15.02.1956
Sameinað þing: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í D-deild Alþingistíðinda. (2798)

207. mál, aukagreiðslur embættismanna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 8. þm. Reykv. sagði, að hann hefði lítið að þakka að þessu sinni, en ég er á allt öðru máli. Ég held, að hann hafi ástæðu til að þakka alveg sérstaklega fyrir þær bendingar, sem ég hef gefið honum um það, hvernig hann á að gera fyrirspurnir samkvæmt þingsköpunum, þannig að hann fái þeim svarað, og það sé alls ekki svo lítils virði fyrir hann, ef hann kynni að geta lært það í dag, hvernig á að gera fsp. til að fá að vita það, sem hann vill vita.

Hér stendur í þingsköpunum, eins og ég gat um áðan raunar í sambandi við fyrri fsp., að fsp. skuli vera skýrar, um afmörkuð atriði og mál. Þessi fsp., sem hér liggur fyrir, er svo óskýr, að það er hægt að skilja hana á hundrað vegu, áreiðanlega og þess vegna uppfyllir hún alls ekki ákvæði þingskapanna. Það er óhugsandi, að þessi hv. þm. geti ætlazt til þess, að stjórnin fari að taka það að sér að skilgreina, hvað sé sérsvið embættismanns í sambandi við greiðslur til embættismanna fyrir störf í mþn., álitsgerðir og annað þvílíkt; það er barnaskapur að hugsa sér, að nokkur stjórnarvöld taki að sér að gera slíka skilgreiningu. Ef hv. þm. þarf að fá upplýsingar um þessi efni, þá er honum alveg vorkunnarlaust að spyrja þannig, að það sé ekkert um að villast, hvað hann vill fá, og þá fyrst, þegar hann hefur gert það, getur hann fundið að því, ef ekki er svarað alveg hreinlega.

Ég vil út af þessu koma fram með nokkrar spurningar út af þessari fsp., sem hér liggur fyrir, alveg af handahófi, en til þess að sýna, hvernig að þessum málum er starfað.

Við skulum taka embættismann, sem jafnframt er lögfræðingur og hafa verið falin setudómarastörf. Dómarastarfið er lögfræðilegt, og því mætti telja það sérsvið lögfræðingsins. Er ætlunin, að störf þessa embættismanns í dómsmálinu verði talin störf á hans sérsviði, aðeins af því að hann er lögfræðingur, þó að hann væri setudómari einhvers staðar víðs fjarri, þar sem hann starfar? Sé umræddur embættismaður dómarafulltrúi eða sýslumaður, sýnist nokkru eðlilegra að telja dómarastarfið í umræddu máli vera starf á hans sérsviði, en þó gæti það auðvitað orkað tvímælis. Hann væri kvaddur til dómsstarfa utan síns lögsagnarumdæmis, og setudómarastarfið væri vissulega utan hans starfssviðs. Hvað er á sérsviði manns í þessu falli og hvað ekki ?

Tökum annað dæmi til þess að sýna, hvílík botnleysa og endaleysa þetta er. Við skulum taka þrjá embættismenn, sem eru skipaðir í sáttanefnd í vinnudeilu. Einn þeirra er starfsmaður í því ráðuneyti, sem fer með vinnumál, en hinir ekki. Ber nú að telja störf þessa starfsmanns unnin á hans sérsviði, þessa manns, sem starfar í því ráðuneyti, sem fer með vinnumál, en hinna ekki, eða hvað á að gera í slíku falli?

Við skulum taka enn fleiri dæmi. Það rís mál út af tollafgreiðslu á vörum t. d. Fjmrn. felur einum fulltrúa sínum, sem jafnframt er lögfræðingur, málflutning í málinu af hálfu ríkissjóðs. Eru störf fulltrúans vegna málflutningsins unnin á hans sérsviði eða eru þau það ekki? Og hvað ætti að segja, ef lögfræðingurinn væri ekki í fjmrn., heldur t. d. í einhverju öðru ráðuneyti, eða ef lögfræðingurinn væri ekki í neinu ráðuneyti, heldur í einhverri starfsgrein hjá ríkinu? Hvað ætti þá að telja í þessu falli? Ef t. d. eitthvert ráðuneyti leitar álits prófessors í lögfræði um tiltekið málefni í þeirri grein lögfræðinnar, sem prófessorinn kennir, er það sérsvið hans? Sennilega. En ef sama prófessor væri falið að undirbúa eða gera álit um lögfræðilegt atriði, sem hann ekki kenndi um í háskólanum, er það þá sérsvið hans eða er það ekki? Sama er um undirbúning lagafrv. Hvernig ætti að meta það? Hvað um það, ef frv. fjallaði um efni, sem ekki væri innan þeirrar greinar lögfræðinnar, sem prófessorinn annaðist kennslu í?

Í lögum eru ákvæði um það, að tilteknar matsgerðir skuli framkvæmdar af hæstaréttardómurum. Mundu slík störf teljast unnin á sérsviði þeirra? Og hvernig ætti að meta, ef slíkt væri ekki ákveðið í lögum, heldur gert að beiðni t. d. einhvers ráðuneytis eða annars aðila? Er það þá á sérsviði þeirra, matsgerðir eða álitsgerðir? Eða tökum t. d. hagfræðing, sem er opinber starfsmaður og gefur upplýsingar nefnd, sem ákveður verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða, lætur henni í té hagfræðilega aðstoð. Er það á hans sérsviði, þótt slíkt falli ekki undir starf hans á nokkurn hátt í þjónustu ríkisins? Hann vinnur í einhverri allt annarri stofnun, en honum er falið að taka þetta saman utan síns starfstíma og fær greiðslu fyrir það. Er það á hans sérsviði?

Svona mætti lengi telja. En dæmið um sáttanefndina, sem ég nefndi, kastar skýru ljósi á, hvílíkt handahóf yrði viðhaft, ef farið væri að reyna að gera svona lagaða skiptingu.

Auðvitað er ljóst, að grundvöllurinn að svona fyrirspurn er að reyna að fá aðstöðu til þess að drótta að vissum embættismönnum, sem taldir yrðu hafa unnið á sérsviði sínu, að þeir hafi í raun og veru haft í frammi sviksamlegt athæfi með því að vinna á sérsviði sinu fyrir aukagreiðslu að starfi, sem þeir hefðu átt að vinna sem embættismenn, og þá vitanlega að koma því á framfæri, svona með hæfilega loðnu orðalagi, að þeir mundu hafa stolið af vinnutíma sínum til þess að vinna þetta verk. Þetta er auðvitað meiningin með því að spyrjast fyrir um, hvað greitt sé fyrir verk á sérsviði manna. Það er meiningin að reyna að fá grundvöll fyrir rógi og aðdróttunum í garð embættismanna, sem hafa verið kvaddir til að vinna aukastörf, ef svo kynni að vera, að stjórnarvöldin teldu, að þau hefðu verið á sérsviði þeirra. Þannig er nú þessi fyrirspurn.

Það er títt, að samning meiri háttar lagabálka er falin nefndum. Forusta n. er oft falin þeim embættismönnum, sem hafa nánust kynni og þekkingu af þeim málum, sem nefndirnar eiga að fjalla um. Mætti því ef til vill segja, að þessi nefndarstörf séu á þeirra sérsviði, en stundum og mjög oft eru með í þessu starfi embættismenn úr öðrum starfsgreinum, sem eru líka embættismenn ríkisins, en starfa að fjarskyldari málum daglega, og hér komum við aftur að sama vandanum og sama málinu. Væri þá verið að spyrja aðeins um greiðslur til sumra af þessum nm., eða væri verið að spyrja um greiðslur til allra embættismanna, sem starfað hefðu saman í nefnd, hvaðan úr starfrækslu ríkisins sem þeir væru komnir?

Ég veit, að hv. þm. sjá, að þessi fsp. er ekki þannig, að hægt sé að ætlast til þess, að henni verði svarað með öðru en því að benda á, að hún fær ekki staðizt. Það verður að spyrja skýrara.