16.02.1956
Sameinað þing: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (2804)

154. mál, glersteypa

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég gerði mér ljóst, þegar ég bar fram þessa fsp., að það mundi ekki þýða að bera fram svona fsp. á Alþ. viðvíkjandi neinum öðrum banka en Framkvæmdabankanum. Það er vitanlegt, að allir aðrir bankar eru þannig skipaðir að lögum, að það er gengið út frá þeim sem svo sjálfstæðum stofnunum undir sérstökum ráðum, kosnum margbrotnum kosningum, að það mundi ekki þýða að koma fram með fyrirspurnir viðvíkjandi öðrum bönkum en Framkvæmdabankanum um þetta. Um Framkvæmdabankann gildir hins vegar alveg sérstök aðstaða. Þau lög, sem ríkið hefur sett um Framkvæmdabankann, eru allt öðruvísi en öll önnur lög um alla aðra banka á Íslandi. Raunverulega, og það kom greinilega fram, þegar sá banki var stofnaður, átti hann nánast að vera ríkisstj. til ráðuneytis í fjárfestingarmálum, og bankinn er svo nátengdur ríkisstjórninni og fjmrn., að það, sem ekki er til í neinum öðrum banka á Íslandi, er ákveðið viðvíkjandi Framkvæmdabankanum, að skrifstofustjóri fjmrn. skuli eiga fast sæti í bankaráði Framkvæmdabankans. Þar að auki er bankaráð Framkvæmdabankans þannig skipað, að þrír menn eru kosnir hlutfallskosningu af Alþingi, sem ekki á sér stað með neitt annað bankaráð. Og það sýnir bezt, hvernig sérstaklega hæstv. fjmrh. og Framsfl. hefur litið á tengsl Alþingis og Framkvæmdabankans, að sjálfur hæstv. fjmrh. er kosinn í bankaráð Framkvæmdabankans af Alþingi, og er ég veit ekki, hvort hann er formaður bankaráðsins, en þá a. m. k. einn valdamesti maðurinn í því. Fjmrh. eru í 14, gr. heimiluð alveg sérstök afskipti af þeim banka. Enn fremur er í 16. gr. ákveðið um Framkvæmdabankann, þveröfugt við alla aðra banka, svo hljóðandi:

„Bankaráð hefur umsjón með starfsemi bankans. Það tekur, að fengnum tillögum bankastjóra, ákvörðun um lánveitingar og lántökur svo og um kaup og sölu skuldabréfa og hlutabréfa.“

M. ö. o.: Bankaráð Framkvæmdabankans hefur þarna valdið til þess að taka ákvörðun um lánveitingar, sem ekkert annað bankaráð mér vitanlega hefur í öllum ríkisbönkum Íslands. Þvert á móti er mér ekki annað kunnugt en að bankaráðum séu yfirleitt bönnuð afskipti af lánveitingum og bankastjórarnir hafi slíkt einir. En bankaráð Framkvæmdabankans kosið að meiri hluta af Alþingi, hefur þessa sérstöðu, þannig að það er auðséð að öllu leyti, að hugsun löggjafans, þeirra, sem þessi lög sömdu, er sú, að raunverulega sé Framkvæmdabankinn eins konar deild í stjórnarráðinu. Ég vil þess vegna taka það fram, að ég hefði ekki borið fram svona fsp. viðvíkjandi neinum öðrum banka, og ég tek alveg undir með þeim hv. þm., sem hér hafa talað viðvíkjandi bönkunum almennt, að það mundi ekki þýða að fara fram á svona. Ég skil ákaflega vel, að slíkum fsp. væri neitað. En ég álít, að Framkvæmdabankinn heyri þarna undir allt annað. Hann er raunverulega eins konar ráðuneytisdeild fyrir ríkisstj. og sérstaklega fyrir fjmrn. Og þegar veittar eru, eins og þarna hefur verið gert, a. m. k. á milli 2 og 4 millj. kr. í eitt sérstakt fyrirtæki af þessum Framkvæmdabanka, sem er sérstakur ráðuneytisbanki ríkisstjórnarinnar, þá er ekkert óeðlilegt, þó að við alþm., sem sjálfir höfum barizt á móti þessum lögum, þegar þau voru samþykkt og þegar okkur var sagt, að þessi banki ætti að vera þannig, að þar væri raunverulega bara einn bankastjóri og kannske ein skrifstofustúlka og annars hefði hann ekkert með nein bankalán að gera, komum fram með fyrirspurnir, þar sem slíkir hlutir gerast, eins og nú hafa gerzt viðvíkjandi þessu láni.

Ég vil þess vegna taka það fram einmitt út af því, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði hér réttilega, að mín fsp. og svar við henni mundi ekki gefa nein fordæmi viðvíkjandi neinum öðrum bönkum og upplýsingum þar. Mín fsp. byggist á þeirri algeru sérstöðu, sem Framkvæmdabankinn hefur, og þess vegna eru allar mínar fsp. þarna settar fram í fyrsta lagi til fjmrh. sem eins konar fulltrúa ríkisins í þessari hálfgerðu stjórnarráðsdeild, sem Framkvæmdabanki Íslands er.