26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (2668)

32. mál, húsnæðismálastjórn

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans við fsp. mínum. Ég tel svörin vera algerlega fullnægjandi, þ. e. a. s. öllu svarað, sem spurt var um. Mér þóttu þær upplýsingar, sem ráðh. veitti, að mörgu leyti mjög athyglisverðar og þá fyrst og fremst það, að ekki hafði verið tryggt meira lánsfé á þessu ári en 36 millj. kr. til þeirra þarfa, sem hér er um að ræða. Það er rúmlega þriðjungur þess, sem lofað var statt og stöðugt í grg. frv. og í ræðum forsvarsmanna ríkisstj. á síðasta þingi. Það var gert ráð fyrir því, að lán út á hverja íbúð mundi verða um 70 þús. kr. Samkvæmt þessu er ekki nema þriðjungur lánsfjárins tiltækur, og lánin ættu því ekki að verða nema tæplega 25 þús. kr. út á hverja íbúð, og má geta nærri, hvers konar lausn það er á vandamálum húsbyggjenda í landinu.

Umsóknirnar, sagði ráðherrann, að hefðu verið 2470 alls, en ýmsar þeirra mundu ekki geta komið til greina samkvæmt þeim reglum, sem um þetta gilda. En þessi umsóknafjöldi svarar til þess, að aðeins 13 þús. kr. yrðu veittar hverjum umsækjanda. Raunveruleg upphæð verður auðvitað hærri, þegar þeir umsækjendur hafa verið greindir frá, sem ekki eiga rétt á lánum samkvæmt ákvæðum sjálfra laganna.

Þá sagði ráðherra varðandi þá fyrirspurn mína, sem í raun og veru er einn kjarni málsins, hvers vegna jafnseint hafi verið hafizt handa og raun ber vitni um, að langur tími væri nauðsynlegur til undirbúnings framkvæmda af þessu tagi. Í þessu sambandi vil ég minna á eftirfarandi staðreyndir: Það var eitt aðalatriðið í stjórnarsamningi núverandi stjórnarflokka, þegar stjórnin var mynduð 1952, að gera till. um húsnæðismálin. Því var lofað að leggja þegar fyrir þingið, sem hófst 1953, till. í húsnæðismálunum. Það loforð var ekki efnt. Því hafði enn fremur verið lofað að leggja fyrir síðasta þing, í upphafi þingsins, till. um lausn húsnæðismálanna. Það loforð var ekki heldur efnt. Till. komu ekki fram fyrr en mjög seint á síðasta þingi. Þegar um það var spurt, hverju sá dráttur sætti, þá var sagt, að undirbúningur málsins hefði verið vandasamur og að ríkisstj. hefði ekki viljað leggja málið fram, fyrr en fé hefði verið tryggt til framkvæmdanna. Langir samningar við banka og tryggingafélög og sparisjóði hefðu verið nauðsynlegir og stjórnin hafi ekki viljað leggja málið fram, fyrr en allt væri klappað og klárt. Það átti að vera allt klappað og klárt, þegar málið var lagt fram á síðasta þingi, eins og greinilega kemur fram í grg. frv. Nú er sagt, þegar dráttur verður á því að hefja framkvæmd laganna, að málið hafi ekki allt verið klappað og klárt, þegar frv. var borið fram og lögin voru afgr. hér á síðasta þingi, þá hafi í raun og veru hinir mikilvægustu samningar verið eftir og á þeim hafi strandað, að hægt hafi verið að hefja lánveitingar úr sjóðnum.

Þetta er að sjálfsögðu óverjandi málsmeðferð í jafnmikilvægu máli og hér er um að ræða. Það áhugaleysi, sem hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarflokkar hafa sýnt þessu þýðingarmikla hagsmunamáli borgaranna, er óverjandi, í fyrsta lagi að leggja ekki frv. fyrir næstsíðasta þing, í öðru lagi að draga að leggja frv. fyrir síðasta þing fram undir þinglok og í þriðja lagi að hafa þá ekki lögin það rækilega undirbúin, að hægt væri að hefja framkvæmdir þegar í stað, eftir að þau voru samþ., heldur láta þennan mikla drátt verða á. Þetta tel ég óverjandi málsmeðferð og vil nota þetta tækifæri til þess að átelja hana. Að öðru leyti mun væntanlega við önnur tækifæri gefast tilefni til þess að ræða þessi mikilvægu mál nánar, en til þess er að sjálfsögðu ekki tími né ástæða í fyrirspurnatíma.