16.02.1956
Sameinað þing: 40. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (2813)

154. mál, glersteypa

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér hefur aldrei áskotnazt sá heiður að komast í forsetastól á Alþ. og á það víst ekki eftir, en mér þykir hlutur Alþ. nokkuð lítill gerður af hæstv. núverandi forseta Sþ. og hæstv. fyrrverandi forseta Sþ. Alþ. er ætlað það hlutverk, að það sem viljalaust verkfæri leyfi sérhvern þann ósóma, sem það er beðið um. En svo á ráðherra, sem hv. þm. A-Húnv. (JPálm) a. m. k. ber ekki ofurtraust til, þegar hann er að tala við mig, að ráða, hvernig velsæmi Alþ. fer úr höndum, þegar Alþ. er búið að afsala sér réttinum. Og það verð ég að segja, að hér er ekki bara verið að tala um það, hvort einum banka beri skylda til að segja já eða nei eða gefa upplýsingar eða ekki, hver hans skylda sé í þessum efnum, heldur hver sé réttur þjóðfélagsþegnsins og af hverju þjóðfélagsþegnsins réttur sé minni, þó að hann sé viðskiptavinur Framkvæmdabankans, en viðskiptavina Landsbankans eða annarra banka.

Ég segi þess vegna, að ég tel þessa fsp. ósæmilega, og tel ósæmilegt af Alþ. að afgreiða hana jákvætt, og þakka svo að öðru leyti hæstv. forsetum báðum fyrir verndina, sem þeir gefa okkur hér á Alþ., og traustið, sem þeir sýna, og virðinguna, sem þeir bera fyrir Sþ. Sérstaklega þykir mér gleðilegt að heyra hv. þm. A-Húnv. treysta miklu betur réttdæmi hæstv. fjmrh. en okkar, sem erum hans flokksbræður á þingi.