02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (2705)

202. mál, verðlagsuppbót úr ríkissjóði

Forsrh. (Ólafur Thors):

Það er rétt, sem 1. landsk. þm. sagði, að ég gat ekki beinlínis um, hvað hárri upphæð bætur þessar mundu nema. Hins vegar fólust í mínum upplýsingum bendingar, sem gefa í aðalefnum rétta mynd af heildarupphæðinni.

Ég gat um, að heitið hefði verið 100 kr. uppbótum á 55 þús. tunnur af síld, sem er þá 5 ½ millj. kr., og 400 kr. uppbætur á 2000 smálestir af frystri síld til útflutnings, sem er 800 þús. kr. Þetta er samtals 6.3 millj. kr.

Síðar var hnigið að því ráði að halda áfram framleiðslunni og gefið fyrirheit um 75 kr. í stað 100 kr. á næstu 20 þús. tunnur, sem saltaðar yrðu. Nú er búið að salta það magn, en uppbætur úr ríkissjóði á það nema 1½ millj. kr., og er þá upphæðin komin upp í 7.8 millj. kr. Enn er haldið áfram söltun. Ég veit ekki, hvort mikið framhald verður á þeim rekstri, og geri ekki ráð fyrir, að um verulegan útgjaldaauka fyrir ríkissjóð umfram þessar 7.8 millj. kr. verði þar að ræða, þótt vel mætti vera, að þar yrði ein eða tvær millj. kr. til viðbótar, ef vel gengur um aflabrögð.