11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í D-deild Alþingistíðinda. (2767)

113. mál, samningar um landhelgina

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir mjög miður, að hæstv. forsrh. skuli vera svo önnum kafinn, að þess sé ekki að vænta, að hægt sé að fá hjá honum svolítið nánari skýringar á þeirri yfirlýsingu, sem hann gaf hér áðan.

Ég verð að taka mjög undir það með hv. 11. landsk. þm., að þessi yfirlýsing, sem hæstv. ráðh. gaf hér f. h. ríkisstj., tók ekki í mínum augum af öll tvímæli um þetta mál, því miður.

Ég hefði fagnað því mjög einlæglega, ef sú yfirlýsing hefði verið algerlega ótvíræð. En þó að því sé lýst yfir, að ríkisstj. líti svo á, að ekki komi til mála að semja um núverandi friðunarlínu sem neina frambúðarlausn í þessu efni, þá er enn hægt þrátt fyrir þetta orðalag að gera ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. geti hugsað sér að semja um hana sem einhverja tímabundna lausn, eins og orðalag erlendra blaða hefur bent til að um sé að ræða. Ég hefði gjarnan viljað heyra álit hæstv. ráðh. á því, hvort eigi að skoða yfirlýsinguna á þá leið, að það komi alls ekki til mála að semja við einn eða neinn um langa stund eða skamma um það, að Íslendingar uni við núverandi friðunarlínu. Ég lít þannig á, og ég hygg, að það geri margir, að friðunarlínan sé alls ekki og eigi ekki að vera af Íslendinga hálfu samningamál við Breta eða aðrar þjóðir, hér sé um að ræða algerlega íslenzkt mál, landhelgismálið sé fyrst og fremst íslenzkt löggjafarmál. Þess vegna tel ég það mjög óheppilegt í alla staði, ef íslenzkir aðilar eru að fjalla um samninga varðandi friðunarlínuna á einni eða annarri ráðstefnu erlendis, og ég lít þannig á, að það sé ekki gert í umboði íslenzku þjóðarinnar.