11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (2778)

206. mál, fyrirætlanir bandaríska herliðsins á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin, svo langt sem þau ná.

Það er þá í fyrsta lagi viðvíkjandi höfninni í Njarðvík. Hæstv. utanrrh. gefur yfirlýsingu um það, að eins og vitað er nú, hafi verið gert samkomulag á milli ríkisstj. og amerísks hers um, að gerð verði höfn í Njarðvík, og hafnargerðin hafi verið samþykkt af íslenzkum stjórnarvöldum. Hann tekur um leið fram, svipað og ameríski hershöfðinginn tók fram í viðtölunum við blaðamennina, að íslenzkum aðilum verði gert mögulegt að vinna að þessu og það máske meira að segja án þess að það verði samkeppnisútboð um slíkt. Svo segir hann, að hafnargerð hafi verið leyfð.

Má ég spyrja: Eru ekki til lög um hafnargerðir hér á Íslandi? Eru ekki á fjárlögum sérstök ákvæði viðvíkjandi höfnum og hve miklu fé skuli varið til þeirra? Er þessi höfn, sem þarna er verið að tala um, ekki íslenzk eign? Er þetta ekki íslenzkt mannvirki? Á þetta ekki að vera eign íslenzka ríkisins eða Íslendinga? Á ekki að fara um þessi mál eftir íslenzkum lögum? Og hvaðan kemur íslenzkri ríkisstj. réttur til þess að ákveða um hafnir hér á Íslandi með einhverjum samningum, án þess að leggja fyrir Alþingi frv. um slíkar hafnir og án þess að láta koma inn í íslenzk fjárlög fjárveitingar eða annað slíkt? Eigum við ekki að ráða þessari höfn? Á þetta ekki að verða venjuleg íslenzk uppskipunarhöfn? Á þetta ekki að verða höfn með sama hætti og Reykjavíkurhöfn er höfn, þar sem skip geta lagzt að og skipað upp og íslenzkir menn vinna við og íslenzkir menn stjórna? Hvar eru lögin um þessa höfn? Hvar er sá lagagrundvöllur, sem heimilar ríkisstj. slíka samninga? Það er ekki nóg að gera samkomulag við einhvern og einhvern aðila og tilkynna það. Það verður að sjá um, að þetta byggist á íslenzkum lögum og sú ríkisstjórn, sem geri slíka samninga, hafi einhverja heimild til þess eftir lögum. Hvar eru þau lög? Sem stendur veit ég ekki til þess, að það séu nein önnur lög en lög um landshöfn í Njarðvík, sem ríkisstj. ber að framkvæma. Það má vel vera, að það sé hægt að framkvæma þau lög innan þessara fyrirætlana. Það er ekki nóg að gera eitthvert samkomulag og lýsa því yfir, tilkynna það meira að segja í útvarpi, það heimilar ekki ríkisstj. þessa hluti.

Ég veit, að einhverjir mundu kannske vilja svara því, að samkvæmt hernámslögunum geti Bandaríkjaherinn gert hér ýmsar framkvæmdir án þess að spyrja Íslendinga að, og það gerir hann. Og það, sem hann gerir af slíku á vissum stöðum á landinu, er undir hans yfirráðum enn sem komið er, á vissan hátt talið hans eign. Er það meiningin með þessa höfn í Njarðvík? Er þetta amerísk höfn? Er þetta höfn, sem herinn á að eiga, eða er þetta höfn, sem á að heyra undir íslenzk hafnarlög?

Þetta þurfum við að fá skýrt, hvort hér er verið að skapa eitthvert sérstakt fyrirbrigði, sem á að vera utan við venjuleg íslenzk lög, eða hvort hér er verið að byggja höfn, sem heyrir að öllu leyti undir íslenzka löggjöf. Ég skil t. d. ekki, hvernig eigi að fara fram á við vitamálastjórnina, sem er sú stjórn íslenzka ríkisins, sem hefur þetta með höndum, að hún hafi með hafnir að gera og teikningar og annað slíkt, ef það eru ekki íslenzkar hafnir, ef það er ekki hugsað, að það séu hafnir, sem heyra undir hana eins og hver önnur höfn og hún hafi afskipti af sem slík ásamt víðkomandi bæjaryfirvöldum og slíkum aðilum. Hvernig á að verða með þessa höfn? Hvar heyrir hún inn í íslenzk lög og íslenzka stjórnarhætti ?

Þetta vildi ég fá að vita, því að ég er þess vel minnugur, hvernig varð fyrst eftir að Keflavíkursamningurinn var gerður um alla íslenzka tollgæzlu og hvers konar margföld lögbrot og vandræði hlutust af því, að menn áttuðu sig ekki á því, að menn áttu að fara eftir íslenzkum lögum.

Ég vil svo segja það viðvíkjandi radarstöðvunum, að það mun vera rétt hjá hæstv. ráðh., að það hefur ekki komið fram opinber ósk um radarstöðvarnar. En í viðtali, sem hershöfðinginn á Keflavíkurflugvelli átti við blaðamenn, glopraðist það upp úr honum, að þeir þyrftu að fá miklu fleiri radarstöðvar á Íslandi. Það er dálítið varasamt fyrir hershöfðingja að vera að tala við blaðamenn. Þeir eiga stundum kannske til að segja það, sem þeir eiga að þegja um. Og auðvitað er það misskilningur eftir á, þegar einn hershöfðingi talar satt. Það er vitað, að þetta er það, sem þá langar til, og þetta er það, sem þeir í Ameríku skrifa um nú þegar, að það þurfi að vera heilt net af radarstöðvum. En það er bara ekki ætlazt til þess, að hershöfðingjar séu að kjafta um þetta á Keflavíkurflugvelli og það allra sízt við blaðamenn frá Þjóðviljanum, sem ekki þegja um hlutina. Þess vegna er það alveg hárrétt, sem hæstv. utanrrh. sagði, að það væri ekki komin fram nein ósk um þetta enn þá. Þetta eru sem sé bara óskir, sem eiga að koma fram eftir kosningar.

Mér þótti leitt, að hæstv. utanrrh., þó að ég hafi ekki spurt að því, skyldi ekki segja neitt viðvíkjandi Hvalfirðinum. Það hefði verið mjög gott að fá upplýsingar um það. En ég sé nú, að ég er búinn með minn tíma, þannig að ég ætla ekki að orðlengja um það.