23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í D-deild Alþingistíðinda. (2749)

95. mál, endurskoðun skattalaga

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil taka það fram út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að mér finnst hann ekki hafa neina ástæðu til þess að segja, að nokkuð í meðferð minni á þessu máli beri vott um, að áhugi minn hafi dofnað fyrir málinu. Því er alls ekki til að dreifa, að hann hafi neitt dofnað. Hitt er annað mál, eins og hann raunar veit vel, því að hann er málinu talsvert kunnugur, að hér er um geysilega erfið viðfangsefni að ræða.

Út af því, sem hv. 1. landsk. þm. sagði, vil ég taka það fram, að það er auðvitað alveg ljóst, að verkefni mþn. er að endurskoða skattalöggjöfina alla, þar með talda þá kafla hennar, sem fjalla um framkvæmd skattalaganna og um innheimtu á sköttum, engu síður en aðra kafla laganna. Það er vitaskuld verkefni n. að endurskoða alla skattalöggjöfina. Það hélt ég, að hefði aldrei farið á milli mála, að til þess væri ætlazt.

Varðandi það, sem hv. þm. Barð. tók fram, gat ég þess, að ég hefði talið nauðsynlegt að senda málið til umsagnar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, og ég sagði ekkert um, hvort framkvæmdastjórinn hefði áður séð tillögurnar eða ekki, af þeirri einföldu ástæðu, að það var mér ekki kunnugt, og það kemur þessu máli raunar ekki við. Ég taldi sjálfsagt að senda stjórninni þetta stórfellda mál til meðferðar.