15.02.1956
Sameinað þing: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í D-deild Alþingistíðinda. (2786)

138. mál, framkvæmd launalaga

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þá skýrslu, sem hann hér las, og þau svör, sem hann hefur gefið við fsp. minni. Tel ég, að þau svör hafi verið allfróðleg á ýmsa lund.

Mér þykir að sjálfsögðu fyrir því, að hæstv. ráðh. skyldi hafa orðið dálítið úrillur út af þessari fsp., en það var helzt á honum að heyra, að henni hefði eiginlega ekki átt að svara, þar sem hún bryti í bága við þingsköp, að því er hann taldi. Hafði hann um það allsterk orð, að ef slíkar fyrirspurnir kæmu fram, þá gæti úr fyrirspurnatímanum orðið skrípaleikur, eins og hann komst að orði.

Hæstv. ráðh. skýrði sjálfur frá því, hvaða reglur gilda um þetta, að fyrirspurnir skuli vera skýrar og að hægt skuli vera að svara þeim í stuttu máli. Ég verð að segja það, að þó að ég byggist við því, að um nokkur fríðindi hefði verið að ræða á undanförnum árum hjá opinberum starfsmönnum, þá gerði ég tæplega ráð fyrir, að þau væru svo gífurlega mikil, að ekki mundi vera hægt að svara fyrirspurnum mínum nema í ákaflega löngu máli.

Það er, eins og ég sagði áðan, leiðinlegt að valda hæstv. ráðh. erfiðleikum og fyrirhöfn, en ég verð samt að líta þannig á, að þær upplýsingar, sem þegar eru fram komnar í þessu máli, séu þess eðlis, að þjóðin megi gjarnan fá skýrslu um slíka hluti. Það er hennar fé, sem hér er verið að ráðstafa, og það er á engan hátt óeðlilegt, þótt hún fái um það að dæma, hversu réttlátt og nauðsynlegt það er í öllum tilfellum, sem þeir fjármunir eru látnir renna til.

Ég fer að sjálfsögðu ekki á þeim skamma tíma, sem ég hef hér til umráða, að ræða um einstök atriði varðandi svör hæstv. ráðh., einstaka styrki eða fjárgreiðslur eða annað slíkt. Ég vil þó alveg sérstaklega vekja athygli á svari ráðherrans varðandi 4. lið fsp. minnar, hvort nokkur breyting sé fyrirhuguð um þessi fríðindi, eftir að hin nýju launalög hafa verið sett. Hann kvað svo ekki vera, bjóst við, að allt mundi standa óbreytt áfram.

Þetta þykja mér allfróðlegar upplýsingar, og ég býst við, að svo muni fara um fleiri. Það á t. d., svo að aðeins eitt dæmi sé tekið, að haldast, að háttsettur embættismaður í háum launaflokki hafi 24 þús. kr. húsaleigustyrk til að búa í eigin íbúð, og eftir því sem mér heyrðist, mun sá hinn sami embættismaður einnig hafa risnu og bílastyrk. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum.

Ég vil endurtaka þakklæti mitt til hæstv. ráðh.fyrir þessa fróðlegu skýrslu.