11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í D-deild Alþingistíðinda. (2776)

206. mál, fyrirætlanir bandaríska herliðsins á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að vona, að svörin við þessari fsp. verði svo skýr eða þannig, að þar verði ekki neinar gryfjur í, sem manni kynni að yfirsjást, eins og er auðséð að hafa verið í svari forsrh. áðan við þeirri fsp., sem ég þá bar fram. Af þeim umræðum, sem áðan urðu, er greinilega komið í ljós, að það hefur verið útbúið eins og gildra, þar sem manni getur yfirsézt, ef hann ætlar mönnum sæmilega vel og þeir búa yfir illu. Ég vil leyfa mér að vona, að í sambandi við þessa fsp., sem ég hef borið fram til hæstv. utanrrh., fáum við skýr svör.

Þessi fsp. er í fyrsta lagi um það, hvort standi yfir eða hafi verið gerðir samningar við bandaríska herliðið um Njarðvíkurhöfn, sem sé, hvort það hafi yfirleitt verið gerðir nokkrir samningar um það eða standi yfir eða standi til að gera samninga um að gera Njarðvíkurhöfn að höfn fyrir ameríska herinn.

Ég vil taka það fram, sem öllum þm. er kunnugt, að samkvæmt íslenzkum lögum er ekki heimilt að gera neina slíka samninga. Það eru til lög um landshöfn í Njarðvík, lög, sem Alþ. hefur sett, lög, sem Alþ. hefur kosið sérstaka nefnd til þess að framkvæma, og það ber að framkvæma, það eru lög. Hér er þess vegna spurt um það, hvort hæstv. ríkisstj. hafi þegar gert einhverja samninga við Bandaríkjaher um að brjóta íslenzk lög, um að breyta til út frá því, sem ákveðið er að gera skuli samkv. íslenzkum lögum. Þetta vona ég að við fáum skýrar og ótvíræðar upplýsingar um. Ég þarf ekki að vitna í það, sem skrifað hefur verið í blöðum undanfarið viðvíkjandi þessu. Það hefur verið skrifað bæði í stjórnarblöðum og stjórnarandstæðingablöðum allmikið um höfn í Njarðvík, og ég ætla ekkert að fara að vitna í það, sem þar stendur. En ég ætla að leyfa mér að vona, að um þetta fáist alveg skýr og ótvíræð svör.

Þá er í öðru lagi spurt að því, hvort ríkisstj. muni ljá máls á því að afhenda Bandaríkjamönnum fleiri radarstöðvar á Íslandi en þegar hefur verið gert, og meiningin með þessari fsp. er sú, hvort það sé ætlunin að láta meira íslenzkt land undir radarstöðvar en nú þegar hefur verið gert.

Það er vitanlegt, að í samtölum, sem fram hafa farið, blaðaviðtölum, sem hershöfðingi Bandaríkjahers hér á Íslandi hefur haft, hefur hann látið í ljós þær skoðanir, að það þurfi að koma upp fleiri radarstöðvum á Íslandi, og þó vitum við, að þær radarstöðvar, sem nú þegar er verið að koma upp, hafa hér á Íslandi nú þegar stórkostlega spillandi áhrif, eru bölvaldur í íslenzku þjóðlífi og þeim sýslum, sem þær eru settar niður í, orka að sínu leyti á þá landsfjórðunga, sem hafa verið lausir við spillingaráhrif ameríska hernámsins, til spillingar á sama hátt og átumeinið á Keflavíkurflugvelli er þegar farið að verka hér á Suðvesturlandi.

Ég vil leyfa mér að vonast til þess að fá skýr svör um, hvort ríkisstj. hafi að nokkru leyti léð máls á að veita Bandaríkjamönnum landrými undir fleiri radarstöðvar.

Ég vil taka það fram, að ég mundi óska eftir því, að svörin við slíkum spurningum væru skýr, að þau ættu við stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, ekki aðeins stefnu núverandi stjórnarflokka eða við skulum segja fram að næstu kosningum, hvenær sem þær yrðu, heldur líka áfram að loknum kosningum. Okkar slæma reynsla hérna á Íslandi í sambandi við þessi hermál hefur verið sú á undanförnum árum, að það hefur verið talað fagurlega fyrir kosningar og breytt illa eftir kosningar og þá venjulega afsakað sig með eitthvað breyttum kringumstæðum eða einhverju þess háttar.

Þá vil ég að síðustu taka það fram, þó að þessar fsp. mínar séu aðeins tilgreindar sérstaklega tvær, þá eru heildarfyrirspurnirnar um fyrirætlanir bandaríska herliðsins á Íslandi, og það væri þess vegna ákaflega æskilegt, að hæstv. utanrrh. sæi sér líka fært að segja okkur hér, þó að ekki sé greinilega um það spurt, hvort fram hafi komið óskir frá ameríska herliðinu eða frá Atlantshafsbandalaginu eða amerísku ríkisstjórninni um annaðhvort flotahöfn eða herskipalægi í Hvalfirði.

Það hefur verið þó nokkuð rætt um þessi mál undanfarið, og m. a. í sjálfu blaði hæstv. utanrrh., Tímanum, hafa komið fram vísbendingar um, að það hafi verið fluttar fram auknar kröfur á hendur Íslendingum um bækistöðvar hér á landi. En samtímis hefur verið tekið greinilega fram í nefndu blaði, Tímanum, að Íslendingar muni eindregið hafna kröfum um auknar bækistöðvar hér á landi, t. d. um Hvalfjörð. Þegar hins vegar er rætt um þessi mál, er oft rætt ákaflega óákveðið. Það er rætt um það viðvíkjandi Hvalfirðinum, að herforingjar Bandaríkjahers segi, að þeir þurfi að fá herskipalægi þar, en hins vegar komi sem stendur ekki til greina, að þeir fari fram á flotahöfn þar, sem mundi þýða allmikið og miklu meira.

Okkar reynsla Íslendinga er hins vegar sú, að þegar talað er um mál eins og t. d. flotalægi, herskipalægi, sé þar með átt við fyrsta sporið til þess að skapa flotahöfn. Reynslan hefur a. m. k. verið sú á þessum undanförnum átta árum, frá því að Keflavíkurflugvöllur var leigður sem ósköp saklaus millilendingarstöð, að sífellt hafa amerískar hernaðaraðgerðir hér á Íslandi og undirbúningur undir að koma hér upp miklum vígstöðvum færzt í aukana. Og þegar við þingmenn, sem fylgzt höfum með málunum á undanförnum áratugum, vitum, að hinar upprunalegu kröfur Bandaríkjastjórnar til okkar voru, á meðan hún þó áleit enga árásarhættu og enga styrjaldarhættu frá Evrópu, að fá hér herstöðvar algerlega undir sín yfirráð til 99 ára, er eðlilegt, að við viljum gjalda varhuga við hverju einasta nýju spori, sem stigið er í þessum efnum.

Þess vegna vil ég leyfa mér að vona, að hæstv. utanrrh. geti gefið okkur sem nánastar skýrslur hér um, án þess að nokkru leyti að fela þar í neinum fallgryfjum eins og forsrh. áðan, þær fyrirætlanir, sem ríkisstj. kynni að hafa, — geti gefið okkur alveg ótvíræðar upplýsingar um, í fyrsta lagi, hvernig standi viðvíkjandi Njarðvík, í öðru lagi, hvernig standi viðvíkjandi radarstöðvum, og ef hann treystir sér til, einnig hvað sé viðvíkjandi Hvalfirði og e. t. v. öðru því, sem blöðin nú þegar ekki eru farin að tala um, en ríkisstj. fyndist rétt að lofa Alþ. að fylgjast með.