11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í D-deild Alþingistíðinda. (2615)

120. mál, símamál Austfirðinga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið, en mig langar samt til að láta koma fram þrenn sjónarmið, sem mér virðist frsm. málsins að nokkru gleyma, a. m. k. sumum þeirra.

Ég vil fyrst benda á það, að ég nota símann mikið um allt land. Ég tala líklega á mánuði fyrir eitthvað dálítið á annað þús. krónur, og það er langverst að ná símasambandi við Vestfirði. Þar þarf ég að bíða lengst til þess að ná í þá, sérstaklega svæðið á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar næst kemur norðausturhornið á landinu, þegar ég þarf að ná í það, ekki sjálft Austurlandið, heldur Þistilfjörðurinn, Langanesið og Skeggjastaðahreppurinn. Þetta er mín reynsla og hefur verið í mörg ár, og ég held, að það sé alveg tvímælalaust, að hún sé rétt.

Hvað Austurland snertir sérstaklega, þá eru nú fleiri leiðir til þess en sunnan um land. Það eru þrjár línur til Austurlandsins norður um land. Það er lína yfir Möðrudal, það er lína yfir Haug, það er lína um Þórshöfn. Heiðarfjallsmennirnir tala yfir Þórshafnarlínuna og tefja ekki á neinn hátt fyrir Norðfjarðarmönnum í samtölum.

Ég held, að samtölin við Austurland greiðist töluvert mikið, þegar komið er gott fjölsímasamband til Akureyrar og áfram til Breiðumýrar, þannig að þar fyrst greiðist það í þrennt, línurnar áfram norður og austur, og þegar margir komast að svo langt norður, þá held ég, að þetta hljóti að lagast, og þetta er allt á leiðinni. Það er á hverju sumri lagt lengra og lengra af jarðsímanum norður, til þess að það geti komizt margir menn þar í einu inn á, og þá rýmkast jafnframt um austurleiðirnar. Vafalaust heldur sá jarðsími svo áfram lengra en honum hefur verið hugað núna. — Þetta var það, sem ég vildi benda á.

Í öðru lagi vildi ég benda á það, að það hefur verið svo hér á Alþ. fram að þessu, að áhugi þingmannanna yfirleitt, þ. á m. minn, hefur beinzt að því að koma símanum sem víðast heim til manna. Það eru ekki nema tiltölulega fá ár síðan annað hvert sveitaheimili vantaði síma, og þá beindist allur okkar áhugi að því að fá fé í það að koma símanum áfram til enn fleiri manna. Enn þá er það svo, að það eru ekki nema um 70% af bændum í þeim sýslum, sem verst eru símaðar, sem hafa síma. Og þegar póst- og símamálastjórnin þá bar því við, að þetta væri varla hægt, það væri svo þröngt á línunum, þeir þyrftu að fá fé til að gera línurnar tvöfaldar hingað og þangað, þeir þyrftu að fá fé til að annast langlínurnar, skelltum við allir við því skollaeyrunum og heyrðum það ekki, en heyrðum hinar kröfurnar frá notendunum um, að þennan bónda þarna vantaði síma og þennan vantaði síma og þennan vantaði síma. Þess vegna hefur það orðið út undan bókstaflega síðustu árin að hugsa um langlínurnar. Þetta er sannleikurinn. Og það er ekki fyrr en núna og þó sérstaklega eftir svona 2–3–4 ár, get ég búizt við, þegar ástandið er orðið það, að síminn er kominn sem allra víðast heim á heimilin, að farið verður að hugsa um langlínurnar. Þetta held ég að við verðum að viðurkenna fyrir sjálfum okkur, að við höfum lagt meiri áherzlu á hitt. Ég hef áhuga á þessum málum eins og aðrir, en ég fékk ekki betri byr en það, að þegar ég vildi hrinda þessum málum áfram með því að lofa mönnum að lána til þess fé, þá var það drepið, og þau lán, sem menn hafa verið með til að koma síma áfram víða, og ég hef verið með þau mörg, eru ekki í raun og veru með samþykki Alþingis, heldur hefur ríkisstj. fallizt á að flýta fyrir málinu á þann hátt á ýmsum tímum og seinast núna í sumar, og það tel ég ágætt.

Þessir menn, sem hafa núna þennan brennandi áhuga á að flýta þessum málum — símasambandi á langleiðum — eiga náttúrlega fyrst og fremst að koma með tillögur um fjárveitingar. Það er náttúrlega það fyrsta. Það er ekki nóg að tala um að undirbúa. Það vantar ekkert annað en fé. Það vantar ekkert annað en meiri fjárveitingu til þess að geta hraðað jarðsímanum að norðan og komið honum alla leið austur á Egilsstaði, og það vantar ekkert nema fé til að geta komið upp stuttbylgjustöð á Hornafirði og afgreitt miklu fleiri samtöl austan um heldur en er. Þess vegna er það fyrst og fremst í sambandi við fjárlögin, sem þeir eiga að láta til sín heyra, þessir menn, og koma þar með tillögur um meira fé og hvernig eigi að fá það. Það mun áreiðanlega ekki standa á póst- og símamálastjóra að nota það fé, þegar hann fær það. Þetta hefur ekki verið gert, af því að þeir, sem eru með þessar till., sjá, að það er erfitt og ekki hægt að fá nóg fé, en það er gott að geta sagt kjósendum: Ég var með till. um, að þetta skyldi gert. — Já, ágætt að geta sagt það. Þetta er ein af þeim till., sem eru til að sýnast. Ef þeir vilja gera meira en að sýnast, þá eiga þeir að fara á fjárlögin og heimta fé þar og koma með till. um, að unnið sé að málunum, þar sem hægt er að gera eitthvað í þeim, annað en bara að tala til að geta sagt kjósendum, hvað þeir hafi sagt, enda þótt ekkert væri með því unnið.