13.10.1955
Neðri deild: 4. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

5. mál, selja Laugarnes í Reykjavík

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ríkið keypti eignina Laugarnes eða erfðafesturéttindin þar árið 1946, þegar ráðgert var að reisa þar menntaskóla. Síðan er alveg frá því horfið, ríkið hefur ekkert við þessi réttindi að gera, og er því langeðlilegast, að Reykjavíkurbær fái þau, enda mun hann vera fús á að kaupa, þó að ekki sé raunar enn a. m. k. fullt samkomulag um greiðsluskilmála. Ég held, að það standi ekki á um verð, heldur frekar um greiðsluskilmála. En talið er, að það þurfi að fá lagaheimild til þess að selja eignina, og þess vegna er þetta litla frv. fram borið.

Eins og menn vita, er nú ætlunin að reisa menntaskóla norðan til í Eskihlíðinni, og er þegar byrjað er á mannvirkjum þar, þótt síðan hafi af fjárfestingarástæðum frestazt að halda byggingunni áfram, en a. m. k. er fullvíst, að ekki verður farið með bygginguna inn í Laugarnes, heldur tel ég afráðið, að þegar tímabært þyki að halda henni áfram, verði það þar, sem nú er búíð að grafa grunn. — Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.