23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (2748)

95. mál, endurskoðun skattalaga

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hef haft þær fregnir af störfum skattamálanefndarinnar, að hún telji það tæpast verkefni sitt að gera nokkrar till. til ríkisstj. eða Alþ. um breytingar á skattaeftirliti og ekki heldur um breytingar á aðferðinni við skattheimtuna, en þetta tvennt hefur borið mjög á góma í umræðum um skattamálin undanfarið. Mér hefur skilizt, að n. hafi einungis talið verkefni sitt að gera tillögur um efnisbreytingu á ákvæðum um skattheimtuna sjálfa, þ. e. einstaklingsskattana, sem búið er að lögleiða, og svo um félagaskattana. En skattavandamálið í heild er í raun og veru ekki leyst, þó að gerðar séu breytingar á þessum atriðum. Eftir er það verkefni, hvort ekki væri hægt að gera breytingar á skatteftirlitinu til þess að tryggja betur en nú á sér stað rétt framtöl. Sannleikurinn er sá, að eitt meginvandamálið í sambandi við skattkerfi okkar yfirleitt er ekki það, að lögin séu ófullkomin, og jafnvel ekki heldur það, að lögin sjálf séu ranglát eða óeðlileg, heldur hitt, að skatteftirlitinu er mjög ábótavant. Þess vegna tel ég mjög æskilegt, að skattanefndin teldi störfum sínum ekki lokið með tillögum sínum um nýtt fyrirkomulag félagaskattsins, heldur starfaði hún einnig að þessu hlutverki.

Varðandi það, sem ég sagði áðan um fyrirkomulag skattgreiðslunnar sjálfrar, er það að segja, að allmikið hefur verið um það rætt undanfarið, hvort ekki kæmi til mála að innheimta skattinn um leið og launagreiðslur eiga sér stað, svo sem gert er sums staðar annars staðar, þ. e. láta skattgreiðsluna ekki dragast, þangað til skattárið er liðið, heldur láta menn greiða jafnóðum af tekjum. Ég tel því mjög æskilegt, að þeir sérfróðu menn um skattamál, sem í skattanefndinni eiga sæti, gerðu sér einnig grein fyrir þessum atriðum og skiluðu till. um, hvort þetta sé framkvæmanlegt eða ekki. Ef þeir telja sér það ekki skylt eða jafnvel ekki rétt að gera það, eftir því sem þeirra skipunarbréfi væri háttað, tei ég æskilegt, að þeim séu falin þessi verkefni til viðbótar.