08.02.1956
Sameinað þing: 38. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í D-deild Alþingistíðinda. (2628)

121. mál, póstflutningar með flugvélum til Austurlands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Í sambandi við þá till., sem hér liggur fyrir á þskj. 175, vildi ég mega leyfa mér að benda hv. þingheimi á, svo og þeirri hv. n., sem væntanlega fær þessa till., að á þskj. 64 er till. til þál. um fjölgun póstferða, flutt af hv. þm. V-Húnv. og hv. þm. Dal., að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að hlutast til um, að póstferðum verði fjölgað um þau héruð, þar sem ferðir eru nú strjálastar, svo að póstur verði fluttur um allir byggðir ekki sjaldnar en vikulega á öllum árstímum. Þessari till. var vísað til hv. fjvn. 26. okt., og er hún óafgreidd enn þá hjá nefndinni, en væntanlega kemur hún frá nefndinni á þessu þingi og það svo snemma, að það verði hægt að afgreiða málið. Mér sýnist því mjög eðlilegt, að þessi till., sem hér er til umr., fari til fjvn. og það svo snemma, að það sé hægt að afgreiða þær saman, því að það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. N-M. gat um, að það verður aldrei þolað að samþ. að flytja póst á einhverja ákveðna staði í landinu, en skilja aðra útundan. Ef hv. fjvn. kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé rétt að flytja vikulega póst á alla staði á landinu, sem ég hygg að hún muni ekki geta staðið á móti, því að það er engin sanngirni í því að neita mönnum, sem hefja baráttu í erfiðustu héruðunum, um póst einu sinni í viku, en flytja tvisvar sinnum póst á milli húsa hér í Rvík á dag, þá á að afgreiða þessar tvær tillögur samtímis. En þá kemur til greina, hvort það þykir nægilegt fyrir blaðapóst. Ef það þykir ekki nægilegt fyrir blaðapóstinn, að hann sé fluttur ásamt bréfum einu sinni í viku inn á hvert heimili, þá er þetta mál ekki leyst með öðru en að borga undir blaðapóstinn það, sem kostar að flytja hann að öðrum leiðum.

Ég minnist þess, að meðan ég var í fjvn., var sífellt deilt um þetta atriði í sambandi við kostnaðinn á blaðapóstflutningi, og þá stóðu alltaf fulltrúar blaðamanna hér í Reykjavík á móti því að hækka póstgjöldin undir blöð og böggla, en það var sýnilegt, að það var einmitt alltaf tap á þeim flutningi póstsins. Mér finnst málið mjög auðvelt, því að ef blaðamennirnir vilja ekki sætta sig við það, að blöðin komi með venjulegum pósti einu sinni í viku á hvert heimili í landinu, þá verður að hækka flutningsgjaldið um þessa 80 aura á hvert kíló, svo að hægt sé að flytja þau loftleiðis. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að það er nú verið að skipuleggja með fjárhagslegri aðstoð frá Alþingi að gera smáflugvelli sem víðast á landinu í sambandi við sjúkraflutninga, og það væri sannarlega vel til fallið, að þessar flugvélar tækju þá um leið póstflutning, hverju nafni sem nefnist, til þeirra staða, sem þær hafa ferðir á í hvert skipti. Ég veit, að það er sótt mjög á um það á Vesturlandi, þar sem ég þekki til, að sjúkraflugvélarnar taki póst, hvenær sem þær eru sendar, til þess að pósturinn berist eins fljótt og hægt er, því að það er að sjálfsögðu áhugamál þessara manna, sem búa úti á landinu, að fá bæði bréf og blöð.

Ég vil því vænta þess, að þetta mál verði sent til hv. fjvn. Ég hygg nú, að hv. flm. hafi ætlazt til þess, að það færi þangað, — hann á þar sjálfur sæti, — og að n. taki til athugunar báðar þessar till. og afgreiði þær sameiginlega, þannig að það sé tryggt, að póstflutningur fari a. m. k. einu sinni í viku inn á hvern bæ á landinu.