11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (2614)

120. mál, símamál Austfirðinga

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Sú umsögn, sem hæstv. ráðh. hefur flutt hér frá hendi símamálastjóra, er að mörgu leyti harla einkennileg fyrir þá, sem vel þekkja til um þessi mál, og í heild sýnir þessi umsögn mér, að það virðist vera mikill skortur á því, að sá maður, sem hér gefur frá sér þessa umsögn og á að heita að stjórni þessum málum, geri þá kröfu til sjálfs sín og síns starfs sem eðlilegt er.

Hann skýrir frá því í umsögn sinni, að fram að 1943 hafi aðeins verið ein langsímalína á milli Reykjavíkur og Austurlandsins um Suðurland, en þá hafi verið gerðar nokkrar úrbætur, eða bætt við þremur talrásum. Þetta er rétt. Árið 1943 urðu verulegar umbætur í símamálum okkar. En ætli flestir veiti því ekki athygli, að einmitt á þeim 13 árum, sem liðin eru síðan, hafa orðið hinar stórkostlegu breytingar, sem kalla á miklu meiri þjónustu en þá átti sér stað, en í 13 ár hefur í þessum efnum ekki verið um neina framför að ræða, enda viðurkennir símamálastjóri í þessari yfirlýsingu sinni, að nú sé orðið mjög þröngt á línunum austur? Af hverju segir hann ekki þann sannleika, sem allir þeir símamenn, sem maður talar við um þessi mál og beinlínis vinna við þetta, viðurkenna, að það séu áberandi mest þrengsli á viðskiptunum frá Reykjavík til Austurlandsins, borið saman við allar aðrar langlínuafgreiðslur hjá landssímanum? Þar er um langsamlega mestu þrengslin að ræða. Þetta átti að viðurkenna, því að þetta er það, sem allir vita að er rétt. Starfsmenn símans draga enga dul á, að þetta sé svona. En svo segir símamálastjóri, að nú sé að vísu hafinn undirbúningur að því, að þetta verði lagað, og m. a. sé þessu komið svo langt, að nú sé búið að senda út útboð eftir nýjum tækjum, sem nota þarf í þessu efni. Jú, það er mjög gleðilegt, að málið skuli þó loksins eftir alla þá baráttu, sem Austfirðingar hafa háð í þessum efnum, vera komið á það stig, að það sé farið að senda eftir tilboðum. Það á sem sagt mjög greinilega langt í land enn þá, að lausn komist á málið, og mættu þeir, sem hafa með þessi mál að gera, frekar biðjast afsökunar á því, að þeir skuli vera svona seinir á sér, að eftir að allt er komið í öngþveiti og búið að standa í öngþveiti í mörg ár, þá er núna fyrst verið að leita eftir tilboðum. En það er samt sem áður gleðilegt fyrir okkur, að það skuli þó hafa þokazt það áleiðis, að það er þó farið að leita eftir tilboðum, en ekki er einu sinni búið að samþykkja nein kaup. Það er búið að tala um stuttbylgjusamband við okkur í mörg ár, að það muni vera hagstæðasta leiðin til lausnar á okkar símamálum að taka upp stuttbylgjusamband á milli Reykjavíkur og Hornafjarðar. Þetta er ekkert nýtt. Þetta erum við búnir að heyra margsinnis, þegar á þetta hefur verið minnzt, en um framkvæmdir hefur ekki verið að ræða, því miður.

Þá segir símamálastjóri það, sem mér þótti sérstaklega einkennilegt í skýrslu hans, að það sé rangt, sem sagt er í grg. fjórðungsþings Austfirðinga og í grg. þessarar till., að varnarliðið noti símalínurnar. Ætlar hann að segja okkur það, að varnarliðið á Langanesi og Stokksnesi eigi engin símasambönd við Reykjavík? Ég skal upplýsa það hér, að það hefur þrásinnis komið fyrir, þegar ég hef beðið um símtöl við Austurlandið, að þá hafa símastarfsmennirnir sagt við mig: Það er ekki hægt á þessum tíma, því að á þessum tíma er forgangur fyrir varnarliðið. — Og það hefur verið tiltekinn tími á dag, sem það hefur haft forgang að línunum. En svo segir símamálastjóri hér í umsögn, að það sé rangt, að þeir noti þessa einu línu, sem hér er á milli.

Þetta er vitanlega algerlega rangt farið með staðreyndir, eða a. m. k. fá símanotendur annað að heyra hjá símastarfsfólkinu, þegar beðið er um samtöl.

Þá var birt hér skýrsla, sem gerir það að verkum, að ég er a. m. k. engu nær, og ég hugsa, að margir fleiri þm. séu litlu nær um það, að það hafi verið gerð athugun á því, hvernig háttað hefur verið fjölda hraðsamtala frá Neskaupstað í tilteknum mánuði við Reykjavík. Ég tók eftir því, að einn mánuðinn var níunda hvert samtal, sem átti sér stað, hraðsamtal. Það er auðvitað alveg augljóst mál, að það er gífurlega hátt. En hitt veit ég, og það vita allir, sem eiga í því að þurfa að tala alhnikið í síma á milli Reykjavíkur og Austurlandsins, að langoftast verður símafólkið að segja manni, að það séu fjöldamörg hraðsamtöl sem bíða, upp í 10–12 hraðsamtöl, maður verði að vera 10. eða 12. á hraðsamtalalista, þangað til hægt sé að koma sínu sambandi í gegn. Þetta er reynsla þeirra, sem eiga í því að nota þessar línur. Þetta segi ég að sé óviðunandi, og það er um óeðlilega mikil hraðsamtöl að ræða á þessari leið.

Eftir öllu þessu, sem ég hef sagt, og eins og fram kemur í þessari till. og eins og fram hefur komið í samþykktum Austfirðinga, manna úr öllum flokkum, frá kaupstöðunum á Austurlandi og báðum sýslum, sem hafa gert samþykktir um þetta, en þeirra samþykktir eru nákvæmlega eins og sú samþykkt, sem hér liggur fyrir í þeirri till., sem ég flyt, þá er það svo, að ástandið hefur verið óviðunandi. Og símamálastjóri gerir sér þetta ljóst, því að hann á nú í undirbúningi, segir hann, úrbætur, og það hefur því verið sannarlega þörf á því að flytja þetta mál og fara fram á úrbætur í þessum efnum. Hins vegar er hitt mjög óeðlilegt, að hann skuli bregðast við á þann hátt, sem þessi yfirlýsing bendir til, og segja, að hér sé um óþarfa tillögu að ræða. Sannleikurinn er miklu frekar sá, að það hefði verið þörf á því, að till. hefði verið flutt miklu fyrr, en áður hafði verið farin sú leið að skora á símamálastjórnina og leita eftir úrbótum í þessu, en það hefur dregizt úr hömlu. En nú þegar till. kemur fram, þá er sagt: Ja, nú erum við þó búnir að óska eftir tilboðum, að vísu erum við ekki búnir að samþykkja neitt, þetta mun koma, og af því er þetta allt óþarft. — Nei, sannleikurinn, sem nú liggur orðið hér fyrir, sýnir, að málið er ekki að ófyrirsynju flutt. Það er full þörf á því að ýta á þá framkvæmdarstjórn þessara mála, sem með þau hefur að gera, því að hún hefur unnið heldur dauflega að lausn þeirra, og jafnvel enn í dag virðist þeim æðstu sýnast svo, að þetta sé ekki með öllu þarft mál.

Ég vona nú, að sú n., sem fær málið til athugunar, reynist vera á skoðun okkar Austfirðinga, að það sé þörf á því, að ríkisstj. ýti á símamálastjórnina með að greiða sem allra fyrst úr þessum málum eins og þau standa nú.