09.11.1955
Sameinað þing: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (2729)

204. mál, daggjöld landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Hinn 5. október síðastliðinn barst stjórn sjúkrasamlags Reykjavíkur bréf frá stjórnarnefnd landsspítalans, þar sem tilkynnt er, að ákveðið hafi verið að hækka daggjöld landsspítalans úr 75 kr. í 90 kr. og að þessi hækkun hafi komið til framkvæmda 1. okt. Bréfið er hins vegar dagsett 4. okt.

Nú hefur stjórn sjúkrasamlagsins margsinnis kvartað yfir því, að slíkar ákvarðanir sem þessi væru teknar fyrirvaralaust og án alls samráðs við stjórn sjúkrasamlagsins, en slík fyrirvaralaus tilkynning kemur sjúkrasamlaginu mjög illa og getur valdið miklum erfiðleikum og truflunum. En ekkert hefur dugað. Í þetta skipti barst tilkynningin 4 dögum eftir að hún kom til framkvæmda. Í tilkynningunni frá landsspítalanum er aðeins vitnað í bréf frá heilbrmrn., en enginn frekari rökstuðningur á þessari ákvörðun.

Sjúkrasamlag Reykjavíkur hefur nú séð sig tilneytt að hækka iðgjöld sín úr 30 kr. á mánuði upp í 38 kr. og verður án efa að hækka þau upp í a. m. k. 40 kr. um áramót, a. m. k. ef frekari hækkun verður á daggjöldunum, eins og gengið er út frá eins og nú standa sakir.

Langmestur hluti hækkunarinnar á rekstrarkostnaði samlagsins stafar af hækkuðum daggjöldum, eða um það bil helmingur af samanlagðri hækkun kostnaðarliða.

Þegar sjúkrasamlaginu barst þetta bréf, svaraði stjórn þess með því að neita að greiða þessa hækkun frá 1. okt. og taldi sig ekki heldur geta gefið svar við því, hvort hækkunin yrði greidd frá 1. nóv., fyrr en málið hefði verið rætt við Tryggingastofnunina. Tryggingastofnunin mun hafa snúið sér til félmrn. með ósk um, að þessi ráðstöfun yrði afturkölluð. Félmrn. mun hafa lagt málið fyrir þau rn., sem hlut eiga að máli, og það hefur engan árangur borið. Neitun stjórnar sjúkrasamlags Reykjavíkur á að greiða hækkun daggjaldanna fyrir október mun hafa orðið til þess, að landsspítalinn hefur látið sjúklingana sjálfa greiða mismuninn.

Ég skal taka það fram, að ég greiddi atkvæði gegn hækkun iðgjaldanna í stjórn sjúkrasamlagsins að svo stöddu. Ég taldi nauðsynlegt, að áður en til slíks neyðarúrræðis yrði gripið. yrði allt gert, sem auðið er, til þess að fá ríkisstj. til að leiðrétta það, sem gert hefur verið, hverfa frá þessari miklu hækkun daggjaldanna.

Ég held, að allir séu sammála um, að hér sé um mikið neyðarúrræði að ræða. Það er engin smáræðis upphæð fyrir hjón að þurfa að borga 80 kr. á mánuði eða 960 kr. á ári aðeins í sjúkrasamlagsiðgjöld. Það er hækkun um 1/3 á sama tíma sem grunnkaup hefur almennt hækkað um aðeins 10–11%. Þessi hækkun hækkar vísitöluna um meira en eitt stig og orkar þannig til almennrar verðlagshækkunar í landinu.

Þessi mikla hækkun á sér stað þrátt fyrir það, að mjög hefur verið dregið úr hlunnindum samlagsins á undanförnum árum, og þó tekur fyrst í hnúkana, þegar samlagsmenn eru sviptir þeim réttindum, sem lögin eiga að tryggja þeim, með því að láta þá greiða sjálfa hluta af daggjöldum landsspítalans. En mesta hættan af þessari miklu hækkun iðgjalda er þó sú, að hætt er við því, að fleiri og fleiri falli út úr tryggingu, sem aftur hefur í för með sér verri afkomu og enn meiri iðgjaldahækkun.

Ef daggjöldin verða hækkuð upp í 100 kr., þá er það 30 kr. hækkun eða hækkun um meira en 40% frá s. l. ári. Auðsætt er, að svo gífurlega hækkun er ekki hægt að rökstyðja með hækkun kaupgjalds og verðlags almennt. Þarna gengur ríkisvaldið á undan með því að slá öll met.

Sú hækkun á rekstrarhalla landsspítalans, sem stafar af auknu sjúkrahúsrými og fjölgun legudaga, getur út af fyrir sig ekki réttlætt hækkun daggjaldanna. En það, sem miklu máli skiptir í þessu sambandi, er, að hér er um mjög óhagsýna ráðstöfun að ræða. Það kemur fyrst og fremst til af því, að önnur sjúkrahús miða daggjöld sín fyrst og fremst við landsspítalann, og það er ekki hægt að neita þeim um sama gjald fyrir svipaða þjónustu. Hækkun á daggjöldum sjúkrasamlags Reykjavíkur á næsta ári verður t. d. alls nærri 2½ millj. kr., en til landsspítalans fer af því innan við 1 millj., miðað við 100 kr. í daggjald. Gera má ráð fyrir, að tekjur landsspítalans af hækkuninni verði alltaf talsvert innan við 2 millj. alls. Ef til vill getur hæstv. ráðherra upplýst, hvað eins stigs vísitöluhækkun mundi kosta ríkissjóð í auknum útgjöldum. Og enn verður að gæta þess, að hækkun iðgjalda hækkar af sjálfu sér framlag ríkissjóðs til trygginganna. En þegar þess er gætt, að niðurgreiðsla á vísitölunni um eitt stig kostar 4 millj. á sumum vörum og yfir 6 millj. á öðrum, þá þarf ekki lengur vitnanna við, að þessi ráðstöfun er harla léleg búmennska og lítil búhyggindi. Það borgar sig áreiðanlega frá almenningssjónarmiði að halda daggjöldum ríkisspítalanna lágum, enda þótt það kosti ríkissjóð nokkurt fé. Þetta hafa Danir t. d. skilið, og þess vegna eru daggjöldin, sem sjúkrasamlögin þar verða að greiða, aðeins 60 aurar á dag, og þess vegna eru sjúkrasamlagsiðgjöldin líka lág þar.

Ég vænti svo að fá skýr svör við fsp. minni frá hæstv. ráðherra og þá um leið við þeirri spurningu, sem mestu varðar: Verður þessi óheppilega ráðstöfun, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, leiðrétt?