16.02.1956
Sameinað þing: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (2808)

154. mál, glersteypa

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Vegna þess, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, vil ég taka það fram, að það er ekki rétt, sem hann sagði, að Framkvæmdabankinn standi undir sérstakri stjórn fjmrh. Stjórn þessa banka er þannig sett upp, að það eru þrír kosnir af Alþingi í bankaráðið, einn frá Landsbankanum og loks skrifstofustjórinn í fjmrn. Ástæðan til þess, að ég á sæti í bankaráði Framkvæmdabankans, er sú, að ég hef verið kosinn hér á Alþingi, einn af þremur til þess að eiga sæti í bankaráðinu.

Ég sýndi fram á það hér áðan, að bæði Landsbankinn og Búnaðarbankinn standa beint undir Alþingi og Alþingi kýs beinlínis stjórn beggja þessara stofnana, og þær ráða svo bankastjórana, og hvort sem bankastjórarnir taka ákvarðanir um einstök lán eða bankaráðin, þá er það víst, að með þessu bera þessar stjórnir, sem Alþingi hefur kosið, ábyrgð á málefnum bankanna.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að hér væri nokkur munur á, þar sem bankaráði Framkvæmdabankans væri ætlað að taka ákvarðanir um sjálfar lánveitingarnar, og það er rétt, og þar með vil ég svara hv. þm. Vestm. (JJós). Eins og lögin segja, ákveður bankaráðið lánveitingarnar. Það er venjan, að bankastjórinn gerir till., og þær eru samþykktar eða felldar í bankaráðinu. Bankaráðið hefur síðasta orðið. Þannig er það ekki í Landsbankanum, og það hélt ég nú sannast að segja, að hv. þm. vissi. En þetta breytir vitanlega ekki neinu um eðli þessa máls, hvort þm. eigi að geta spurt um viðskipti einstakra manna við bankana. Hvers konar hugsanagrautur væri það, ef það ætti að vera ástæða til þess að spyrja og svara um lánsviðskipti einstakra manna við banka, ef menn ákveða lánin, sem kallaðir eru bankaráðsmenn, en ekki við aðra banka, af því að þeir, sem ákvæðu lánin, eru kallaðir bankastjórar, en samt kosnir af bankaráði, sem kosið er af Alþ? Þetta er eins og hver annar heilagrautur, sem er vitaskuld ekki frambærilegur, enda vitum við, að undirrótin að þessari fyrirspurn er ekkert annað en illkvittni af hendi hv. 2. þm. Reykv., sem hefur setið um öll tækifæri til þess að ala á tortryggni í garð Framkvæmdabankans. Hann sagði það líka í raun og veru sjálfur áðan berum orðum, því að hann sagði: Er nokkuð einkennilegt við það, að þm., sem voru á móti því að stofna bankann, spyrji um starfrækslu hans?

Það er því alveg augljóst mál, að ef Alþ. leyfir þessa fyrirspurn og henni verður svarað, þá kemur ekki til mála annað en að svara fyrirspurnum um lánveitingar í öðrum bönkum, a. m. k. bönkum, sem eru á vegum ríkisins.