22.02.1956
Sameinað þing: 41. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í D-deild Alþingistíðinda. (2818)

208. mál, verðtrygging sparifjár

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, er þessi fyrirspurn ekki ný hér í þinginu, og er kannske eðlilegt, að hún sé endurvakin, þar sem með réttu má segja, að ekki hafi neitt fullnægjandi verið gert fram að þessu til þess að verðtryggja sparifé. Tilraunir hafa hins vegar verið gerðar í þá átt. Vil ég minna á nál. sparifjárnefndar, dags. 1. febr. 1955, er var útbýtt til allra hv. þm. til yfirlestrar og athugunar, en nefnd þessa skipaði ég í júní 1954 til þess að athuga, á hvern hátt mætti helzt stuðla að aukningu sparifjár og þá vitanlega um leið að tryggja spariféð, því að trygging sparifjárins er vitanlega undirstaðan undir því, að menn vilji eiga sparifé frekar en að koma því í fasteignir. Þessi nefnd skilaði áliti 1. febr. 1955, allýtarlegu, þar sem hún bendir á ýmsar leiðir til þess að auka spariféð, og ég tel ekki ástæðu til að vera að lesa upp úr þessu áliti hér, vegna þess að það er í höndum allra hv. þm. En ég vil minna á, að eitt af því, sem nefndin benti á, var sala á vísitölutryggðum verðbréfum og að sá þáttur í því, sem sparifjárnefndin minntist á, er þegar kominn í framkvæmd, þótt í litlu sé. Landsbanki Íslands hefur þegar selt milli 8 og 9 millj. kr. í vísitölutryggðum verðbréfum, en eins og kunnugt er, hefur bankinn heimild til að selja samkvæmt lögunum 40 millj. kr. Það er að vísu alveg rétt, sem sagt var hér áðan, að þetta eitt út af fyrir sig er ekki fullnægjandi, vegna þess að það verður vitanlega ekki unnt að binda allt sparifé í verðtryggðum vísitölubréfum. Það verður þess vegna fleira að koma til, og er það vitanlega í athugun. Sparifjáraukningin er undirstaðan að öllum framkvæmdum í landinu, og það er þess vegna mjög slæmt, ef sparifé hættir að safnast af þeirri ástæðu, að fólk trúir því ekki, að það borgi sig að eiga sparifé, það rýrni óeðlilega mikið og það sé þess vegna betra að koma fjármagninu í fasteignir. Sú þróun þarf vitanlega að breytast og eitthvað að gera til þess, að það geti orðið.

Hv. fyrirspyrjandi minntist hér áðan á bankamálanefndina, sem ég vitnaði í, bæði á árinu 1953 og í marzmánuði 1955, þegar fsp. í þessu formi var til umræðu. Þá var bankamálanefndinni send fsp. til umsagnar, vegna þess að viðskmrh. hafði áður sent bankamálanefndinni bréf, þar sem þess var óskað, að hún gerði ýtarlegar till. til þess að tryggja sparifé, en bankamálanefndin svaraði á þá leið, sem hv. fyrirspyrjandi gat um hér áðan, að vegna anna hefðu nm. ekki enn haft tíma til að vinna að þessu máli og gera till. þar um, en að n. hefði að sjálfsögðu áhuga fyrir því, að það gæti orðið sem fyrst.

Það er nú svo, að í þessari bankamálanefnd eru menn, sem eru störfum hlaðnir, enda hefur komið í ljós, að álit frá þessari n. hefur ekki enn legið fyrir. Ég geri ráð fyrir því, að þegar sparifjárnefndin, sem ég skipaði í júní 1954, hafði lokið störfum og það álit, sem hún sendi frá sér, lá fyrir, hafi bankamálanefndin síður talið ástæðu til, að hún legði mikla vinnu í þetta, vegna þess, hversu álit sparifjárnefndarinnar er víðtækt og með öllu óvíst, að bankamálanefndin hefði haft aðstöðu til að koma með fyllri till. eða aðrar og heppilegri till. en felast í þessu áliti.

Ég hef gert hér álit sparifjárnefndarinnar að nokkru umtalsefni og getið þess, að bankamálanefndin hefur ekki enn skilað ýtarlegu álíti, svo sem hefði mátt vænta. Hins vegar fjallaði nefnd sú, sem ég skipaði sumarið 1954, að nokkru leyti um verðtryggingu sparifjár, svo sem felst í þessu áliti, sem ég áðan nefndi. Sú nefnd er þeirrar skoðunar, að rétt sé að gera hið bráðasta tilraun með útgáfu vísitölutryggðra verðbréfa til langs tíma, eins og þegar hefur verið byrjað á. Ekki er hægt að segja fyrir um, hvernig þetta fyrirkomulag muni reynast í framkvæmd, fyrr en það hefur verið reynt, en sú litla byrjun, sem nú hefur verið hafin, sýnist gefa góðar vonir um, að þetta sé heppilegt, og víst er það, að þessi bréf, sem bankinn hafði gefið út, seldust samstundis, 6 millj. fyrsta daginn, sem bréfin voru gefin út.

Þá getur sparifjárnefndin þess, að gengistrygging eða gulltrygging kæmi einnig til mála, en hún virðist fyrir margra hluta sakir óheppilegri, þar sem gengisbreytingar eru sneggri en aðrar verðbreytingar, og mundi því slíkt fyrirkomulag geta komið mjög þungt niður á lántakendum.

Rökin, sem mæla með vísitölutryggðum verðbréfum, eru m. a. þessi, segir bankamálanefndin:

„Með vísitölutryggingu er leiðrétt það ranglæti, sem ætíð er samfara verðbólgu, að sparifjáreigandinn sé sviptur miklum hluta eignar sinnar, sem síðan lendir í höndum lántakandans. Af reynslu manna á þessu sviði hefur það leitt, að allflestir eru mjög ófúsir til að binda fé til langs tíma, og er því mikill skortur í þjóðfélaginu á fjármagni til fjárfestingar. Þetta viðhorf ætti að breytast, ef fjárhæð verðbréfa væri tryggð með vísitölu. Um lántakandann er það að segja, að hann ætti engu að tapa á þessu fyrirkomulagi nema hinum óréttmæta verðbólgugróða. Skuldir yrðu honum ekki þyngri með þessum hætti á verðgæzlutíma heldur en verið hefði, ef verðlag hefði haldizt stöðugt, þar sem eignir hans og tekjur hækka að sama skapi. Í rauninni gæti hann haft beinan hagnað af þessu fyrirkomulagi, þar sem vextir gætu verið lægri af slíkum lánum en venjulegum lánum með föstum vöxtum.

Það er líklegt, að þetta fyrirkomulag mundi gerbreyta hugarfari lántakenda. Nú er þeim beinn hagur að öllum verðhækkunum, sem verða til þess, að skuldabyrði þeirra léttist. Telja þeir sig því enga hagsmuni hafa af því að hamla á móti verðbólgu, og er það vissulega mjög alvarlegt, þar sem lántakendur eru mikils ráðandi í þjóðfélaginu og miklu áhrifameiri en sparifjáreigendur. Ef vísitölulánveitingar yrðu almennar, mundi þetta viðhorf breytast og lántakendur sjá sér engu minni hag í því en aðrir að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Frumskilyrði fyrir því, að hægt sé að halda verðlagi stöðugu, er, að sem flestir sjái, að það sé hagkvæmt fyrir þá sjálfa, ekki síður en þjóðfélagsheildina.

Loks má benda á það, að útgáfa vísitölutryggðra verðbréfa gæti haft mikla þýðingu fyrir líftryggingar, og verður síðar nánar um það rætt.“

Í samræmi við þetta álit sparifjárnefndar var veðdeild Landsbankans veitt heimild til þess að gefa út vísitölubundin verðbréf að upphæð allt að 40 millj. kr., samkv. lögum nr. 55 1955, um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Hafizt var handa um útgáfu vísitölubréfa samkv. lögum þessum í nóvember s. l. Bréfin bera 5½% vexti og eru dregin út með jöfnum upphæðum á 15 árum. Við útdrátt er grunnupphæð bréfanna greidd eiganda, að viðbættri fullri vísitöluhækkun samkv. vísitölu framfærslukostnaðar frá þeim tíma, er flokkurinn var opnaður, og til októbermánaðar næst á undan útdrætti. Andvirði seldra bréfa er varið til íbúðalána með hliðstæðum kjörum. Sala vísitölubréfanna hófst með útboði 14. nóv. s. l. Voru þá á boðstólum bréf að upphæð um 6 millj. kr. Salan gekk greiðlega, og gengu bréfin til þurrðar mjög fljótt. Nokkuð magn var boðið út til viðbótar um miðjan desember, og um áramótin nam heildarsala vísitölutryggðra bréfa 8.1 millj. kr. Sala bréfa hefur að mestu legið niðri undanfarnar vikur, en búizt er við því, að allstór upphæð verði boðin út í næsta mánuði. Sú reynsla, sem fengizt hefur, staðfestir, að allmikill áhugi er hjá mörgum sparifjáreigendum að eiga fé sitt í vísitölutryggðum verðbréfum. Útgáfa vísitölubréfa verður hins vegar að haldast í hendur við veitingu vísitölulána, og hefur hún því ekki verið örari en raun ber vitni.

Önnur till. sparifjárnefndar var þess efnis, að bankar og sparisjóðir skyldu koma á fót fastri samvinnunefnd, er skyldi athuga, hvaða aðgerðir skuli hafnar til að efla sparifjársöfnun, þ. á m. einnig athugun á útgáfu vísitöluverðbréfa og opnun vísitölubundinna sparisjóðsreikninga. Samvinnunefnd þessi var stofnuð 21. maí 1955 og mun hún væntanlega ásamt ýmsu öðru fjalla um verðtryggingu sparifjár.

Með útgáfu vísitölutryggðra verðbréfa höfum við stigið fyrsta sporið til að verðtryggja sparifé. Vegna hinnar óhagstæðu þróunar fyrir sparifjáreigendur á s. l. ári er nauðsynlegt að athuga betur, hvort rétt sé að gera frekari ráðstafanir til að vernda sparifjáreigendur, og verður það gert. M. a. er samvinnunefnd bankanna, sem getið er hér um, starfandi og hefur þetta verkefni með höndum.