12.03.1956
Neðri deild: 85. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (2659)

178. mál, innflutningur vörubifreiða

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt að fá það enn einu sinni staðfest, að núverandi ríkisstj. nýtur meira trausts en undanfarnar stjórnir og að af stuðningsmönnunum eru gerðar hærri kröfur til þessarar ríkisstj. en t. d. þeirra ríkisstj., sem áður hafa setið að völdum.

Það er vitanlega vegna þess, að þessari ríkisstj. er ætlað að vinna margt gott, að nú er borin fram till. til þál. um innflutning vörubifreiða til landsins. Það er gert vegna þess, að það er þörf á því fyrir ýmsa að fá vörubifreiðar, að endurnýja þær eða þá að nýir aðilar, sem hafa ekki áður átt bifreiðar, eigi þess kost. Ég skal ekki neita því, að þeir munu margir vera, sem gjarnan vilja fá vörubifreiðar, og að nokkur fyrirtæki munu vera, sem þurfa ýmist að endurnýja eða auka bifreiðakost sinn. Þetta eru staðreyndir, sem mér dettur ekki í hug að neita, en þessar staðreyndir hafa reyndar oft verið áður í þessu þjóðfélagi, og þá hefur ekki verið hafizt handa um að flytja till. í Alþingi um bifreiðainnflutninginn.

Hér flytja hv. tveir þm. till. á þskj. 448 um innflutning vörubifreiða. Það eru hv. þm. V-Húnv. og hv. 2. þm. N-M. Þessir hv. þm. eru engir nýgræðingar hér í þinginu. A. m. k. fyrri flm. hefur setið hér um allmörg ár, og hann hefur orðið að sætta sig við það á mörgum undanförnum árum, að ekki væru fluttar vörubifreiðar til landsins, án þess að hann kæmi með þáltill. um þetta efni. Þörfin hefur verið jafnbrýn undanfarið og nú, en hv. þm. hefur talið á þeim tímum, að það væri algerlega tilgangslaust af ýmsum ástæðum að koma með slíkar till., sennilega af því, að gjaldeyrisástæðurnar hafa verið svo slæmar þá, að hann hefur ekki treyst sér til þess að íþyngja bönkunum og gjaldeyrinum með því að óska eftir innflutningi á vörubifreiðum.

Ég vil t. d. minna á það, að 1949 eru fluttar inn aðeins 37 vörubifreiðar og almenningsbifreiðar, 1950 aðeins 10, 1951 aðeins 27, 1952 aðeins 65, og ég minnist ekki, að á þessum árum hafi komið fram í hv. Alþingi till. um aukinn innflutning á vörubifreiðum. En allir hv. þm. vita og muna, að þá vantaði marga vörubifreiðar, og ég vil segja, að á þeim árum vantaði þjóðina í heild vörubifreiðar, vegna þess að um langt skeið hafði ekki fengizt endurnýjun. En frá þessu er orðin sú breyting nú, að þjóðfélagið í heild vantar ekki vörubifreiðar, þó að ýmsa einstaklinga og fyrirtæki vanti þær. Það er t. d. að nálgast atvinnuleysi hjá ýmsum vörubifreiðarstjórum í Reykjavík þrátt fyrir miklar framkvæmdir, og fyrirtæki úti á landi hafa nú á tveimur síðustu árum endurnýjað bílakost sinn rækilega. Vil ég þar til nefna t. d. kaupfélögin og ýmiss konar atvinnufyrirtæki, sem nú eiga margar og ágætar nýlegar bifreiðar, vegna þess að þegar núverandi stjórn tók við völdum, leyfði hún innflutning á vörubifreiðum, sem ekki hafði verið gert áður. Þótt þessi stjórn tæki ekki við völdum fyrr en í september 1953, er samt fyrir hennar tilstilli flutt inn 201 vörubifreið á því ári, á árinu 1954 eru fluttar inn 299 vörubifreiðar, á árinu 1955 418, og af því að það eru tveir mánuðir liðnir af árinu 1956 og ekki hafa enn verið gefin út innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir vörubifreiðum, kemur hv. þm. V-Húnv. með þáltill. og áskorun á ríkisstj. um að hefjast nú strax handa, vegna þess, hve mikið var flutt inn í fyrra, sé þörfin því brýnni nú, og það megi ekki dragast lengra fram á árið.

Það er vitanlega sannleikur, og það er staðreynd, að menn breytast með aldrinum, og það er ekki nema gott, þegar breytingin verður til bóta. Ég álít, að sú breyting, sem hefur orðið á hv. þm. V-Húnv., sé til mikilla bóta, að gera sér svo glögga grein sem hann nú hefur gert fyrir þörfum atvinnuveganna til þess að fá bifreiðar, vegna þess að á árunum, sem ég áðan nefndi, frá 1949 til 1952, hreyfði hann ekki hönd eða fót og sagði ekkert orð um það, þótt ekkert væri flutt inn og þótt atvinnuvegirnir yrðu að sætta sig við að nota 10–15 ára gömul skrifli.

Þessi þáltill. má vitanlega fara í nefnd. Ég held, að það væri eðlilegast, að hún færi í allshn. En endanleg afgreiðsla á þessari till. hlýtur að verða á eina leið, þá leið að vísa henni til ríkisstj., vegna þess að ríkisstj. hefur sýnt á undanförnum árum, að hún hefur fullan skilning á því, að atvinnuvegirnir þurfa á vörubifreiðum að halda, þurfa að endurnýja þær, fá stærri bifreiðar og þá helzt dieselbifreiðar, og ríkisstj. mun áreiðanlega af fullum skilningi íhuga þetta mál.

Það er ekki liðið nema 2½ mánuður af þessu ári, og ég vil snúa dæminu við og segja, að vegna þess að á þremur síðustu árum hafa verið fluttar inn tæplega þúsund vörubifreiðar, geri minna til, þótt það dragist enn í nokkrar vikur að taka ákvörðun um það, hve margar vörubifreiðar verði fluttar inn á þessu ári.