19.01.1956
Neðri deild: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

135. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja hér örfá orð í sambandi við þetta mál, af því að þannig stendur á, að hæstv. forsrh. er hér ekki viðstaddur nú, en nokkuð hefur verið vikið að honum og einnig afstöðu Sjálfstfl. í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram.

Hæstv. fjmrh. gat um það hér áðan í sinni ræðu, að hann hefði gert grein fyrir því fyrir áramót, að hann hefði talið, að hægt væri að afgr. þá fjárl., en um það hefði ekki náðst samkomulag í ríkisstj. eða milli stjórnarflokkanna. Þetta er alveg rétt, eins og skýrt var frá af hálfu hæstv. forsrh. þá á sama þingfundi, og gerð grein fyrir því, að Sjálfstfl. teldi, að ekki væri auðið að afgr. fjárl. endanlega, fyrr en séð væri, hvaða leiðir yrðu farnar til þess að leysa vandamál útvegsins, þar sem það hlyti að hafa margvísleg áhrif á afkomu ríkissjóðs, til hverra úrræða yrði gripið í því efni, og þar sem sýnt væri, að það yrði að leggja alla áherzlu á að hraða því máli, þannig að því gæti orðið lokið sem allra fyrst eftir áramótin, ætti það ekki að þurfa að skapa nein vandkvæði, þó að fjárlagaafgreiðslan yrði látin bíða, þar til séð væri, hvaða úrræði yrðu fundin í sambandi við sjávarútvegsmálin.

Þessi afstaða Sjálfstfl. hefur ekkert breytzt að þessu leyti. Ég hygg, að allir hv. þm. muni vera sammála um það, að afkoma, ekki aðeins ríkissjóðsins, heldur þjóðarbúsins alls, veltur á því, að það takist að halda þessum undirstöðuatvinnuvegi gangandi, og að það velti því umfram allt annað á því að finna úrræði í því efni. Og þar sem, eins og ég gat áðan um, hlaut að verða að leggja áherzlu á, að það mál leystist sem skjótast upp úr áramótum, þá átti það ekki að þurfa að skapa nein vandkvæði, þó að jafnvel þyrfti að afgr. málið um sinn með bráðabirgðafjárgreiðslum jafnvel fram undir mánaðamótin, en væri hins vegar mun eðlilegra, þegar það hlyti að koma til álita, bæði í sambandi við fjárl. og lausn útvegsmálanna, að leggja á nýja skatta í einu eða öðru formi, og til þess að þar yrði samræmi á milli, þá væri rétt að afgr. það sameiginlega. Það er því kannske ekki alveg nákvæmlega rétt frá sagt af hæstv. fjmrh., að þingfylgi skorti fyrir afgreiðslu fjárl. Þingfylgi skortir ekki fyrir afgreiðslu þeirra á annan veg en þann, að sjálfstæðismenn hafa talið, að rétt væri að bíða, eins og ég áðan gat um, en það felst alls ekki í því, að Sjálfstfl. sýni eða vilji sýna neina tregðu í því að afgr. skynsamleg fjárl. Því hefur hann sýnt fullan vilja á undanfarin ár og mun ekki heldur skorast undan því nú, þó að hann vilji að öðru leyti hafa þessi vinnubrögð á.

Ég held, að þetta, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, liggi ákaflega ljóst fyrir, og það er engin launung á þessari afstöðu og þarf þess vegna ekki af hv. 2. þm. Reykv. (EOl) né öðrum að vera að breiða sig út yfir það eða vera með nokkrar getgátur um það efni. Það liggur hreint og ljóst fyrir, hver afstaðan er að þessu leyti.

Hv. 2. þm. Reykv. benti á það, sem öllum er ljóst að er alvörumál, að útgerðin stöðvist langan tíma, en það er áreiðanlega ekki síður áhyggjuefni ríkisstj. og þingflokka hennar en stjórnarandstöðunnar, að svo sé. En það er rétt að vekja athygli á því, að það er auðvitað, eins og hæstv. fjmrh. sagði, mjög auðvelt að leysa þennan vanda á þann hátt að ganga að öllum þeim kröfum, sem fram eru bornar. Það er eins og í sambandi við aðrar deilur, vinnudeilur og kröfur, sem risið hafa, að þá er ósköp einfalt að leysa málið á þann veg. En mig undrar það nú sannast sagt mjög, ef það er skoðun kommúnista a. m. k., að það beri að leysa þetta mál á þann veg að ganga að öllum þeim kröfum, sem útvegsmenn hafa fram borið. Það stingur a. m. k. nokkuð í stúf við það, sem áður hefur verið borið fram sem ásökun, ekki hvað sízt á hendur Sjálfstfl., að hann vilji ætíð ganga fram fyrir skjöldu til að verja hagsmuni atvinnurekenda og auðmanna, eins og það er orðað, ef það á nú að vera honum til dómsáfellis að hafa ekki viljað orðalaust ganga að öllum þeim kröfum, sem útgerðarmenn og frystihúsaeigendur báru fram í sambandi við útvegsmálin. Sannleikurinn er sá, að orsök þess, að ekki hefur enn tekizt að ná hér saman endum, er fyrst og fremst sú, að ríkisstj. og þá ekki síður Sjálfstfl. hefur ekki viljað fallast á þær kröfur, sem taldar hafa verið óréttmætar. Það er skoðun Sjálfstfl., að þetta mál beri að leysa sem skjótast og að það verði að leysast á þann veg, að útgerðin geti gengið, en þó án þess, að óeðlilega miklar álögur séu lagðar á þjóðina í því sambandi. Það hefur áreiðanlega ekki verið legið á liði sínu við að reyna að ná samkomulagi um lausn þessara mála, og það er algerlega ástæðulaust fyrir hv. 2. þm. Reykv. að vera hér með dylgjur um það, að hæstv. forsrh. muni ekki hafa lagt sig svo sérlega fram í því máli, hann hafi a. m. k. gefið sér tíma til að mæta á fundi suður á Keflavíkurflugvelli. Það skal nú að vísu upplýst, að hann mætti þar ekki, fyrst og fremst vegna anna í sambandi við þetta mál. Og það hafa verið stöðugir fundir nú að undanförnu og viðleitni í þá átt að leysa þennan vanda. (EOl: Hann ætlaði að mæta.) Já, það þýðir ekki sama og að hann hafi mætt. (Gripið fram í.) Já, hann sagði frá því, að hann ætlaði að mæta, en það er einnig sagt frá því, að hann hafi ekki mætt sökum anna, og það hefði þessi hv. þm. einnig mátt lesa, þannig að það er alveg ástæðulaust að vera með nokkrar dylgjur í því efni, að hann hafi ekki lagt sig fram og sýnt fullan áhuga á að leysa þetta mál og ég held ríkisstj. yfirleitt.

Annars er ákaflega kynleg afstaða kommúnista í sambandi við þessi útvegsmál, að annan daginn eru sjálfstæðismenn skammaðir fyrir það, að þeir vilji ekki ganga að öllum kröfum, sem bornar eru fram af útveginum, hinn daginn eru þeir skammaðir fyrir að veita útveginum allt of mikil fríðindi. Ég man eftir því, að þeir voru mjög ásakaðir fyrir bátagjaldeyrinn á sínum tíma. Þeir voru alveg jafnmikið skammaðir fyrir það, þegar á s. l. ári var gerð ráðstöfun til þess að skerða bátagjaldeyrisréttindin, þannig að það er ákaflega vandlifað að þessu leyti, en sýnir, hvað það er ákaflega lítið mark að taka á öllu þessu glamri. Það leysast engin vandamál á þann hátt, heldur verður að reyna að vinna að þeim af einlægni og reyna að finna skynsamlegan grundvöll, sem geti leitt til farsællar niðurstöðu fyrir þjóðarbúið. Við stöndum andspænis þeim vanda, bæði í sambandi við fjárl. og útvegsmál okkar og atvinnumál yfirleitt, að þau lenda með meiri og meiri þunga á ríkissjóði, sem leiðir aftur af sér, að það þarf að leggja nýjar álögur á þjóðina. Þetta verður alltaf eðlileg niðurstaða, þegar meiri kröfur eru gerðar á hendur atvinnuvegunum en þeir geta risið undir, og er sá mikli vandi, sem íslenzka þjóðin á við að stríða og verður því miður æ þungbærari sem líður.

Þetta taldi ég rétt aðeins að kæmi hér fram í sambandi við þær umr., sem hér hafa orðið um bæði útvegsmálefnin og afgreiðslu fjárlaga.