21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (2829)

179. mál, jarðhiti

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram á þskj. 451 fsp. til hæstv. landbrh. þess efnis, hversu langt séu á veg komnar rannsóknir á jarðhitasvæðum og notkun jarðhita, og enn fremur, hvenær verði lokið undirbúningi heildarlöggjafar um hagnýtingu jarðhitans.

Tilefni þessarar fsp. er í fáum orðum það, að samþykkt var á Alþingi 4. febr. 1953 þáltill. frá okkur nokkrum þm. Sjálfstfl., sem þannig hljóðaði, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta hraða sem mest rannsókn á því, hvernig jarðhiti hér á landi verði bezt hagnýttur, bæði til upphitunar, orkuframleiðslu, ræktunar og iðnaðar. Skal lögð áherzla á, að gerðar verði áætlanir um nýtingu jarðhitans á sem flestum stöðum á landinu, þannig að hann verði sem mestum hluta þjóðarinnar að gagni. Jafnframt er ríkisstj. falið að undirbúa heildarlöggjöf um hagnýtingu jarðhitans, þar sem m. a. verði kveðið á um hlutdeild ríkissjóðs í kostnaði við hitaveitur, gufuorkuver og aðra nýtingu jarðhita. Skal löggjöf þessi við það miðuð, að bæjar- og sveitarfélögum, einstaklingum og félagssamtökum þeirra verði gert kleift að hagnýta þessar auðlindir íslenzkrar náttúru.“

Þál. þessi er æði yfirgripsmikil. Hún er í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar er það, að hraðað verði sem mest þeim rannsóknum, sem byrjað hafði verið á á jarðhitasvæðum landsins, og jafnframt haldið áfram athugunum á því, til hverra nota hægt væri að nota þessar mikilvægu orkulindir íslenzkrar náttúru, en svo sem öllum hv. þm. er kunnugt, er jarðhitinn einhver dýrmætasta orkulind, sem Íslendingar eiga í sínu landi. Í annan stað er svo gert ráð fyrir því, að unnið verði að setningu heildarlöggjafar um hagnýtingu jarðhitans. Það eru til ýmis lagaákvæði um jarðhita, eignarrétt yfir honum og nýtingu hans, og síðan þessi þál. var samþykkt, hefur verið sett löggjöf um hitaveitur, en engu að síður eru mörg atriði í sambandi við þetta efni enn ekki nægilega skýrt mörkuð með löggjöf, og hér er um svo þýðingarmikið mál að ræða, að full ástæða er til, að um það sé til fullkomin löggjöf.

Ég vil í því sambandi minna á, að á þessu sama þingi var samþykkt önnur þál., sem flutt var af hv. 7. þm. Reykv., þar sem ríkisstj. var falið að undirbúa löggjöf um eftirlit með jarðborunum. Þetta var efni, sem var eðlilegt að tekið væri einnig með í þessa heildarlöggjöf. Síðan hefur sú þáltill. verið endurtekin á síðasta þingi, þar sem samþykkt var þál. um að skora á ríkisstj. að hraða undirbúningi löggjafar um þetta einstaka atriði.

Okkur flm. þessa máls var mjög vel ljóst, að hér er um yfirgripsmikið mál að ræða, og við höfum fullkomlega treyst því, að unnið væri að því eftir föngum af hæstv. landbrh. að undirbúa þetta mál og gera það sem bezt úr garði og að haldið væri áfram af fullum krafti athugunum á því, hversu jarðhitann mætti hagnýta, og að kortleggja jarðhitasvæði landsins.

Það, sem hefur orðið mér sérstök hvatning til að bera þessa fsp. fram nú, er einmitt það, að á þessu þingi hefur komið fram í hv. Ed. frv. frá tveimur hv. þm. Framsfl., þar sem einmitt er rætt um eitt atriði eða einn þátt þessa máls, en það er aðstoð við sveitarfélög í sambandi við jarðboranir og leit að jarðhita. Það sýnist svo sem þessum hv. þm. hafi þótt nauðsyn bera til að hraða þessu máli meir en raun ber vitni um og hafi því séð ástæðu til að bera fram þetta sérstaka frv. og taka út úr þennan þátt þessa máls, sem vitanlega er ekki nema eitt atriði þess. Skal ég á engan hátt gera lítið úr því, því að það er vissulega mikilvægt einmitt að setja gleggri ákvæði en nú gilda um aðstoð við sveitarfélögin í leit að jarðhita. Má í því sambandi geta þess, að því miður hefur ekki verið talið fært að framkvæma þau ákvæði núgildandi löggjafar að greiða sveitarfélögum ákveðinn hluta af kostnaði í sambandi við leit að jarðhita, sem væri vitanlega mjög nauðsynlegt að gera og að það yrði framkvæmt svo sem lög gera ráð fyrir.

Þetta eru í stórum dráttum ástæður til þess, að ég hef leyft mér að bera fram þessa fsp. nú til hæstv. landbrh., til þess að hv. þm. gæfist kostur á að kynnast því, hversu þessi mál stæðu nú í dag.