02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (2690)

201. mál, bátagjaldeyrir

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram nokkrar fsp. til ríkisstj. varðandi bátagjaldeyrinn. Fyrirspurnirnar eru fyrst og fremst um það, hversu miklu bátagjaldeyririnn hafi numið frá upphafi og það sem af er þessu ári og hversu mikið af þessu fé hafi þegar verið greitt útvegsmönnum og sjómönnum. Enn fremur hef ég spurt, hversu miklu gjald það hafi numið, sem tekið hafi verið til greiðslu kostnaðar við framkvæmd þessara ákvæða, og hversu miklu hinn árlegi skrifstofukostnaður hafi numið, síðan ákvæðin tóku gildi.

Ástæður til þess, að ég hef talið rétt að fá allýtarlegar upplýsingar um bátagjaldeyriskerfið, eru í sem stytztu máli þær, að ég fæ ekki betur séð en að þetta kerfi sé í raun og veru að þrotum komið, að það sé að koma í ljós eða sé þegar komið í ljós, að þetta kerfi nái ekki tilgangi sínum, og þess vegna sé nauðsynlegt að fá sem gleggstar upplýsingar um, hvernig það hafi starfað fram að þessu.

Rökin fyrir þeirri staðhæfingu minni, að nú liggi nokkuð ljóst fyrir, að kerfi þetta hafi í raun og veru brugðizt, eru þau, að bátaútvegurinn hefur nú á þessu ári áreiðanlega ekkert svipað hagræði af þessu fyrirkomulagi og ætlazt var til að hann hefði af því, þegar það var sett 1951, og það kemur fram í eftirfarandi staðreyndum:

Í fyrsta lagi munu hafa safnazt fyrir allmiklar birgðir af B-skírteinum, sem ekki hefur tekizt að selja. Mér hefur skilizt, að þær birgðir muni nema um 30–40 millj. kr., sem eru þá í raun og veru styrkur, sem lofað hefur verið bátaútvegsmönnum með aðstoð kerfisins, en ekki enn þá verið greiddur þeim. Raunverulega er það fé, sem bátaútvegsmenn eiga inni hjá kerfinu, miklu meira en þetta, vegna þess að vegna birgðanna af B-skírteinum hafa ekki verið gefin út A-skírteini í stórum stíl fyrir réttindahæfum útflutningi, sem þegar hefur átt sér stað. Í þriðja lagi er svo þess að geta, að vitað er þegar um mjög mikla framleiðslu á þessu ári af réttindahæfum afurðum, sem alls ekki hafa verið fluttar út. Ég hef gert tilraun til að áætla, hversu miklu þetta allt muni nema, óseldu B-skírteinin, óútgefnu A-skírteinin og birgðirnar af réttindahæfum bátaafurðum, sem vitað er að A- og B-skírteini munu verða gefin út á, ef kerfið á að vera í gildi áfram, og má ætla, að þessi upphæð muni nema 160–170 millj. kr. Þegar „halinn“ á kerfinu, ef svo mætti segja, er orðinn svona stórkostlegur, er óhætt að fullyrða, að kerfi þetta sé hætt að ná tilgangi sínum, þannig að til einhverra annarra ráðstafana þurfi að grípa, ef halda á áfram óbreyttri aðstoð til bátaútvegsins. Það hlýtur með öðrum orðum að vera komið að vissum tímamótum í þessu efni. Það er þetta, sem hefur verið mér ástæða til þess að freista þess að fá sem gleggstar upplýsingar um, hvernig kerfið hefur starfað fram að þessu, og vænti ég, að þær verði veittar af hæstv. ríkisstjórn.