07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í D-deild Alþingistíðinda. (2826)

170. mál, yfirljósmóðurstarf

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að svara hv. fyrirspyrjanda, því að það, sem hann sagði núna, var heldur kraftlítið. Undrar mig ekki, þó að það hafi heldur dregið af honum í seinni ræðunni frá því er hann byrjaði.

Það er alveg ljóst, að þessi fsp. hans var með öllu ástæðulaus. Þeir, sem kynna sér þessi mál, og það hefur fyrirspyrjandi gert nokkuð með því að lesa umsögn yfirlæknisins um umsækjendurna, sannfærast um, að báðar þessar konur eru hæfar til starfsins. Og það er ekki rétt sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að deildarlæknirinn hafi ekkert sagt um það, hvort frk. Magnea væri hæf. Hann segir: „Einn umsækjendanna er ekki hæfur.“ Þar af leiðir, að hinar tvær eru hæfar.

Þetta er tilraun til að snúa út úr og leggja aðra meiningu í það, sem deildarlæknirinn hefur sagt, heldur en hann gerði, og ég sé ekki, að vegur þessa hv. þm. vaxi nokkurn hlut við það. Hann vex ekki heldur við það að fullyrða hér, að deildarlæknirinn vilji ekki bera ábyrgð á gerðum þessarar stúlku, sem nú hefur fengið yfirljósmóðurstarfið. Hann vex ekki við það, vegna þess að hér fer hann algerlega með rangt mál. Ég hef rætt við deildarlækninn um þetta, og veit vel, að það er komin fullkomin samvinna á milli hans og þessarar ljósmóður. Fullyrðingar út í bláinn, rakalausar, til þess eins að koma illu af stað, hafa ekkert að þýða. Það er virðingarvert, ef menn vilja leggja eitthvað á sig til þess að fá fullkomið réttlæti, ef einhverjum hefur verið gert rangt til. En mér dettur ekki í hug, að það sé aðeins það, sem vakir fyrir hv. fyrirspyrjanda, vegna þess að ég veit, að hann þekkir svo vel okkar stjórnmálasögu, að hann veit, að hér hafa hlutir gerzt á borð við þetta á undanförnum árum, og ætla ég ekki að lá fyrrverandi ráðherrum, þótt þeir hafi gert margt svipað því, sem ég gerði með því að veita þetta embætti.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja meira um þetta, en vil taka það fram, að ég hef alltaf fyrirlitningu á hræsninni.