08.02.1956
Sameinað þing: 38. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (2629)

121. mál, póstflutningar með flugvélum til Austurlands

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. þm. Barð. var hér að ljúka við að segja, skal ég upplýsa það, að ég hafði lagt til, að till. yrði vísað til fjvn. Fjvn. hefur þegar rætt á fundi sínum þá till., sem hann minntist á og einnig fjallar um póstmál, og mér þykir mjög sennilegt, að afgreiðsla n. verði um báðar þessar till. um sama leyti, svo að það verður eflaust athugað á sínum tíma.

Mér fannst það einkenna afstöðu hv. 1. þm. N-M., að helzt væri að skilja á honum, að þessi till. væri eitthvað ónotaleg fyrir hann og honum geðjaðist eitthvað ekki að henni. Það líktist einna helzt því, að hv. þm. hefði setzt í ógáti ofan á bólu eða eitthvað þess háttar. En þetta er vitanlega með öllu ástæðulaust hjá hv. þm. Það er líka jafnástæðulaust fyrir hann að gera mér sem flm. þessarar till. upp nokkrar hugmyndir um það, að ég ætlist ekki til þess, að þessi till. nái á neinn hátt til þeirra manna, sem búa í sveitum landsins, heldur eingöngu þeirra, sem búa í kaupstöðum. Slíkt eru vitanlega getsakir með öllu út í bláinn. En ég vil hins vegar minna þennan hv. þm. á það, að þeir, sem að þessari till. standa, eins og ég hef lýst hér áður, eru fulltrúar úr öllum flokkum á Austurlandi og ekki aðeins menn frá kaupstöðunum og kauptúnunum, heldur einnig frá sveitunum. Og t. d. að taka hygg ég, að varaþm. þessa hv. þm. sé einn af þeim, sem stóðu að samþykkt þessarar till., eins og hún er hér orðuð, á fjórðungsþingi Austfirðinga. Það er því með öllu ástæðulaust að vera með neinar getsakir í minn garð eða annarra, sem að þessari till. standa, um það, að þeir ætlist eingöngu til þess að leysa póstmál þessara, en ekki hinna o. s. frv. Hið sanna er, að hér er verið að leggja til, að blaðapóstur fyrst og fremst verði fluttur til Austurlandsins alls með flugvélum. En svo get ég líka upplýst þennan hv. þm. um það, sem honum hefði reyndar átt að vera kunnugt sem þm. frá Austurlandi, að hins vegar fer svo fram allýtarleg athugun á því á milli fjórðungssambands Austfirðinga og póstmálastjórnarinnar hér í Reykjavík, hvernig bezt megi koma fyrir dreifingu póstsins þar fyrir austan á milli hinna einstöku sveitahreppa, þannig að menn yfirleitt geti notið hagræðisins af betri póstflutningum frá Reykjavík og þangað austur. Það var sem sagt álit manna þar, að það væri sjálfsagt að fara þá leið án þess að flytja það mál hér inn í þing fyrst í stað. En það vitanlega er augljóst mál, að það kemur að litlu gagni að skipuleggja betur bílasamgöngurnar þar fyrir austan og dreifingu póstsins, ef því meginskipulagi verður haldið áfram, sem hefur verið, að blaðapóstur og ýmis annar póstur fæst ekki fluttur frá Reykjavík til Austurlands nema að sáralitlu leyti með þeim hröðustu samgöngum, sem við eigum völ á, þar sem eru flugvélarnar.

Þessi hv. þm. segir, að það sé síður en svo, að það sé verra ástand á Austurlandi í þessum efnum en annars staðar. Það kann nú að vera, að hann þekki svo til. Ég verð að segja það, að þar sem ég hef leitað mér upplýsinga, hef ég ekki t. d. orðið var við það, að jafnstór byggðarlög eða kaupstaðir og eru á Austurlandi væru sett þannig, að þau t. d. fengju ekki sinn blaðapóst fluttan með flugvélum, þegar flugvélar koma þangað á staðina eða svo til á staðina sjálfa.

Annars er það auðvitað rétt, að dreifing blaðanna með flugvélum mun vera víðar en til Austurlands í lélegu skipulagi, og bendir það einnig á, að það þurfi að taka póstmálin almennt til athugunar. Póstmeistarinn í Reykjavík upplýsti mig um, að það væri allalgengt, að blöðin væru send með flugvélum, án þess að komið væri með þau til póstsins, sem sagt fyrir utan póstkerfið, menn keyptu bara undir þau sérstaklega í hverju einstöku tilfelli. Þannig hefur þetta verið til ýmissa staða, vegna þess að pósturinn hefur verið í þeirri deilu við flugfélögin, að hann hefur talið, að þau tækju of mikið fyrir hvert kíló, miðað við það, sem hann lætur blöðin aftur borga. Vitanlega er slíkt ástand fyrir neðan allar hellur, að blaðapóstur skuli ekki fara eftir hinni almennu og venjulegu póstleið, heldur skuli menn vera að kaupa undir hann eins og venjulegan stykkjavarning og í hverju einstöku tilfelli.

En það er svo aftur á móti alger misskilningur, sem fram kom hér í ræðu hæstv. ráðh. um þessi mál, þegar hann heldur því fram, að póstflutningar með flugvélum séu þannig reknir, t. d. til Vestmannaeyja, að ef rúm er í flugvélinni, þá fer pósturinn með, en annars ekki, og eins sé þetta til Austurlands. Þetta er alger misskilningur. Jafnvel þó að það séu ekki nema örfáir farþegar í vélinni til Austurlands, þá er pósturinn ekki sendur með. Og heldur kannske hæstv. ráðh. enn, að þær yfirlýsingar, sem ég las hér upp frá póstafgreiðslumönnunum á Seyðisfirði, í Neskaupstað og á Eskifirði, séu vísvitandi rangar?

Nei, þó að hæstv. ráðh. óski eftir því, að ég fari sérstökum viðurkenningarorðum um póstinn fyrir það, sem hann hefur gott gert í þessum efnum, þá get ég ekki orðið við því, vegna þess að ég tel, að gangur þessara póstmála hafi verið þannig, að það hafi ekki verið póstinum til sóma. Ég skal segja hæstv. ráðh. það, að þannig var háttað þessum póstsendingum fyrir nokkrum árum, að þá var blaðapóstur að staðaldri fluttur með flugvélum. En þegar reis upp deila á milli póstsins og flugvélanna um gjaldið, var hins vegar hætt við að flytja blaðapóstinn með flugvélum. En eftir að kröfur t. d. frá Austfjörðum fóru vaxandi í þessum efnum, fór þó pósturinn að láta undan í einstaka tilfellum, en hin almenna regla er sú, sem ég hef sagt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta. Ég hygg, að málið liggi nokkuð ljóst fyrir. En mér sýnist á þeim undirtektum, sem hér hafa komið fram, að það sé augljóst mál, að veruleg þörf er á því að gera póstsamgöngurnar greiðari og betri en þær hafa verið, án efa til fleiri svæða á landinu en til Austurlands. En hitt er líka alveg augljóst mál, að Austurland hefur nokkra sérstöðu, þar sem bílasamgöngur þangað eru yfirleitt miklu strjálli og erfiðari en til flestra annarra svæða á landinu, og því er meiri þörf á því að flytja t. d. blaðapóst þangað með flugvélum en til nokkurra annarra landshluta. Og ég vona, að hv. n., sem tekur þetta mál til athugunar, fallist á þetta sjónarmið okkar Austfirðinga vegna þeirrar sérstöðu, sem við höfum í þessu efni.