03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Í gær var hér í fyrirspurnatíma rætt nokkuð um bátagjaldeyri og bátagjaldeyrisskírteini, og það var upplýst m.a., að ekki væri enn þá hafið að selja bátagjaldeyrisskírteini fyrir 1955 og ekki fullselt fyrir 1954. Nú í dag bregður svo við, að sala á bátagjaldeyrisskírteinum hefur verið stöðvuð, þannig að þeir, sem vilja kaupa bátagjaldeyrisskírteini hjá þeirri skrifstofu, sem hefur með það að gera, geta ekki fengið þau keypt. Nú er það svo, að hæstv. ríkisstj. hefur afhent skrifstofu ákveðinna samtaka þessi bátagjaldeyrisskírteini til meðferðar. Ég hef oft áður, sérstaklega í upphafi, gagnrýnt þá aðferð, sem höfð var í því sambandi, því að venjulega minnti sú skattheimta helzt á þann hátt, sem einvaldskonungar höfðu í Frakklandi fyrir byltinguna, þegar aðalsmönnum vár leyfilegt að skattleggja þegnana eftir vild og hirða sjálfir skattana. Upphaflega var enginn lagabókstafur einu sinni fyrir þessu, en nú telur hæstv. ríkisstjórn sig hafa nokkurn lagabókstaf fyrir því, en engu að síður er farið allt öðruvísi með innheimtuna á þessum skatti eða tolli en með allt annað, sem snertir fjárhag ríkisins. Ég vildi leyfa mér, þó að það sé hér utan dagskrár, að spyrja og þá líklega fyrst og fremst hæstv. viðskmrh., hvort þetta sé með vitund ríkisstjórnarinnar gert, að svona sé farið að, og hverju þetta muni sæta. Það er allundarlegt, ef menn, sem hefur frá hálfu ríkisstjórnarinnar verið úthlutað ákveðnum leyfum, sem þeir eiga að selja, og það kallað frílisti, geta allt í einu stöðvað alla slíka sölu og verið svo um leið að kvarta yfir, að ekki fáist nóg handa útveginum. Ég veit, að formlegra hefði verið að bera fram skriflega fyrirspurn, en það mundi hafa þýtt, að mál eins og þetta kæmi ekki til umr. fyrr en miðvikudaginn eftir tæpan hálfan mánuð, svo að það hefði auðvitað litla þýðingu að bera slíka skriflega fyrirspurn fram í svona máli. Ég vildi þess vegna leyfa mér að æskja þess, ef hæstv. viðskmrh. gæti gefið okkur upplýsingar um það, hverju þetta sæti og hvort búast megi við, að þessu verði kippt nú þegar í lag. Ég er sem sé hræddur um, að ef einhver stöðvun verður í þessu, þá kunni það að gefa undir fótinn alls konar orðrómi um, að það stæði fyrir dyrum að breyta bátagjaldeyrisskilyrðunum, annaðhvort bæta við nýjum vörutegundum, hækka álag eða annað þess háttar. Það er vitanlegt, að allur slíkur orðrómur mundi valda truflunum í viðskiptum. Þess vegna væri bezt, ef hægt væri nú þegar að upplýsa, hvernig á þessu stæði, og kippa þessu í lag, ef unnt væri.