21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í D-deild Alþingistíðinda. (2654)

185. mál, þaraverksmiðja og þangmjölsverksmiðja

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram á þskj. 474 till. til þál. um undirbúning að byggingu þaraverksmiðju á Reykhólum og þangmjölsverksmiðju í Flatey á Breiðafirði. Vegna hins skamma tíma, sem eftir er af þingi, og þeirra mörgu mála, sem hér eru á dagskrá, hef ég lofað hæstv. forseta að stytta hér mjög mál mitt og vil því leyfa mér að vísa að langmestu leyti í þá löngu grg., sem fylgir þáltill., og hin ýtarlegu fskj., sem eru prentuð með henni, þar sem er að finna þær upplýsingar, sem málið snerta, og eru þær frá tveimur stofnunum, Iðnaðarmálastofnun Íslands og rannsóknaráði.

Ég vil aðeins ljúka þessum orðum mínum með því að benda á, að hér er um að ræða ný verðmæti, sem gróa á meðan við sofum og ekki er verjandi að taka ekki og vinna úr verðmæt efni. Vænti ég þess því, að þetta mál verði samþykkt á þessu þingi, þótt skammur tími sé til þess, — vil að lokinni þessari umr. óska, að málinu sé vísað til síðari umr. og hv. fjvn., og vænta þess, að hv. n. geti afgreitt málið svo snemma, að það geti fengið fullnaðarafgreiðslu á þinginu.