23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (2746)

95. mál, endurskoðun skattalaga

Fyrirspyrjandi (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið, þó að mér finnist að áhugi hans fyrir málinu hafi dofnað nokkuð upp á síðkastið. Ég vil láta það í ljós sem mína skoðun, að ef áhugi er fyrir því í þinginu að koma fram breytingum á skattalögum, þá er það hægt á þessu þingi, en ef áhuginn er ekki til staðar, þá er ekki við að búast, að nokkuð komi fram um málið.

Nefndin er búin að skila áliti sínu. Hæstv. ráðh. segir, að svo öflug mótmæli hafi komið fram frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, að hann hafi ekki talið sér annað fært en að taka þau til greina og senda till. aftur til nefndarinnar. Við því er að sjálfsögðu ekkert að segja. En ég vænti þá, að n., sem hefur þó verið svo röggsamleg að afgreiða málið frá sér, áður en þing hófst í haust, láti ekki á sér standa að afgreiða málið frá sér, úr því að það er til hennar komið.