09.11.1955
Sameinað þing: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í D-deild Alþingistíðinda. (2738)

205. mál, diplómatavegabréf

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 1, landsk. þm. (GÞG) skal ég upplýsa eftirfarandi:

Fyrsta spurningin er: Hvaða reglur gilda um útgáfu íslenzkra diplómatavegabréfa?

Hv. þm. hefur svarað þessari spurningu að nokkru leyti sjálfur, þar sem hann hefur nú fundið reglugerð, sem hér um fjallar. Ég skal samt sem áður upplýsa, hvaða reglur eru nú gildandi um þetta mál. Fyrstu reglur um útgáfu diplómatískra vegabréfa voru settar í reglugerð nr. 48, sem birt var í Stjórnartíðindum, A-deild, 14. sept. 1944, en núgildandi reglur um útgáfu diplómatískra vegabréfa er að finna í reglugerð nr. 56 um vegabréf utanrrn. frá 13. marz 1945, sem birt er í B-deild Stjórnartíðindanna fyrir það ár. Aukareglur um diplómatisk vegabréf hafa ekki verið neinar gefnar út, svo að farið er nú eftir þeim reglum, sem eru í áminnztri reglugerð. Þessar reglur eru í samræmi við það, sem mér er bezt kunnugt um að tíðkist í öðrum löndum, og ganga ekki lengra.

Ég hygg, að það sé á misskilningi eða missögnum byggt, ef hv. fyrirspyrjandi álitur, að þessar reglur hafi verið brotnar. Mér er ekki kunnugt um það.

Önnur spurningin er: Hversu mörg slík vegabréf hafa verið gefin út árlega s. l. fimm ár? Ég hef látið taka þetta upp eftir bókum ráðuneytisins, og kemur í ljós, að diplómatísk vegabréf hafa verið gefin út sem hér segir: 1951 voru gefin út 49 bréf, 1952 30, 1953 39, 1954 71, og fyrstu 10 mánuði þessa árs hafa verið gefin út 36 bréf.

Svo er þriðja spurningin: Hversu margir menn hafa nú slík vegabréf?

Nú eru í gildi 108 diplómatísk vegabréf, þar af eru 60 í höndum fastra starfsmanna utanríkisþjónustunnar og skylduliðs þeirra.