11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (2613)

120. mál, símamál Austfirðinga

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Út af fram kominni till. á þskj. 175, sem hv. 11. landsk. þm. var nú að lýsa, hef ég spurt póst- og símamálastjóra um það, hvort ástandið í símamálum Austfirðinga væri eins alvarlegt og lýst er í till., og ég hef beðið hann um grg. varðandi þetta, því að ef það væri rétt, sem till. greinir og tekið er fram í grg., þá væri vissulega úrbóta þörf, og ég bað um upplýsingar um þetta mál. Það má vel vera, að það megi færa rök fyrir því, að það sé æskilegt að lagfæra ýmislegt í sambandi við símamál Austurlands, og þannig mun það vera í fleiri landshlutum, en eftir því sem grg. póst- og símamálastjóra greinir, fær það ekki staðizt, sem sagt er í till. Ég vil hér, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þá grg., sem póst- og símamálastjóri hefur gefið mér í sambandi við þessi símamál:

„Fram til ársins 1943 var aðeins ein símalína sunnanlands milli Reykjavíkur og Austfjarða, en þá var bætt við þremur nýjum talrásum, fjölsíma. Þrátt fyrir þessa miklu línufjölgun er nú aftur orðið mjög þröngt um afgreiðslu milli þessara landshluta. Póst- og símamálastjórninni er þetta ljóst og hefur því þegar fyrir tveim árum hafið undirbúning að mikið auknu og mjög fullkomnu símasambandi milli Reykjavíkur og Austfjarða á mjög stuttum bylgjum. Undirbúningur með nauðsynlegum mælingum og rannsóknum hefur tekið langan tíma, enda er hér um nýjustu tækni að ræða. Verður unnið að þessu verki og því hraðað svo sem unnt er. Útboð um það hefur verð sent fyrir nokkru til ýmissa verksmiðja, en búast má við, að afgreiðslutími hjá þeim verksmiðjum, sem færar eru að búa til slík tæki, sé nokkuð langur.

Á fjárlagafrumvarpi því, sem nú er til meðferðar á Alþ., eru í þessu skyni veittar 600 þús. kr. á árinu 1956. Í greinargerð póst- og símamálastjóra fyrir þessum fjárlagalið, er fylgdi tillögu póst- og símamálastjórnar til fjárlaga í júlímánuði s. l., segir svo:

„Fyrirhugað er að koma á sem allra fyrst stuttbylgjusambandi milli Suður- og Austurlands með millistöð í Hornafirði, og hefur á yfirstandandi ári, 1955, verið unnið að undirbúningi þess, en framkvæmd á því getur ekki hafizt fyrr en árinu 1956 og því væntanlega lokið á árinu 1957 og 1958. Tilboð hafa ekki fengizt enn, þannig að hægt sé að gera endanlega kostnaðaráætlun, en lagt er til, að 600 þús. kr. séu veittar á árinu 1956 í þessu skyni. Nú er svo komið, að mikill skortur er orðinn á talrásum milli Suður og Austurlands, sem nauðsyn ber til að bæta úr, og er stuttbylgjusamband langódýrasta og öruggasta leiðin til þess.

Meðan verið er að koma í framkvæmd þessu fullkomna sunnanlandssímasambandi, hafa verið gerðar ráðstafanir til að auka á næsta vori sambandið norðan um land til Austfjarða um tvær talrásir, og ætti það að vera mikil bót.“

Þá skal bent á, að það er ranghermi í grg. fyrir till., að varnarliðið noti umrædd talsambönd. Svo er ekki. Enn fremur er það ekki rétt, að meginhluti símtalanna sé hraðsímtöl. Sem betur fer er svo ekki. Samkvæmt skýrslum símstöðvarinnar í Neskaupstað var hlutfallið t. d. milli Neskaupstaðar og Reykjavíkur sem hér segir:

Í júlí 1955 níunda hvert símtal hraðsímtal, ágúst tólfta hvert, september þrettánda hvert, október seytjánda hvert, nóvember nítjánda hvert og í desember nítjánda hvert símtal hraðsímtal.

Meðalbiðtími var athugaður frá Reykjavík til Austfjarða 15. og 17. des. 1955 og var frá 0–17 mínútur.

Með skírskotun til framanritaðs ætti að vera óhætt að segja, að þáltill. sú, sem hér um ræðir, sé óþörf, þar sem athugun sú, sem hún fjallar um, hefur þegar farið fram og framkvæmd í málinu er að hefjast og ástandið í símamálunum og afgreiðslu símtala engan veginn líkt því, sem tekið er fram í tillögunni.

Jafnframt þessum upplýsingum þykir rétt að geta þess, að sama má segja um símasamband Vestfjarða við aðra landshluta, að þau eru orðin ófullnægjandi og þurfa því einnig sem skjótastra úrbóta. Símaþörfin hefur vegna hins gróandi athafnalífs vaxið örar en svo, að unnt hafi verið að fá fé og fjárfestingu til enn meiri símaframkvæmda en hafnar hafa verið, enda hefur þótt nóg um.“

Þetta er grg. póst- og símamálastjóra, sem sýnir, að það er verið að vinna að því að bæta úr símasambandinu á milli Austur- og Suðurlandsins, og má gera ráð fyrir því samkvæmt henni, ef áætlunin stenzt, að eftir eitt eða tvö ár verði úr því bætt með stuttbylgjusambandi. Og þegar það er athugað, að líkt er ástatt með fleiri landshluta, eins og Vestfirði, að símamálin þar eru ekki í betra lagi, en einnig er verið að vinna að því að bæta þar úr, þá held ég, að það sé erfitt að ásaka símamálastjórnina fyrir aðgerðaleysi, fyrir það, að hún hafi ekki haft opin augu fyrir því, sem þarf að gera. En það er svo, að þetta eru allt saman kostnaðarsöm verk, þetta krefst mikils fjár, og það hefur ekki verið unnt að fá meira fé í símaframkvæmdir á undanförnum árum en raun ber vitni. Það verður að viðurkenna, að varið hefur verið til símamálanna undanfarið allmiklu fé og mikið unnið að þessum málum og því ekki ýkjamörg ár þangað til þessi mál verða komin í æskilegasta horf.