18.01.1956
Efri deild: 42. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

5. mál, selja Laugarnes í Reykjavík

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. er borið fram af hæstv. ríkisstj., og Nd. hefur fallizt á efni þess og samþykkt það óbreytt eins og það var fram lagt. Það, sem hér er um að ræða, er að heimila ríkisstj. að selja Reykjavíkurbæ eignina Laugarnes í Reykjavík fyrir það verð og með þeim greiðsluskilmálum, sem um semur. Reykjavíkurbær var eigandi að þessu landi, en árið 1946 keypti ríkissjóður erfðafesturétt að landinu og nokkur hús og mannvirki, sem þar voru. Var þetta gert með það fyrir augum að tryggja þennan stað til seturs fyrir menntaskólann í Reykjavík, sem þá hafði komið til orða að byggður yrði að nýju á þessum stað. Frá þessu hefur nú verið horfið og menntaskólanum valinn annar staður, — skal ég ekki fara út í það mál, — en þar með er talið, að ríkissjóður hafi ekki not fyrir þessi erfðafesturéttindi eða þau mannvirki, sem um er að ræða þarna á eigninni. Er því lagt til í þessu frv., að ríkisstj. verði heimilað að selja Reykjavíkurbæ þessar eignir, og fellst fjhn. á, að það sé réttmætt og eðlilegt, þar sem Reykjavík mun vilja kaupa eignirnar, og leggur því til, að frv. verði samþykkt.