar tillögur koma alveg sérstaklega fram frá hálfu Sjálfstfl. á þeim tímum, þegar tap er, ekki sízt á sjávarútveginum. Það er þess vegna rétt fyrir okkur, ekki sízt þegar við horfum nú á bátaflotann stöðvaðan og vitum þess vegna, að varla væri Sjálfstfl. að leggja til að skipta tapinu upp á verkamenn, að athuga, hvernig hægt væri að ráða fram úr þeim málum að skapa meira að segja hvað snertir þau fyrirtæki, sem kallað er að tap sé á, sameiginlega hagsmuni verkamanna og atvinnurekenda.

Hvernig er ástandið núna í dag hjá þeim atvinnurekendum, sem eiga bátana, og þeim, sem eiga togarana? Við skulum gera okkur ljóst, að það eru raunverulega atvinnurekendurnir, sem eru í eins konar verkfalli í dag, t. d. á bátunum, í verkfalli, ekki við verkamenn, verkbannið, sem þeir setja á, er ekki við þá, það er við ríkisvaldið. Það þarf ekki að vera að boða sérstaklega mikið, hver nauðsyn sé á sameiginlegum hagsmunum sjómanna og útgerðarmanna á bátunum í dag. Það er ekki það erfiða mál, sem þarf að leysa í dag. Það stendur ekki yfir neitt verkfall frá hálfu sjómanna enn sem komið er á bátaflotanum, það er ekki slíkt venjulegt launaverkfall, sem stöðvar bátaflotann. Það, sem stöðvar bátaflotann í dag, er eins konar verkfall atvinnurekenda gegn ríkisvaldinu, gegn máttarvöldunum í þjóðfélaginu, það eru kröfur atvinnurekendanna, sem eiga þetta, á hendur valdhafanna í þjóðfélaginu, og að sumu leyti hafa útgerðarmenn og sjómenn í ýmsu af þessu sameiginlegra hagsmuna að gæta. Það er, eins og hæstv. forsrh. tekur fram, andskoti hart að þurfa að vera að taka þetta fram hér í hundraðasta skipti og að Sjálfstfl. skuli ekki vera farinn að læra nokkurn skapaðan hlut af þessu enn þá og koma þess vegna fram með till., sem aðeins gengur út á það að þjóðnýta tapið á þessum rekstri.

Við skulum þess vegna, fyrst Sjálfstfl. samkv. þessari till. allt í einu er farinn að bera svona mjög sameiginlega hagsmuni sjómanna og útgerðarmanna fyrir brjóstinu, athuga, hvernig viðhorfin eru í þessum málum.

Hvað er það, sem stöðvar þennan útveg í dag? Það, sem stöðvar þennan útveg í dag, er, að fjármálaauðvaldið í þjóðfélaginu, valdhafarnir í þjóðfélaginu reyta þannig af honum allt það mikla, sem hann skapar handa þjóðfélaginu, að það verður ekki nægilegt eftir skilið, hvorki til þess að greiða sjómönnum sæmileg laun né atvinnurekendum þannig afrakstur, að þeirra rekstur beri sig. Og hverjir eru það, sem reyta svona af sjávarútveginum? Jú, þeir, sem reyta þannig af honum, eru einokunarhringarnir, heildsalavaldið, bankarnir, allir þeir aðilar, sem núverandi valdhafar og þar með Sjálfstfl. og Framsfl. álíta sér henta að gefa aðstöðu til þess að rýja sjávarútveginn svona inn að skinninu. Það þarf ekkert að prédika sérstaklega mikið um sameiginlega hagsmuni sjómanna og útgerðarmanna í dag. Þeir hafa sameiginlega hagsmuni gagnvart þessum aðilum, en spurningin, sem hérna liggur fyrir, er, hvort Alþingi og ríkisstj., sem hefur valdið í þessu sambandi, vill láta undan kröfunum, sem þessir aðilar gera. Nú sem stendur er það eins konar svikamylla, brask auðvaldsins hér í Reykjavík með ríkisstj. sem sinn framkvæmdarstjóra, sem rýir sjávarútveginn, atvinnurekendur og sjómenn, neyðist að vísu til að henda í þá öðru hverju styrkjum og bátagjaldeyri, vegna þess að meira að segja úr sjálfu olíuauðvaldinu, bankaauðvaldinu og öðru slíku yrði lítið, ef sjávarútvegurinn gengi ekki, en lætur samt sem áður sjávarútveginn stöðvast á hverju einasta ári lengri eða skemmri tíma. Það er þetta mál, sem við þurfum að gera upp við okkur, þegar við erum að ræða um þessa hluti.

Það hefur verið svo hér undanfarið, þegar minnzt hefur verið á sjávarútveginn og þá stöðvun, sem nú er í bátaútveginum, að meira að segja hæstv. ríkisstj., hæstv. forsrh. hefur sagt: Ja, það dugir nú ekki að vera að eyða tíma þingsins svona utan dagskrár í að ræða slík smámál — þó að stöðvun útvegsins baki kannske þjóðinni tjón upp á 2–3 millj. kr. á dag. En það má kannske, þegar lausn Sjálfstfl. á málunum liggur fyrir, verja tíma þingsins innan dagskrár til þess að athuga ofur lítið um málið. Og nú þætti mér gaman að vita hjá þeim, sem hugsa sér arðskipti- og hlutdeildarfyrirkomulagið, hvernig þetta ætti að framkvæmast, við skulum segja t. d. í sambandi við olíuhringana. Er það meiningin með þessari till., að það sé bara Shell og BP og Olíufélagið, sem ættu að útbýta sínum hlutabréfum til verkamannanna og starfsmannanna, sem vinna þar við, eða er það meiningin, að þeir menn, sem þessi t. d. olíufélög skipta við, ættu að fá þarna alveg sérstaka aðstöðu? Nú vil ég taka það fram, að þegar t. d. olíufélögin stórgræða, við skulum segja, svo að við nefnum eitthvert dæmi, að þau græði kannske sínar 40 millj. kr. á ári. Ég býst við, að fæstir mundu vilja halda því fram, að þessi gróði væri skapaður með arðráni á verkamönnunum, sem vinna — í olíustöðvunum. Ég býst við, að enginn, ekki einu sinni þeir vondu kommúnistar, — mundi vilja halda því fram. Ég gæti bezt trúað, að menn yrðu frekar sammála um, að eitthvað af þessum gróða væri skapað með því að selja olíuna of háu verði út til útgerðarmanna, sjómanna og ýmissa þeirra, sem nota olíuna í heimahúsum, eða manna, sem kaupa olíu á bíla eða annað slíkt. Og ef hið fullkomna réttlæti Sjálfstfl., sem hann berst fyrir í þessu sambandi um atvinnurekstur Íslendinga, ætti þess vegna að framkvæmast, þá býst ég ekki við, að þessu réttlæti yrði náð með því, að það væru verkamenn og starfsmenn olíufélaganna, sem fengju þarna hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag, heldur yrðu það þá að vera viðskiptavinir olíuhringanna, sem fengju þessa aðstöðu, m. ö. o., að þeir eignuðust þessa hlutdeild og þeir hlytu aðstöðuna til arðskipta úr þessum olíufélögum. Nú eru hins vegar vandræðin þau — og kannske engin vandræði þó — að allir Íslendingar eru viðskiptavinir þessara olíuhringa á einn eða annan hátt, svo að ef það ætti að tryggja, að það væru viðskiptavinirnir, sem fengju þarna algert réttlæti og sætu við sama borð og nytu samsvarandi gróða og sjálfir eigendur fyrirtækjanna, þá er ég hræddur um, að þessi fyrirtæki yrðu að vera eign alþjóðar, að þjóðin yrði sjálf að eiga þau fyrirtæki, sem önnuðust innflutninginn og reksturinn á olíunni og dreifinguna á henni. Um það liggur nú einmitt fyrir till. hér á Alþ. frá Alþfl., þ. e. um það fullkomna hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag, sem mundi tryggja, að landsmenn almennt nytu þessarar aðstöðu. Og þá er um tvennt að ræða, annaðhvort að til landsmanna almennt rynni gróði, sem á þessu væri, eða þá að fyrirtækjunum væri stjórnað á þann hátt, að þeir, sem við þau skiptu, fengju þessa vöru með sanngjörnu verði án nokkurs gróða og að þeir þess vegna fengju þannig raunverulega fyrir fram útborgaðan gróðann af þessu. Ég álít þess vegna, að þetta fyrirkomulag, sem hérna er talað um, yrði nokkuð erfitt í framkvæmd, þegar um er að ræða eins tækniþróað fyrirkomulag og við höfum núna í þjóðfélaginu. Ef við viljum stefna að þessari almennu hlutdeild og arðskiptum, sem hér er talað um, þá lendum við hvað snertir stór fyrirtæki eins og þarna er um að ræða út í þjóðnýtingu, út í sameign þjóðarinnar á hlutunum.

Ef til vill kemur þetta spursmál enn þá betur í ljós, þegar við förum að athuga þetta í sambandi við fyrirtækin, sem ríkið nú þegar á. Ég tók eftir því í leiðara í Morgunblaðinu í morgun, það var þar að vísu talað um dálítið aðrar aðferðir frá hálfu Sjálfstfl. til að leysa vandamálin en þær, sem hérna liggja fyrir, og m. a. minnzt á verðhjöðnunarleiðina, lækkun á kaupgjaldi og lækkun á verðlagi, en það er alltaf einn hlutur, sem varazt er að minnast á, þegar talað er um ástandið í íslenzkum atvinnurekstri, og það er gróðinn, sem fer til einstakra aðila, hvort heldur það eru t. d. olíuhringarnir og aðrir einokunarhringar, heildsalarnir eða aðrir slíkir eða þá t. d. bankarnir. Og það, sem ég var nú að koma að, var: Hvernig væri þá með fyrirtæki eins og t. d. bankana, sem væru meira að segja ríkiseign?

Það er talað um, að á öllum íslenzka togaraflotanum hafi máske undanfarin ár verið tap, sem samsvarar 20–30 millj. kr. Það er talað um, að þetta tap jafnvel núna á síðasta ári eða á komandi ári geti farið upp í einar 50–60 millj. kr. En hver er svo gróðinn á þeim bönkum, sem ríkið rekur sjálft? Það er vitanlegt, að t. d. af Landsbankanum einum er milli 30 og 40 millj. kr. gróði á ári. Af öllum bönkunum til samans er ekki undir 50–60 millj. kr. gróði. Forríkir bankar í Danmörku, t. d. í Kaupmannahöfn, telja það sæmilega afkomu að hafa á einu ári 1–3 millj. kr. gróða, bankar, sem hafa margfalt meira fjármagn yfir að ráða en íslenzku bankarnir. Hér aftur á móti fást menn ekki einu sinni til þess að ræða það, hvort sú pólitík sé rétt, að taka þannig t. d. til bankanna tugmilljóna króna gróða, meiri gróða en samsvarar því, sem allir togararnir til samans tapa.

Má ég nú spyrja: Ef sjómenn á togurunum eiga eftir þessari till. Sjálfstæðisflokksþingmannanna að vera meðeigendur í Kveldúlfi eða einhverjum ákveðnum hlutafélögum, er þá meiningin, að það eigi samt að halda áfram, að hvort heldur væri olíuhringar eða bankar eigi að geta tekið milljóna króna gróða á skiptunum við þessi félög? Það vita allir, að sá gróði, sem skapast á Íslandi, er fyrst og fremst skapaður í sambandi við gjaldeyrinn, gróði bankanna ekki síður, og þessa gjaldeyris afla togararnir og bátarnir, sjómennirnir á togurunum og sjómennirnir á bátunum. Þegar sjómennirnir þess vegna koma til með að spyrja um sinn hlut í togarafélaginu, þá koma þeir til með að spyrja: Á, áður en skipt er út hlutnum til mín, að koma einn aðili, sem heitir banki, og taka meginið af fiskinum, og á að koma annar aðili, sem heitir olíuhringur, og taka meginið af fiskinum, eða á að setja fiskinn upp á bryggjuna, eins og gert var í gamla daga, og skipta í hluti og síðan eigi þeir að sitja á hakanum, sem eru nógu ríkir til þess að geta haldið áfram að græða, þó að þeir fengju ekkert af útgerðinni? Hvers konar hlutaskiptafyrirkomulag á þarna að vera? Eiga fyrst þeir, sem sitja hér í landi inni í sínum heitu stofum, að taka allan gróða, sem útvegurinn skapar, og eiga svo þeir, sem fara út á sjóinn og vinna og framleiða þetta, ekki einu sinni að fá almennilegt kaup, hvað þá meira, hvað þá hlut? Þetta er það fyrirkomulag, sem er í dag. Þetta er það fyrirkomulag, sem ríkisstj. skipuleggur á þessum atvinnurekstri í dag. Menn hér í landi hrifsa til sín gróða, svo að hundruðum milljóna króna. Og þetta er huldumálið, sem flokkarnir, sem nú ráða ríkjum hér, fást ekki til að ræða. Þetta er það, sem þeir fást ekki til þess að tala um. Þetta er það, sem þeir þora ekki að horfast í augu við, af því að þetta er sannleikurinn í málinu. Það eru ræningjar arðsins hér í Reykjavík, sem nota ræningjaflokkana sem tækin fyrir sig, sem hrifsa gróðann af útveginum og skipta honum upp á milli sín í landi og eru núna að ganga það lengra að taka sjálf framleiðslutækin til sín.

Þetta er þróunin í málunum. Svo stöðvast hver togarinn á fætur öðrum, og svo talar Sjálfstfl. um hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag á togurunum, og á meðan halda olíuhringar og bankar og aðrir slíkir, húsabraskarar og verðbólgubraskarar, áfram að safna auði. Og fyrst þingmenn Sjálfstfl. hafa svona mikinn áhuga fyrir hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulagi og að verkamenn og sjómenn taki vaxandi þátt í stjórn fyrirtækjanna, má ég þá spyrja: Af hverju hefur ekki Sjálfstfl. sýnt þetta í framkvæmd nú undanfarið með áhuga sínum á rekstri þeirra fyrirtækja, sem mestu valda um, hvernig útvegurinn er nú rekinn, við skulum segja bankanna? Hefur Sjálfstfl. undanfarið verið að tryggja það með sínum afskiptum af stjórn á bönkunum, að verkamenn og sjómenn fengju þar vaxandi áhrif, t. d. í bankastjórn? Eða hefur Sjálfstfl. máske hins vegar verið að tryggja það með afskiptum sínum af stjórn bankanna, að allra innsti og þrengsti hringur Sjálfstfl. fengi þarna vaxandi áhrif, svo að það væri verið að gera bankana hérna í vaxandi mæli að fjölskyldufyrirtækjum og ættu þó að heita bankar ríkisins eftir sem áður.

Ég kann betur við, að það sé eitthvert ofur lítið samræmi á milli orða og verka, þegar verið er að tala um þessi mál. Og mér sýnist, að sem stendur í þeim véum þjóðfélagsins, þar sem fyrst og fremst er ákveðið, hvernig stjórna skuli í efnahagsmálum, eins og bönkunum, hafi allt stefnt í þá áttina, að Sjálfstfl. væri að sölsa undir sig yfirráðin, en síður en svo, að þar ætti að fara að gefa verkamönnum og sjómönnum og öðrum vinnandi stéttum einhverja hlutdeild í. M. ö. o.: Tapið vill máske Sjálfstfl. lofa mönnum að bera, verkamönnum, með því að lækka laun þeirra, á sama tíma sem aukinn sé gróði hjá bröskurunum, en um gróðann og áhrifin á, hvernig verðmæti framleiðslunnar sé skipt, sýnist mér ekki hugur fylgja máli hjá Sjálfstfl. eftir hans pólitík að dæma. Þess vegna liggur mér við að halda, að þessi till. sé jafnvel flutt til að sýnast.

Hér var talað af hálfu hv. flm., hv. þm. N-Ísf., um sameiginlega hagsmuni verkamanna og atvinnurekenda, og þeir hafa ýmsa sameiginlega hagsmuni, ekki sízt í sambandi við aukninguna á flotanum og aukninguna á verksmiðjunum. En mér sýnist nú ganga heldur lítið með þá aukningu, eins og nú standa sakir. Það hefur ekki verið keyptur nýr togari í sjö ár, og er þó öllum vitanlegt, að þeir standa undir og skapa helminginn af öllum þeim gróða, sem skapaður er á Íslandi. Og það gengur nokkuð erfiðlega með þær verksmiðjur, sem komið er upp, enda hefur stjórnarfarið á Íslandi verið þannig undanfarið, að þar hefur verið það auðvald eitt, sem ekki hefur áhuga á atvinnurekstrinum, heldur eingöngu á því að ná gróðanum af honum.

Ég er hræddur um, að ef þarna á að verða breyting á, þá dugi ekki neinir hlutir eins og þeir, sem lagt er til í þessari þáltill. Það er komið svo með allt atvinnulíf Íslendinga, allan okkar atvinnurekstur, að hann á allt sitt líf, alla sína tilveru undir sjálfri stjórninni á þjóðfélaginu, stjórninni á ríkinu. Hvort sem menn vilja lofa það eða lasta, þá er þróunin orðin sú, að á herðum þeirrar ríkisstjórnar, sem situr á einhverjum tíma, hvílir ábyrgðin á því, að atvinnureksturinn gangi. Það, sem vantar á, til þess að íslenzka þjóðfélagið gangi og gangi af einhverju viti og að ekki aðeins atvinnutæknin aukist, heldur líka blómgist hann og gangi vel, er, að verkamenn, að vinnandi stéttirnar hafi úrslitaáhrif á sjálfa stjórn ríkisins, þar með á stjórn þjóðarbúskaparins og þar með á stjórn atvinnuveganna í landinu. Það er það, sem er lausn þess máls, sem fyrir stendur. Ef svo er, þá geta þessir hlutir gengið vel. En það auðvald, sem stjórnað hefur undanfarið og hugsar um það eitt að sölsa undir sig arðínn af atvinnurekstrinum, en láta svo þann atvinnurekstur, sem er grundvöllur þjóðfélagsins, sjávarútveginn, ganga með tapi, getur ekki gengið. Og þegar fulltrúar slíks auðvalds henda svo fram tillögum eins og þessari hérna, þá er ekki nema eðlilegt, að meira að segja menn úr stjórnarflokkunum hendi gaman að.