02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (2691)

201. mál, bátagjaldeyrir

Forsrh. (Ólafur Thors):

Hv. 1. landsk. þm. spyrst fyrir um bátagjaldeyrinn, sbr. þskj. 33. Hann spyrst í fyrsta lagi fyrir um, hversu miklu álag á innflutningsleyfi samkv. reglugerð um innflutningsréttindi bátaútvegsmanna hafi numið a) frá upphafi og b) það sem af er þessu ári.

Svarið er: a) Til 31. ágúst 1955 hefur álagið alls numið 306.3 millj. kr. b) Frá 1. jan. til 31. ágúst 1955 hefur álagið numið 49.5 millj. kr.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Hversu mikið af þessu fé hefur verið greitt: a) útvegsmönnum? b) sjómönnum?

Svarið er: Tekjur þær, sem innheimtar hafa verið samkv. reglugerðum um hinn skilorðsbundna frílista, hafa verið greiddar réttum aðilum samkv. samningi milli útvegsmanna og fiskkaupenda jafnóðum og þær eru innheimtar. Sjómenn fá hluta innflutningsréttindanna í hækkuðu fiskverði, og sést bezt, hver þeirra hlutur hefur orðið, á því, sem nú skal greina:

Á árinu 1951 hækkaði fiskverðið vegna réttinda bátasjómanna úr 75 aurum hvert kg fyrir slægðan þorsk með haus í 96 aura og tilsvarandi fyrir aðrar fisktegundir. Á árinu 1952 hækkaði verðið úr 75 aurum fyrir slægðan þorsk með haus í kr. 1.05 og tilsvarandi fyrir aðrar fisktegundir. Árið 1953 hækkaði verðið úr 75 aurum fyrir slægðan þorsk með haus í kr. 1.05 og tilsvarandi fyrir aðrar fisktegundir. Árið 1954 hækkaði verðið úr 85 aurum fyrir kg af slægðum þorski með haus í kr. 1.22 og tilsvarandi fyrir aðrar fisktegundir. Árið 1955 hækkaði verðið úr 85 aurum fyrir kg af slægðum þorski með haus í kr. 1.22 víðast hvar á landinu, en í tveimur verstöðvum í kr. 1.25, og tilsvarandi fyrir aðrar fisktegundir.

Sjómenn fá eins þennan hlut fiskandvirðisins og þann, sem fæst fyrir fiskinn á erlendum markaði, uppgerðan í lok hverrar vertíðar. Útvegsmenn fá aftur á móti andvirði réttindanna greitt á tvennan hátt: Þegar þeir selja fiskinn upp úr sjó, eins og það er kallað, fá þeir greiddan hluta af réttindunum samkv. áðurnefndum samningi við fiskkaupendur þá þegar, en verða að bíða eftir nokkrum hluta andvirðisins, þar til útflutningsréttindin eru seld. Útvegsmenn verða þess vegna að bíða lengi eftir þessum tekjum, eins og líka hv. fyrirspyrjandi áðan tók fram, og má t. d. benda á, að um síðustu mánaðamót var eftir að selja nokkurn hluta réttindanna vegna framleiðslu ársins 1954 og ekki byrjað að selja þessi skírteini varðandi framleiðslu ársins 1955. Útvegsmenn verða þess vegna að bíða í 1–l½ ár til þess að fá þennan hluta af tekjum sínum inn að fullu, en eins og ég tók fram, fá sjómenn sínar tekjur af þessu í lok hverrar vertíðar.

Nákvæma tölulega skýrslu um, hvernig þessi skipting á andvirði réttindanna er á milli sjómanna og útvegsmanna, er erfitt að gefa. En til upplýsinga skal ég geta þess, að mér hefur verið tjáð, að mjög muni láta nærri, að skipverjar á bátaflotanum fái 46–48% af andvirði innflutningsréttindanna, en útvegsmenn 52–54% til greiðslu á öðrum kostnaðarliðum útgerðarinnar.

Þá spyr hv. fyrirspyrjandi í þriðja lagi: Hversu miklu hefur numið samtals gjald það, sem tekið hefur verið til greiðslu kostnaðar við framkvæmd þessara ákvæða?

Svarið er: Svokallað skírteinisgjald er 1% og hefur verið innheimt frá 1. marz 1952 hjá sölunefnd innflutningsréttinda bátaútvegsins og Sambandi ísl. samvinnufélaga við sölu B-skírteina. Þetta er nákvæmlega sama eðlis og annað álag á skírteinin, enda er þetta greitt, að frádregnum kostnaði við framkvæmdina hjá sölunefndinni, réttum eigendum skírteinanna að lokinni sölu hvers framleiðsluárs, eins og skýrt var frá hér á Alþingi fyrir tveimur árum.

Hjá sölunefnd innflutningsréttinda bátaútvegsins hefur gjald það, sem hér um ræðir, numið svo sem nú skal greina: Vegna framleiðslu ársins 1951 var það 225 þús. kr. rúmar, innheimt eftir 1. marz 1952. Vegna framleiðslu ársins 1952 er það 1 millj. 240 þús. rúmlega, en þar af eru endurgreiddar 810 þús. rúmar eða 65% til skírteinaeigendanna. Árið 1953 er gjaldið 1 millj. 279 þús. kr., og þar af eru endurgreiddar 850 þús. tæplega eða um 70% til rétthafa skírteinanna. Árið 1954 mun þessi upphæð nema um 1½ millj. kr. Þar af hafa verið notaðar 611 þús. rúmar til að greiða útvegsmönnum hækkað verð á steinbít, en mismunurinn verður svo greiddur á sama hátt eigendum skírteinanna, þegar beinn kostnaður hefur verið dreginn frá.

Loks spyr svo hv. fyrirspyrjandi: Hversu miklu hefur árlegur skrifstofukostnaður við framkvæmd ákvæðanna numið, síðan þau tóku gildi?

Svarið er: Kostnaðurinn við sölu B-skírteinanna og skiptingu á andvirði réttinda hjá sölunefnd innflutningsréttinda bátaútvegsins mun hafa numið sem hér segir: Vegna framleiðslu ársins 1951 287 þús. kr., en salan stóð þá yfir í 14 mánuði. Vegna framleiðslu ársins 1952 397 þús. kr., salan stóð einnig yfir í 14 mánuði. Vegna framleiðslu ársins 1953 401 þús. kr., salan stóð yfir í 11 mánuði. Vegna framleiðslu ársins 1954 mun kostnaðurinn nema eitthvað nálægt ½ millj. kr., og salan mun standa yfir í 15 mánuði. Kostnaður, sem Samband ísl. samvinnufélaga reiknar sér vegna sölu B-skírteina, sem það hefur annazt sölu á, er hlutfallslega svipaður og hjá sölunefndinni.

Ég vona, að þetta gefi þær upplýsingar, sem hv. fyrirspyrjandi óskar eftir. Ég get vel tekið undir það með honum, að það þarf gaumgæfilegrar athugunar við og er einnig í athugun, hvort þetta kerfi hafi náð þeim tilgangi, sem vonir stóðu til, þegar það í öndverðu var sett.

Eins og menn muna, hefur alltaf verið nokkur ágreiningur um þetta hér á Alþingi, og þegar kerfið tók til starfa snemma árs 1951, vildu ýmsir hníga að því að leggja heldur skatta á ýmsar vörutegundir, úthluta þeim eftir vissum reglum. Að þessu ráði var þó hnigið, mest kannske vegna þess, að útgerðarmenn lögðu mjög mikið upp úr því, að þeir fengju fremur þessi réttindi, og þá út frá því sjónarmiði, að þeir ættu ráðstöfunarrétt á sínum gjaldeyri eða siðferðislega kröfu til vissra fríðinda í þeim efnum og vildu heldur fá það úr sjálfs sín hendi, ef svo mætti segja, eins og þeir töldu þetta form veita, heldur en að þiggja það með almennari álögum á almenning í landinu og þá kannske á allar vörur.

Hv. fyrirspyrjandi sagði að lokum, að bátaútvegurinn hefði ekki svipað hagræði af þessu kerfi nú eins og ætlazt hefði verið til. Ég býst við, að um það muni nokkuð mega deila.

Ég hygg fremur, að það sé það gagnstæða, að kerfið hafi falið í sér meiri fríðindi en í öndverðu var búizt við, enda þess verið full þörf, því að framleiðslan, sem þetta nær til, fer svo að segja stöðugt vaxandi. Jafnframt verður að játa, að framleiðslan er rekin að öðru leyti við lélegri aðstæður, þar sem tilkostnaðurinn hefur ört farið vaxandi, en afurðaverð ýmist staðið í stað, lækkað eða a. m. k. ekki hækkað sem nemur hækkuðum tilkostnaði.