16.02.1956
Sameinað þing: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í D-deild Alþingistíðinda. (2809)

154. mál, glersteypa

Forseti (JörB):

Ég vil mjög gjarnan óska eftir því, að menn þreyti ekki mjög lengi úr þessu umræður um þetta þingskapaatriði. Ég hygg, að úr þessu græðist ekki svo mjög á því.

Hvað þessa fyrirspurn áhrærir, þá get ég búizt við því, að þó að leyfð yrði, þá mundi sá hæstv. ráðh., sem henni bæri að svara, einskorða svar sitt í þessu máli við það, sem hann áliti að ástæða væri til.

Viðvíkjandi fyrirspurnum yfirleitt má gera ráð fyrir, að það kunni að henda, að í þeim felist atriði, sem ráðh. telur sér ekki fært að svara og eigi ekki að svara, og þá vitaskuld lætur hann það vera, og um það verður hann að ráða. Hann verður að hafa það á sínu valdi. Hins vegar geta verið atriði í sömu fyrirspurninni, sem eru þess eðlis, að hægt er að svara, og þá er ekki svo auðvelt fyrir fram að úrskurða slíkt mál frá. Til dæmis álít ég, að forseti geti undir slíkum kringumstæðum ekki vísað máli frá, svo framarlega sem fyrirspurnirnar í heild eru ekki þess eðlis, að ekki er fært að hans dómi að svara þeim. Þetta verður þess vegna að vera matsatriði.

En Alþ. hefur það í sinni hendi, þegar borið er undir atkvæði, hvort fyrirspurn skuli leyfð eða ekki, hvernig það greiðir atkvæði um slíkt mál. Þar verður hver einstakur hv. þm. að dæma um frá sínu sjónarmiði, hvort fsp. og þá helzt annaðhvort mikið til eða kannske jafnvel í heild er þess eðlis, að ekki sé hægt að svara henni nema brjóta að einhverju leyti í bága við þær reglur eða venjur, sem gilda um það efni, sem fsp. hljóðar um. Þess vegna hef ég sett þetta mál á dagskrá og mun leita atkvæða um þessa fsp., sem gerð hefur verið hér að umtalsefni.

En í sambandi við þau fáu orð, sem ég hef sagt um það, skal ég geta þess, að ég get búizt við eftir þeirri venju og þeim reglum, sem gilda um það efni, sem fsp. fjallar um, að það sé ekki nema eitt einasta atriði í henni, sem talið væri rétt og skylt að svara, og það er undir 6. lið, þar sem spurt er um, hvernig standi á því, að kaupgjald til verkamanna fyrirtækisins sé ekki greitt lögum samkvæmt.

Gera mætti ráð fyrir, að þessi umkvörtun eða þetta mál kynni að komast út á víðara svið, en vitaskuld hefur ráðh. það í sinni hendi, hvort hann teldi þetta atriði vera þess eðlis, að hann gæti svarað því.