21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (2638)

123. mál, vitakerfið við Ísafjarðardjúp og Súgandafjörð

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er alkunna, að fullkomið vitakerfi á ströndum landsins er mjög þýðingarmikið fyrir öryggi sjófarenda. Hefur og verið unnið að því af kappi á undanförnum áratugum að koma hér upp fullkomnu vitakerfi. Þrátt fyrir það er þó vitað, að margir þessara vita eru ekki eins fullkomnir og skyldi. Til dæmis hafa okkur þm. Vestfjarða iðulega borizt kvartanir yfir því undanfarið, að vitar við Ísafjarðardjúp og að Gelti við Súgandafjörð hafi ekki nægilega mikið ljósmagn, þannig að í þeim sé ekki fullkomið öryggi eða nægilega mikið öryggi, þegar bátar leita lands. Við höfum því leyft okkur að flytja þáltill. um það, að Alþingi skori á ríkisstj. að láta í samráði við vitamálastjórnina bæta vitakerfið við Ísafjarðardjúp og Súgandafjörð, og er þá sérstaklega bent á, að nauðsyn beri til að auka ljósmagn vitanna á Arnarnesi, Óshólum við Bolungavík og að Gelti.

Ég skal ekki fjölyrða um þessa till. Ég leyfi mér að leggja til, að henni verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. fjvn., og ég vænti þess, að hv. n. fái tóm til að skila áliti um hana, þannig að hægt verði að afgreiða málið á því þingi, sem nú er að ljúka.