16.02.1956
Sameinað þing: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í D-deild Alþingistíðinda. (2802)

154. mál, glersteypa

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrri fsp. á þskj. 374 er um viðskipti eins ákveðins hlutafélags við einn af bönkunum. Mér finnst ástæða til að benda á það nú þegar, að ég tel nokkuð vafasamt, að það muni hafa þýðingu að bera fram eða leyfa hér á Alþ. slíka fsp. Ég skal raunar ekki fullyrða um það, en mér þykir mjög vafasamt, að stjórnendur bankanna telji sér heimilt eða skylt að svara slíkum fsp. um viðskipti einstakra manna, félaga eða stofnana við bankana. Ég held, að það sé rétt munað, að a. m. k. í lögum og reglum sumra bankastofnana er skýrt fram tekið, að stjórnendum þeirra og starfsmönnum öllum sé bannað að gefa upplýsingar um viðskipti einstakra viðskiptaaðila.

Ég veit ekki, hvort hv. fyrirspyrjandi hefur gert sér þetta ljóst, þegar hann samdi fsp. sína, og hvort það er álit hans, að við þm. munum geta fengið svalað fróðleiksþrá okkar hér á þingi um viðskipti einstakra manna eða stofnana við bankana með því að bera hér fram fyrirspurnir, en ég verð að draga mjög í efa, að slíkar fsp. muni hafa þýðingu eða það muni fást svör við þeim á Alþingi. Vildi ég beina því til hv. fyrirspyrjanda, 2. þm. Reykv., hvort hann teldi ekki ástæðu til að taka þessa fsp. aftur að sinni eða a. m. k. einhverja liði hennar, sem mjög virðist vafasamt að þýði að gera hér fyrirspurnir um.