08.02.1956
Sameinað þing: 38. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (2630)

121. mál, póstflutningar með flugvélum til Austurlands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það gleður mig, að ég gat komið ofboð lítilli ljósglætu inn hjá hv. frsm., þó ekki meiri en það, að hann endar sína ræðu núna með því, að það sé sérstök þörf á því að gera þetta fyrir Austurland, því að bílasamgöngur þangað séu verri en nokkurs staðar annars staðar á landinu. Eru þær verri en þar, sem bílar koma aldrei neins staðar frá, sbr. t. d. Dýrafjörð, Suðurfjarðahreppinn o. fl.? Já miklu verri á Austurlandi en þar, sem ómögulegt er að koma bíl að neins staðar frá, nema skipa honum upp frá sjó.

En það er nú ekki það, sem ég ætlaði samt sem áður að tala við hann um, því að þetta veit hann, þegar hann gáir að sér. En það, sem ég ætlaði að svara honum um, var þetta: Hann hneykslast yfir því, að ég hafi talið, að hans till. næði sérstaklega til kaupstaðanna og að hann gleymi sveitunum. Við skulum bara líta á till. eins og hún er og ástandið eins og það er og ekkert vera að tala um, hvað hann hafi meint með henni, heldur bara eins og hún er. Hún er um það, að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um það við póststjórnina, að blaða- og bögglapóstur verði framvegis fluttur með áætlunarflugvélum til Austurlands. Hvert er flogið á Austurland? Til Egilsstaða. Hvernig eru póstsamgöngurnar um Austurland? Þær fara frá fjörðunum, eftir að skipin koma þar, tíunda hvern dag upp um allt Hérað. Hvaða gagn er í því að flytja póst þrisvar sinnum í viku austur að Egilsstöðum, sem á að fara niður í Borgarfjörð og í sveitirnar t. d.? Það fer enginn póstur þangað frá Egilsstöðum fyrr en næsta skip hefur komið að sunnan. Þegar skip kemur að sunnan, þá fer póstur frá Borgarfirði upp að Egilsstöðum. Það var fyrir sveitirnar, sem ég flutti till., segir hv. þm. Mikil ósköp. Flugvélin yrði þá að fleygja póstinum niður hér og þar í sveitinni, til þess að hann kæmist til þeirra. Nei, það var ekki verið að hugsa um það, hvernig póstsamgöngurnar voru núna fyrir austan.

Eins og póstsamgöngurnar eru nú og sé ekki breytt fleiru en tillagan gerir ráð fyrir, þá er ekkert gagn í að senda póst til Egilsstaða nema fyrir þá staði, sem hafa beinar bílferðir frá Egilsstöðum, eftir að flugvélin er komin, og það hafa firðirnir, ekki allir, en flestir að sumrinu, og kannske allir úr því að næsta sumar líður. Þess vegna þarf allt að skipuleggjast um, ekki bara með tilliti til þess, að pósturinn geti komizt fljótt í sveitirnar eða fljótt í kaupstaðina, heldur að hann geti komið sem fyrst alls staðar. Það er það, sem þarf. Það er þýðingarlaust að samþykkja till. um að senda póst með flugvélum til Austurlands, þar sem flugvélin kemur á einn stað. Hvaða gagn er að láta allan póstinn safnast saman á þeim stað, ef ekki er séð um dreifinguna þaðan út um héraðið? Það er það, sem um er að ræða. Þess vegna þýðir ekkert að einblína bara á einhvern einstakan stað og vilja gera honum til geðs. Maður verður að reyna að sjá heildina, enda þótt verið sé á einhverjum atkvæðaveiðum eða reynt að vera á einhverjum atkvæðaveiðum fyrir einhverja ákveðna kjósendur.