02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í D-deild Alþingistíðinda. (2683)

200. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af þessari meinlausu spurningu. Ég verð nú að segja það, að ekki er ástæða fyrir okkur að vera að tala um þjóðarbúskapinn og gjaldeyrisástandið, ef við hættum að reikna með því, að Íslendingar vilji fara á sjó. Þessi þjóð hefur lifað á landbúnaði og fiskveiðum frá alda öðli, og við verðum að ganga út frá því, að Íslendingar haldi áfram að sækja sjóinn. Við vitum, að fólkinu fjölgar hér í landinu um nærri 3 þús. á ári, og við verðum þá líka að reikna með því, að sjómannastéttin aukist eitthvað hlutfallslega við það. En við skulum hætta að tala um góð lífskjör í landinu, ef þjóðin vill ekki lengur stunda höfuðatvinnuvegina, sem hún hefur lifað á fram að þessu.

Ég minntist á það áðan, að við hefðum notað mikinn gjaldeyri nú í tvö ár til kaupa á bátum til þess að auka skipastólinn og einnig til þess að auka framleiðslutækin á annan hátt. Við höfum byggt frystihús og verksmiðjur, og við höfum aukið fjárfestingu til mikilla muna í þeirri vissu og trú, að það verði til þess að auka framleiðsluna og gera okkur mögulegt eftirleiðis að standa við þær skuldbindingar, sem þjóðin hefur bundið sér, gera okkur mögulegt að bæta lífskjörin í landinu yfirleitt. Og það er þess vegna, sem við verjum fjármunum til kaupa á bátum og öðrum framleiðslutækjum, að við trúum því, að þjóðin vilji halda áfram að vinna.