08.02.1956
Sameinað þing: 38. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (2642)

148. mál, fiskmat

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 338 flytjum við hv. 8. landsk. þm. og ég þáltill. um endurskoðun l. um fiskmat. Við leggjum þar til, að 5 manna mþn. verði skipuð til þess að endurskoða þessa löggjöf svo og til að leita að úrræðum til að bæta úr ágöllum þeim, sem fram hafa komið varðandi íslenzka fiskframleiðslu.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hversu mikilvægt það er okkur Íslendingum, að fiskur og fiskafurðir, sem eru okkar meginútflutningsvara, séu jafnan sem bezt úr garði gerðar, til þess að þær geti í öllum greinum uppfyllt þær kröfur, sem til vörunnar eru gerðar í markaðslöndum okkar.

Það var þannig um langt skeið, að íslenzkur fiskur var tvímælalaust talinn hin mesta gæðavara, sérstaklega saltfiskurinn gamli. Mætti nefna um það ýmis dæmi, að lengi vel var sú trú í markaðslöndum okkar, að íslenzka fiskmatið væri alger trygging fyrir því, að sú vara, sem það hefði metið í 1. flokki, væri hin mesta gæðavara. Þetta hafði áunnizt á löngum tíma, einkum með því, að fiskmatsmennirnir gerðu mjög strangar kröfur, sem uppfylltar voru af þeim, sem við fiskframleiðslu störfuðu.

Sem dæmi um þetta, er má telja bæði til skemmtunar og fróðleiks, skal ég geta þess, að fyrir ekki alllöngu talaði ég við mann, sem hafði nú nýlega verið á ferðalagi á Ítalíu. Þar hitti hann gamlan Ítala, sem vissi heldur lítið um Ísland, en þó minntist hann þess, að á yngri árum hans hefði komið frá Íslandi einhver frábær fisktegund, sem Íslendingurinn skildi ekki lengi vel, hvaða fisktegund væri, en komst þó að lokum helzt að þeirri niðurstöðu, að þetta mundi hafa verið sá frægi Bíldudalsfiskur, þ. e. a. s. saltfiskur sá, sem framleiddur var og verkaður á Bíldudal í gamla daga.

Nú er því ekki að leyna, að einkum á styrjaldarárunum síðari breyttist nokkuð aðstaða okkar að því er varðar framleiðslu á fiski sem gæðavöru. Þá var þannig háttað, að allur fiskur var mjög auðseljanlegur, hvort sem hann var fyrsta flokks vara eða ekki, og það fór einhvern veginn þannig, að á þessum árum slaknaði á þeim kröfum, sem gerðar voru um fiskmat og um fisk sem gæðavöru. Auk þess gerðist það á þessum árum, að fiskurinn var að mestu leyti fluttur út ísaður og menn týndu að miklu leyti niður að verka fisk upp á þann gamla og góða móð. Síðan hefur það komið fyrir alloft, því miður, að skemmda hefur orðið vart í íslenzkum fiski, þegar hann hefur komið á erlenda markaði, og við það hefur íslenzk útflutningsframleiðsla tvímælalaust beðið nokkurn álitshnekki.

Það er auðsætt, að þetta mál er þess eðlis, að full ástæða er til að taka það svo föstum tökum sem verða má, því að okkur er vitanlega brýn nauðsyn, að fiskur okkar verði jafnan talinn 1. flokks vara meðal viðskiptaþjóða okkar.

Þessi þáltill. miðar að því, að skipuð verði 5 manna n. til þess í fyrsta lagi að endurskoða gildandi lög um fiskmat. Jafnframt skal sú n. samkv. till. leita að öðrum færum leiðum til þess að bæta meðferð á fiski og þá gera tillögur um þær lagabreytingar eða nýja löggjöf, er þurfa þykir því viðvíkjandi.

1 tillgr. er sérstaklega bent á eitt atriði, sem n. er beinlínis ætlað að fjalla um. Það er kunnugt, að hinir almennu fiskmatsmenn taka nú yfirleitt laun með þeim hætti, að þau eru greidd af fiskframleiðanda, þeim atvinnuveitanda, sem fiskmatsmennirnir eru að meta hjá hverju sinni. Það mun einnig tíðkast allvíða, t. d. í sumum hraðfrystihúsum, að verkstjórar hraðfrystihúsanna sjálfir eru jafnframt matsmenn. Þeir eiga m. ö. o. að meta eigin framleiðsluvöru.

Það er auðsætt, að þetta er ekki alls kostar heppilegt. Jafnvel þótt menn vilji vanda verk sitt sem bezt, þá verður það að teljast óheppilegt fyrirkomulag, að fiskmatsmennirnir séu svo háðir fiskframleiðandanum sem hlýtur að vera, þegar þeir eiga til hans að sækja launin fyrir störf sín.

Þess munu vera dæmi, að fiskframleiðendur sem ekki voru ánægðir með þann matsmann, sem þeir höfðu haft, þ. e. a. s. hafa að líkindum talið hann strangari en þörf var á, hafa bókstaflega gert kröfu um það til fiskmatsins að fá aðra matsmenn. Hvort við slíkum kröfum hefur verið orðið eða ekki, um það skal ekkert fullyrða, en þær munu tvímælalaust hafa komið fram.

Það virðist því full ástæða til að athuga, hvort ekki megi breyta þessu fyrirkomulagi á þann veg, að fiskmatsmennirnir verði sem óháðastir fiskframleiðendum, þeim mönnum, sem þeir eiga að meta hjá.

Við flm. þessarar till. teljum ástæðu til þess að athuga gaumgæfilega, hvort ekki megi hverfa að því ráði, að matsmenn verði framvegis launaðir beint úr ríkissjóði, en þá kæmi að sjálfsögðu mjög til greina til þess að mæta þeim kostnaði, sem af því leiddi, að leggja fiskmatsgjald á þann fisk, sem metinn er, og rynni þá í ríkissjóð, það hátt, að jafngilti launum fiskmatsmanna, þeim sem nú eru greidd af einstaklingum. Slík skipan mundi, ef þessi leið væri farin, ekki þurfa að hafa í för með sér aukinn kostnað, hvorki fyrir ríkissjóð né fyrir fiskframleiðendur sjálfa, en tvímælalaust virðist þetta fyrirkomulag vera til bóta.

Till. þessari fylgir allýtarleg grg., og vísa ég til hennar um önnur atriði þessa máls.

Ég vil svo æskja þess, að till. verði að lokinni þessari fyrri umr. vísað til hv. fjvn.