19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í D-deild Alþingistíðinda. (2697)

202. mál, verðlagsuppbót úr ríkissjóði

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þessi 4. fsp., sem er í tveim liðum á þskj. 33 frá hv. 1. landsk., snertir tvo ráðherra. Hún snertir mig sem landbrh., og hún snertir hæstv. forsrh. sem ráðherra, sem hefur með útflutningsverzlunina að gera. Nú er hæstv. forsrh. sjúkur sem stendur, sem vonandi verður ekki lengi, og þess vegna getur hann ekki svarað seinni lið till. að þessu sinni, þó að upplýsingarnar séu algerlega fyrir hendi hér, og verður það því að bíða til næsta miðvikudags. En ég tel rétt að gefa upplýsingar um þann hluta, fyrri hluta þessarar fsp., sem snertir landbrn, sérstaklega, þótt þar sé ekki algerlega um landbúnaðarvörur að ræða. Fsp, er á þessa leið:

„Hversu miklar verðuppbætur hafa verið greiddar úr ríkissjóði á vörur til sölu innanlands, það sem af er þessu ári, og hve miklu er gert ráð fyrir að þær nemi samtals á árinu ?“

Ég skal geta þessa hér, og er þá miðað við, hvað ávísað hefur verið til niðurgreiðslna á vörum til neyzlu innanlands til 16. okt., og svo er áætlað til áramóta.

Það má geta þess strax, að það er mjög misjafnt, hvenær á árinu þessar verðniðurgreiðslur eru af höndum inntar af hálfu ríkissjóðs, þannig að það er ekki hægt að fá neitt glögga mynd af því, þó að nú sé miðað við, að eftir séu aðeins tveir og hálfur mánuður af árinu, öðruvísi en að athuga um leið, hvernig þetta fellur á hina ýmsu mánuði ársins. Af þeim ástæðum er þá líka m. a., að hér er gerð áætlun um þetta til áramóta eftir þeirri þekkingu, sem rn. hefur af þessu frá undanfarandi árum.

Það eru sex vörutegundir, sem greiddar eru niður vegna innanlandsnotkunar hér hjá okkur, og skal ég nú lesa upp, hverjar þær eru og hvað hefur verið greitt vegna þeirra til 16. okt. og hvað áætlað er af hálfu rn. að það verði til áramóta.

Það er þá fyrst smjör. Hafa verið greiddar til 16. okt. kr. 7126 034.60. Áætlað er, að til ársloka verði niðurgreiðslan um 9 millj, og 300 þús. kr.

Næst er það smjörlíki. Vegna þess hafa verið greiddar til 16. okt. kr. 5169 922.52. Áætlað til áramóta um 6 millj. og 700 þús.

Þá er það saltfiskur. Greitt til 16. okt. kr. 464 845.73. Áætlað til áramóta 900 þús. Kjöt. Greitt til 16. okt. kr. 2 014 744.91. En til áramóta er áætlað, að þetta nemi 3 millj. og 400 þús. kr.

Mjólk. Til 16. okt. hafa verið greiddar kr. 14 905 363.77. En áætlunin er til áramóta 28 millj.

Loks eru það kartöflur. Greitt hefur verið til 16. okt. kr. 1435 724.99. En áætlað er, að þessi niðurgreiðsla nemi til áramóta 4 millj. kr.

Niðurstöðutölurnar af þessu verða, að það er þegar búið að greiða nú 16. okt. kr. 31116 706.53. En heildaráætlun, miðað við næstu áramót, er, að niðurgreiðslurnar nemi 52 millj. og 300 þús. kr., sem að sjálfsögðu getur eitthvað vikizt til annarrar hvorrar hliðar, eins og gefur að skilja, en tæplega í mjög stórum stíl.