02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (2677)

200. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég mun ekki fjölyrða um það, sem hv. fyrirspyrjandi, hv. 1. landsk. (GÞG), gerði hér að umræðuefni utan við þær eiginlegu fyrirspurnir, sem hann hefur borið fram á þskj. 33. Mér þykir þó rétt aðeins að leiða athygli hans og annarra hv. þm. að því, að sú mynd, sem hann gaf af gjaldeyrisástandinu, er náttúrlega mjög ófullkomin, og stafar það af því, að þær tölur segja ekki þann sannleika, sem menn vilja vita um réttan samanburð á árinu í ár og árinu í fyrra, því að til þess að slíkur samanburður fáist, þurfa menn að hafa upplýsingar um, hverjar vörubirgðir eru af innfluttri og útfluttri vöru hvort árið um sig. Mér er nú ekki kunnugt um innfluttu vöruna, en um útflutningsvöru okkar hef ég nokkrar upplýsingar, sem ég þó hirði ekki að fara út í hér, en vörubirgðir eru miklu meiri nú en þær voru um sama leyti í fyrra.

Að öðru leyti vil ég leyfa mér að víkja beint að fyrirspurn hans. Spurt er, hversu mörg innflutningsleyfi fyrir bifreiðum hafi verið veitt gegn gjaldi samkv. lögum nr. 114 1954. Svarið er: 2760 leyfi hafa verið veitt.

Í öðru lagi er spurt: Hversu miklu hefur gjald þetta numið samtals? Svarið er: Gjaldið hefur numið 53 millj. 388 þús. kr. rúmlega.

Í þriðja lagi er spurt: Hversu mikið hefur þegar verið greitt úr sjóði þeim, sem gjaldið hefur runnið í? Svarið er: 32 millj. 912 þús. kr. rúmar.

Í fjórða lagi er spurt: Hversu lengi er talið, að sjóðurinn muni endast til þess að tryggja rekstur togaraútgerðarinnar? Svarið er: Með svipaðri mánaðargreiðslu og hingað til mun sjóðurinn endast til maíloka n. k.

Loks er spurt: Hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja rekstur togaraútgerðarinnar eftir þann tíma? Svarið er: Það hefur ekki verið gert, en það mál er ásamt ýmsum öðrum stórum og vandasömum málum í athugun hjá ríkisstj. einmitt þessar vikurnar og mánuðina.